02. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Tvær athugasemdir vegna greinarinnar "Vísindastörf á Landspítala" í desemberhefti Læknablaðsins 2004

Í greininni (1) stendur: "...Íslendingar koma mjög vel út úr alþjóðlegum samanburði á gæðum greina í klínískri læknisfræði en árin 1994-98 var að meðaltali vitnað 6,7 sinnum í íslenskar greinar í þessum flokki og er Ísland þar efst á heimsvísu."

Athugasemd um meðaltal

Ekki er gefið upp hversu margar greinar eru að baki meðaltalinu 6,7 né hver sé forsenda þess að grein sé tekin með í útreikninga á þessu meðaltali. Ætla verður að átt sé við greinar frá öllu landinu en ekki bara frá Landspítalanum sem heiti greinarinnnar vísar þó til. Óljóst er hvaðan erlendu meðaltölin eru
komin. Ekki eru gefnar þær upplýsingar sem þarf til að endurtaka útreikninga sem gerðir voru.

Meta má út frá upplýsingum fyrir árin 1993 og 1998, sjá mynd 3 í greininni, hver fjöldi greina í klínískri læknisfræði var hvort þessara ára. Árlegur meðalfjöldi þessara tveggja ára er um 80 og er sú tala notuð fyrir hvert ár á fimm ára tímabilinu 1994 til 1998. Fjöldinn fyrir tímabilið er þá um 400 og ef mest tilvitnaða grein (2) "...frá Landspítala..." er talin hér með þá stendur sú grein ein fyrir tæplega 30% (en 24% ef fjöldi greina væri 500) af meðaltalinu 6,7. Fjöldi tilvitnana í þessa grein er tæplega 800 í ágúst 1999. Ef þessari grein er sleppt þá yrði meðaltal þeirra sem eftir verða 4,7. Þetta er þó ekki eina greinin sem sker sig úr hvað tilvitnanafjölda varðar en ekki verður reynt hér að meta áhrif þeirra greina á meðaltalið. Meðaltöl stærri þjóðanna á mynd 5 í greininni eru ekki eins háð einstaka greinum sem hafa mikinn fjölda tilvitnana.

Af þessu sést að meðaltalið 6,7 er að stórum hluta borið uppi af tilvitnunum í eina grein og gefur því villandi vísbendingu um hvar (ef á einum stað) tölurnar hafa tilhneigingu til að safnast. Betri vísbending ætti að fást með miðgildi (median) og tíðasta gildi (mode) en hvorugt er hægt að meta út frá greininni! Til að átta sig betur á útreikningum þá gæti verið ástæða til að birta gögnin á netinu.

Athugasemd um gæði

Í ofannefndri tilvitnun er tilvitnanafjöldi notaður sem "mælikvarði" á gæði og því er tilefni til eftirfarandi skoðunar:

Leitað var á Web of Science í Science Citation Index Expanded fyrir tímabilið 1994 til 1998 og út frá því skilyrði að að minnsta kosti einn greinarhöfundur væri á Landspítalanum ("Enter abbreviated terms from an author's affiliation").

Fjöldi greina sem fannst var 122. Fyrir þessar greinar var kannað hvort samband væri milli fjölda heimildagreina sem notaðar eru í hverri einstakri grein og fjölda tilvitnana sem hún hafði fengið í árslok 2004, sjá mynd. Kendals fylgnistuðull er 0,37 (p<0,0001) og samkvæmt því er tilhneiging til að fjöldi tilvitnana í grein sé meiri því fleiri sem heimildagreinar hennar eru. Ef fjöldi tilvitnana er notaður sem "mæli­kvarði" á gæði (eins og gert er í greininni) og þar sem fjöldi tilvitnana í grein hefur fylgni við fjölda heimildagreina þá vaknar eftirfarandi spurning. Er fjöldi heimildagreina "mælikvarði" á gæði, eða gildir: "Vitnaðu í mig og þá mun ég vitna í þig..."

Mynd 1. Dreifirit (scatter diagram) sýnir fjölda tilvitnana á móti fjölda heimildagreina. Eftirfarandi fimm punktar eru ekki sýndir á dreifiriti en þeir eru í fylgniútreikningi: (27,236), (26,277), (19,90), (36,3710) og (29,124).

Að lokum má geta þess að mest tilvitnaða grein (2) "...frá Landspítala..." byggir á fjölþjóðlegri lyfja­rannsókn og hefur rúmlega 370 höfunda en í "Vísindastörf á Landspítala" er sagt "...fjölsetra lyfja­rannsókn með þátttöku um 200 lækna." Þessi grein "...náði 3180 til­vitnunum í september 2004." Áhrif þessarar greinar í mynd 7 eru áberandi. Til samanburðar má hafa í huga að tímamótagrein Watson og Crick sem lýsir byggingu DNA og birtist í Nature 1953 hafði náð tæplega 2400 tilvitnunum á 50 árum, eða í apríl 2003, sam­kvæmt ISI Science Citation Index, sjá einnig (3).

Heimildir

1. Sveinbjörnsdóttir S, Guðnadóttir AS, Þjóðleifsson B. Vísinda­störf á Landspítala. Alþjóðlegur og íslenskur samanburður. Lækna­blaðið 2004; 90: 839-45.
2. Randomised trial of cholesterol lowering in 4444 patients with coronary heart disease:the Scandinavian Simvastatin Survival Study (4S). Lancet 1994; 344: 1383-9.
3. Strasser BJ. Who cares about the double helix? Nature 2003; 422: 803-4.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica