02. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Doktorsvörn við læknadeild Háskóla Íslands

Þann 21. september síðastliðinn fór fram doktorsvörn við læknadeild Háskóla Íslands. Ólafur Baldursson lungnalæknir varði ritgerð sína "Starfsemi og gerð klóríðjónaganga slímseigju" (e. Function of the regulatory domain in the cystic fibrosis transmembrane conductance regulator chloride channel).

Ritgerðin fjallar um rannsóknir Ólafs við University of Iowa, í Iowa City í Bandaríkjunum 1996-2000. Aðferðum sameindalíffræði og raflífeðlisfræði var beitt til þess að skýra starfsemi og gerð klóríð­jónaganga sem gölluð eru í sjúklingum með arfgenga slímseigju (e. cystic fibrosis). Niðurstöður voru birtar í American Journal of Physiology, Journal of Biological Chemistry og í Proceedings of the National Academy of Sciences, en þar hefur einnig birst grein um nýjar aðferðir við genameðferð slímseigju, sem byggir á verkefninu. Leiðbeinandi Ólafs var Michael J. Welsh, prófessor í lyflækningum og lífeðlisfræði við University of Iowa og vísindamaður hjá Howard Hughes Medical Institute.

Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar, stjórnaði athöfninni. Andmælendur voru Dr. David N. Sheppard, prófessor í lífeðlisfræði við háskólann í Bristol og Hákon Hákonarson, læknir og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu. Formaður doktorsnefndar var Guðmundur Þorgeirsson prófessor og sviðsstjóri, en aðrir nefndarmenn voru Guðmundur Hrafn Guðmundsson prófessor, Magnús Jóhannsson prófessor og Stefán B. Sigurðsson prófessor.

Ólafur Baldursson lauk kandídatsprófi frá lækna­deild 1990. Að loknu kandídatsári við Sjúkrahús Akraness starfaði hann í tvö ár við lyflækningadeild Landspítala. Árin 1993-2000 nam hann lyf- og lungna­lækningar við University of Iowa og stundaði ofangreindar rannsóknir. Frá 2001 hefur Ólafur starfað við lungnadeild Landspítala og rekið lækningastofu í Læknasetrinu í Mjódd, verið framkvæmdastjóri framhaldsmenntunarráðs læknadeildar frá 2002 og lektor við lyfjafræðideild HÍ frá síðastliðnu sumri.

Eiginkona Ólafs er Hulda Harðardóttir, lyfjafræðingur. Börn þeirra eru Gunnar, f. 1993 og Hildur, f. 1996 en fyrir á Ólafur Stefán, f. 1985.

Doktor Ólafur Baldursson.

Forsíða doktorsritgerðarinnar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica