02. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Hagfræðingur tekinn til starfa hjá læknafélögunum
Læknablaðið hefur áður tilkynnt um komu hagfræðings til starfa á skrifstofu læknafélaganna en þá reyndist það mýrarljós. Nú er hins vegar kominn til starfa Guðbjartur Ellert Jónsson og þegar farinn að sýsla við hagrænar hliðar heilbrigðiskerfisins.
Bjartur er 41 árs að aldri, fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri 1986 og B.Sc. prófi í viðskipta- og markaðsfræðum frá University of South Carolina í Bandaríkjunum árið 1990. Hann leggur nú stund á MPA nám - stjórnun í opinberum rekstri - við HÍ meðfram starfi.
Að námi loknu starfaði Bjartur hjá Jötni hf. í Reykjavík, Samherja á Akureyri og Útvegssviði VMA á Dalvík. Árið 2000 sneri hann sér frá fiskinum að heilbrigðismálunum og hefur starfað á skrifstofu fjármála og upplýsinga á Landspítalanum undanfarin fjögur ár. Þar var helsta verkefni hans að þróa og innleiða DRG-kerfið en hann stjórnaði vinnu við kostnaðargreiningu læknisverka.
Bjartur hefur setið í verkefna- og sérfræðihópum, bæði innanlands og erlendis og haldið fyrirlestra um rekstur heilbrigðiskerfa víða.
Hann á þrjú börn, Töru Björt 18 ára, Elís Orra 13 ára og Gauta Frey 9 ára.
Við bjóðum Bjart velkominn til starfa.