09. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Stjórn og vísindi á háskólasjúkrahúsi

Völd eða verðleikar

Á Landspítala er starfandi fólk sem hefur aflað sér þekkingar og menntunar frá mörgum af bestu sjúkra­húsum og kennslustofnunum heims. Þessir starfsmenn halda uppi starfsemi spítalans og gæðum, veita landsmönnum nýjustu og bestu læknisþjónustu sem völ er á. Á spítalanum fer einnig fram kennsla flestra heilbrigðisstétta ásamt rannsókna- og vísindavinnu. En spítalinn á við vanda að stríða, svokallaðan miðstýringardraug. Eigandi spít­alans, íslenska ríkið, hefur ekki fundið besta og farsælasta rekstrarfyrirkomu­lagið því draugurinn, valda­bröltandi kerfiskarlar, flautar þar við flestar dyr. Þeir sem eiga að stjórna þar, stjórna ekki. Stjórnarnefnd spítalans sem ber rekstrarlega og stefnumarkandi ábyrgð er pólítískt skipuð aðkomufólki sem hefur mismunandi mikla þekkingu á rekstrinum. Læknadeild Háskóla Íslands hefur hverfandi vægi í stjórn en ber ábyrgð á kennslu og vísindum. lbl-forsida 7-2004Læknar, þar með taldir yfirlæknar, sem bera fræðilega og faglega ábyrgð á stofnuninni lögum samkvæmt fá ekki að koma að yfirstjórn hennar nema sem ráðgefandi aðili. Á milli þessara þriggja aðila, Stjórnarnefndar spítalans, læknadeildar háskólans og fagfólksins, lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna sjúkradeilda, hefur myndast "millilag" stjórnenda. Millilag þetta er svokölluð framkvæmda­stjórn spítalans og fylgir henni fjölmennt starfslið í stóru húsi við Eiríksgötu. Millilagið, valið af forstjóranum ellegar heilbrigðisráðuneytinu, stjórnar spítalanum með fulltingi þess sama ráðuneytisins. Stjórnarnefnd spítalans er algerlega háð millilaginu varðandi upplýsingar um málefni og rekstur. Fagfólk á undir sömu aðila að sækja með fjárhagslegan rekstur deilda, jafnvel í smáatriðum. Þetta er varhugavert ástand með óviðunandi röskun á valdi og ábyrgð sem leiðir til spillingar og mistaka. Þess sjást nú þegar merki.

Grafið undan vísindum

Eftirfarandi atburðir lýsa þessu ástandi. Fram­kvæmda­stjóri (læknismenntaður!) "skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar" réðist nýlega að viðkvæmum gróðri vísinda og fræða á háskólasjúkrahúsinu með því að leggja niður þá einu stöðu líftölfræðings sem verið hefur á sjúkrahúsinu síðastliðin tíu ár. Staðan, upphaflega tilkomin fyrir atbeina Læknaráðs, hefur skilað verðmætum árangri. Hún hefur eflt háskólastarf spít­alans og rannsóknastofa, örvað vísindarannsóknir og kennslu og óskiljanlegt hvers vegna hún var lögð niður. Hendingarverk valdadrukkinna manna? Auðvitað samrýmist þetta ekki stefnu háskólasjúkrahúss. En stjórnlyndir embættismenn grípa einatt til snjallra ráða á erfiðum tímum. Vegna þess hversu mjög þekkingin hefur aukist á spítalanum, hefur hún, að því er virðist, ógnað þeim sem eru skemmra á veg komnir og í staðinn fyrir stöðu líftölfræðingsins hefur nú verið stofnað nýtt embætti á Landspítalanum, staða "þekkingarstjóra"!!

Ekki er vitað til að framkvæmdastjórinn hafi ráðfært sig við neinn rannsóknaraðila sem notið hafði aðstoðar líftölfræðingsins eða hafði faglegra hagsmuna að gæta. Framangreindur verknaður er dæmi um vaxandi hneigð kerfisins. Fyrir nokkrum árum reyndi valdblindur framkvæmdastjóri, án fyrirvara og tilefnis, að fá Stjórnarnefndina til að reka atorkusama lækna úr starfi á spítalanum. Gengu gjörðir hans til baka fyrir dómstólum. Í sama geira utan spítalans, í heilsugæslunni, er ráðist gegn því örlitla sjálfræði sem hjúkrunarfræðingar og meinatæknar hafa haft þótt það þýði aukinn tilkostnað og verri þjónustu. Og nú láta læknar hafa sig til þess að vinna gegn kennslu og vísindastarfsemi, helstu hlutverkum háskólasjúkrahúsa. Hvað er að gerast?

Valdavísindi?

Nærri sextíu starfsmenn í margvíslegum rannsóknarverkefnum mótmæltu því að staða líftölfræðingsins væri lögð niður og sendu undirskriftalista til Stjórnarnefndar, forstjóra, Læknaráðs og læknadeildar. En "millilagsstjórnin" sem lagði niður stöðuna án samráðs fríaði sig ábyrgð með því að reyna að endurskilgreina hlutverk sitt eins og fram kemur í bréfi þaðan: ,,Ákveðið var að skrifstofan einbeitti sér að því að halda utan um vísindastarfið og sinna yfirstjórn og skipulagningu en tæki ekki beinan þátt í framkvæmd vísindavinnunnar." !! Þessi afkáralega setning gefur til kynna að "Skrifstofa vísinda millilagsstjórnarinnar" viti lítið um vísindi. Hún bregst ekki við mótmælabréfinu. Hún telur sig ekki þurfa þess af því að hún hefur valdið, hefur yfirtekið verkefni bæði Læknadeildar og Lækna­ráðs varðandi kennslu og vísindi. Sviðsstjórar (flestir læknar) eru ráðnir á skjön við lög og gerðir samsekir framkvæmda­stjórninni. Lækningaforstjóri (læknislærður) á vegum skrifstofunnar og ráðuneytisins hefur verið settur til höfuðs Lækna­ráðinu í stað þess að hann ætti með réttu að vera starfsmaður lækna­ráðsins sem fulltrúi sérfræði­þekkingar á spítalanum. Með öðrum orðum, þeir sem ekkert til þekkja í ákveðnu fagi kaupa sér aðferð til að stjórna þeim sem þekkja þar best til alls. Hvers vegna ekki láta hina sérfróðu um málin? Hver er í þykjustuleik og í hvaða tilgangi?

Spillingarhætta?

Nýlega var hrundið atlögu framkvæmdastjórnar að Læknaráðinu þegar átti að svipta það stöðugildum sem hefði gert það nær óvirkt! En hvers vegna þessi afstaða? Telja einhverjir að Læknaráðið ógni völdum sínum? Völd á röngum stöðum eru hættuleg eins og mannskynssagan vitnar um og mega ekki verða leiktæki starfsmanna í kerfinu. Einhverjir verða einatt til að freistast meir af valdinu heldur en starfi sínu, fara jafnvel að leggja meira upp úr "samböndum" sem boðið er uppá. Menn þykjast sjá að þeir geti flýtt "frama" sínum með erindisgjörðum á einhverja skrifstofu frekar en að ná árangri í starfi. Það gæti jafnvel verið óhagstætt að verja fræðigrein sína og starf og stunda frekar viðskipti með ósýnilega hluti, t.d. vinargreiða, gott umtal og atkvæði.

Embættaðir menn úr öðrum greinum hafa að vonum takmarkaða innsýn í störf lækna, halda jafnvel sumir hverjir að þeir verði að stýra þeim, skynja ekki að læknar verða að hafa víðtækt fjárhagslegt sjálfræði (vald) svo þeir geti tekið faglega ábyrgð á starfsemi sinni Ef skriffinnar fá að þrengja sér inní vinnuferli og mönnun sérlærðra heilbrigðisstétta, er spilling til staðar sem bitnar á sjúklingum.

Úr annarri átt og með ólíkum hætti kemur Stjórnarnefnd spítalans að málum. Mönnuð aðkomufólki að mestu með takmarkaða þekkingu á spítalaþjónustu, skipuð af alþingi, er hún í raun einhvers konar póli­tísk eftirlitssveit. Hún er álitin hafa ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis í fjárhagslegum rekstri, en er vanbúin og ósjálfstæð ef verja þarf spítalann gegn gagnrýni og íhlutun valdhafa (sjá þó grein í Mbl. 15. febrúar 2004 eftir P. Pálmason). Millilagið stjórnar hins vegar, tekur við skipunum, leggur niður stöður og lokar deildum, en ber hvorki faglega né rekstrarlega ábyrgð. Þjónustu­stiginu, vaxandi framþróun læknisþjónustunnar og kennslu og vísindum skal með öðrum orðum miðstýrt með valdi, án afskipta almennings eða sérlærðra heilbrigðisstétta. Voru ekki svona stjórnarhættir kenndir við banana­lýðveldi?

Vísindasamstarf?

Fátt bendir til þess að fólk almennt átti sig á hversu þessi þróun er varasöm fyrir háskólasjúkrahús landsins. Árásin á líftölfræðingsstöðuna er bein afleiðing af fyrrgreindri þróun mála. Þrátt fyrir nafngiftina, Landspítali - háskólasjúkrahús, og háleitar samþykktir um vísindasamstarf milli Landspítala og háskólans - "Fræðilegt starf þarf að standast samanburð á alþjóðlegum vettvangi... - Spítalinn skal leitast við að tryggja starfsfólki sínu tíma, aðstöðu og frjótt starfsumhverfi..." - afgreiddi Stjórnarnefnd með framkvæmdastjórn sinni fyrrgreind mótmæli án minnstu viðbragða. Árangri í klukkustimplun var hins vegar fagnað mjög.

Alvöruháskólasjúkrahús?

Við alla háskólaspítala í nágrannalöndum okkar eru líftölfræðingar til að hjálpa nemum og starfsmönnum við rannsóknarvinnu og leysa þannig starfskrafta úr læðingi. Þrátt fyrir það samþykkti fundur í stjórn lækna­deildar ekki nein mótmæli út af þessu stefnumarkandi máli. Harmaði ekki einu sinni þessa gjörð sem beind­ist gegn rannsóknum og kennslu, viðfangsefnum sem standa undir tilvist háskóla. Skeytingarleysi lækna­deildar í þessu máli er sérkennilegt, gefur til kynna metnaðarleysi ef ekki getuleysi. Háskólakennarar ættu þó að vita að kennsla og þekkingaröflun ganga þeim mun betur því minna sem þeim er miðstýrt. Stjórnvöld geta hins vegar ýtt undir viðleitnina og aukið líkur á árangri, en hið gagnstæða virðist ætla að gerast hér.

Hér hefur eitt mál verið rætt. Önnur mætti nefna. Í gangi virðist vera embættisfærslulegt vinnulag þar sem læknum Landspítalans og kennurum læknadeildar svo og öðru sérmenntuðu starfsfólki er meinað að sinna skipulagi og mótun eigin starfa í þágu sjúklinga og fræðslu, en er samt ætlað að axla faglega ábyrgð. Ef nýir stjórnarhættir verða teknir upp og framangreindur vandi fjarlægður mun rekstur og hlutverk háskólaspítalans standa traustari fótum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica