07/08. tbl. 90.árg. 2004

Umræða og fréttir

Viljum eyða allri tortryggni

Rætt við Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala um nýjar samskiptareglur starfsfólks við lyfjakynna og fleiriReglur um lyfjakynningar á Landspítala og samskipti lyfjakynna og s

Töluverðar umræður hafa orðið á síðustu vikum og mánuðum um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja. Nú hafa þær ásamt öðru orðið til þess að á Land­spít­ala hafa verið settar reglur um kynn­ingar fyrirtækja inni á spítalanum, annars vegar á lyfj­um og hins vegar á tækjum, rekstrarvörum og þjón­ustu. Reglurnar ná raunar einnig yfir samskipti starfsfólks spítalans við kynna þótt þau fari fram utan sjúkrahússins, til dæmis í utanlandsferðum sem starfsmönnum kann að verða boðið í.

Læknablaðið leitaði til Jóhannesar M. Gunn­­ars­sonar framkvæmdastjóra lækninga á Land­spít­al­an­um og spurði hverju sætti að spítalinn setti þessar reglur.

Það er öllum til góðs að þessi samskipti séu opin og allt uppi á borðinu hvað þau varðar, sagði Jóhannes. Læknafélag Íslands og Samtök verslunar og þjónustu hafa komið sér saman um samskiptareglur lækna og lyfjafyrirtækja og þessar reglur eru samd­ar með hliðsjón af þeim. Sjúkrahúsið er hins vegar ekki aðili að þeim samningi svo við töldum eðlilegt að það setti sér sínar eigin reglur.

Það er öllum ljóst að starfsfólk spítalans á mikil samskipti við framleiðendur lyfja og tækja og seljendur þjónustu. Þessi samskipti eru nauðsynleg en þau hafa verið tortryggð. Þess vegna er eðlilegt að um þau gildi skýrar reglur, meðal annars til þess að þau trufli ekki dagleg störf á spítalanum. Sannast sagna hafa samskipti starfsfólks við kynna verið gagnrýnd og við viljum ekki að fólk hafi ástæðu til að tortryggja þau. Langflestir starfsmenn og kynnar eru strangheiðarlegir í störfum sínum og vilja hafa þau í föstum skorðum. En vissulega eru dæmi um frávik frá því.

Tvenns konar gagnrýni

- Hvernig hefur starfsfólk tekið þessum reglum?

Yfirleitt mjög vel en eins og við mátti búast hafa heyrst gagnrýnisraddir. Það er aðallega tvennt sem hefur sætt gagnrýni. Annars vegar er það ákvæði um að um allar kynningar skuli hafa samráð við yfirlækni þjónustudeildar lyfja eða sviðsstjóra á innkaupa- og vöru­stjórnunarsviði eftir atvikum. Þetta þykir sumum of stíft en því er til að svara að við gerum ráð fyrir því að aðilar komi sér saman um almennar reglur um fyrirkomulag kynninga. Þegar þær línur hafa verið lagðar er aðeins nauðsynlegt að tilkynna viðkomandi yfirmanni um heimsókn eða kynningu.

Hins vegar er gagnrýni sem gengur í þveröfuga átt því læknaráði spítalans finnst við of frjálslegir hvað varðar gjafir fyrirtækja til starfsfólks, samanber 9. grein. Þeir vilja ekki leyfa neinar gjafir. Við höfum sagt sem svo að betra sé að setja hófsamlegar og raunhæfar reglur sem farið verður eftir en strangar reglur sem líklegt má telja að menn reyni að brjóta. Slíkt gæti grafið undan þeirri hugmyndafræði sem að baki reglunum býr en hún er sú að í þessum samskiptum ríki formfesta sem dregur úr tortryggni.

Í 11. grein segir að starfsmönnum sé óheimilt að beita áhrifum sínum við ákvörðun um lyfjakaup eða önnur viðskipti við fyrirtæki sem þeir eiga hlutdeild í eða tengjast með öðrum hætti. Er þetta sett þarna inn af illri nauðsyn?

Nei, þetta er ekki útbreitt vandamál en þó eru þess því miður dæmi að einstakir starfsmenn hafi skuldbundið spítalann án þess að það hafi hlotið eðlilega umfjöllun. Þarna er að mörgu að hyggja, til dæmis er ekki endilega sjálfsagt mál að kaupa eitthvert tæki sem menn hafa séð á sýningu. Það þarf að hyggja að þjónustu við tækið, viðhaldi og fleiru. Spítalinn er líka bundinn af ýmsum reglum sem gilda um innkaup, svo sem útboðsskyldu og reglum ríkisins um innkaup.

Yfirlæknar afgreiði boðsferðir

Boðsferðir á vegum lyfjafyrirtækja og annarra fyrir­tækja hafa verið í brennidepli umræðunnar en í 13. grein nýju reglnanna er fjallað um þær. Þar er rætt um að sækja þurfi um leyfi til yfirlæknis, eða framkvæmdastjóra lækninga ef yfirlæknir á í hlut, vilji starfsmaður þiggja ferð sem hefur það markmið að kynna lyf, meðferð, tæki eða aðrar vörur eða þjónustu. En hvað um boðsferðir á ráðstefnur?

Lyfjafyrirtæki bjóða læknum á margar góðar ráðstefnur en oftast er samhliða eitthvað í boði sem teng­ist einhverju lyfi eða annarri framleiðslu­vöru. Við ætlumst til þess að öll slík boð fari um hendur yfirlæknis. Þetta á að draga úr óeðlilegum tengslum ef þau eru til staðar. Einnig viljum við stuðla að því að sem flestir njóti slíkra boðsferða enda séu þær í tengslum við starfsemi viðkomandi deildar eða sviðs. Með því að beina þessu til yfirlæknanna teljum við okkur geta beint þessum ágætu menntunarmöguleikum inn í réttan farveg.

Víða erlendis er fyrirtækjum gert að greiða sína styrki í sjóði sem þau hafa engin áhrif á hvernig er úthlutað úr. Þetta gildir til dæmis víða í Noregi. Við göngum ekki svo langt, segir Jóhannes.

Hann bætti því við að eflaust myndu koma fram einhverjir ágallar á þessum reglum en ákveðið væri að heildarendurskoðun á þeim fari fram eftir þrjú ár. Læknablaðið birtir hér reglur um lyfjakynningar en hinar reglurnar eru mjög sambærilegar að gerð og uppbyggingu. Báðar reglurnar má finna á vef Landspítalans.

Kynning á lyfjum og öðrum vörum og þjónustu er bönnuð í húsnæði sem ætlað er sjúklingum eða meðferð þeirra fer fram.

1. Allar kynningar skulu vera hlutlægar, nákvæmar, sannar og í samræmi við lög og almennt siðferði. Jafnframt skulu þær vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 328/1995 um lyfjaauglýsingar með áorðn­um breytingum skv. reglugerð nr. 95/2001 og breytingum er síðar kunna að taka gildi.

2. Lyfjakynnir skal hafa samráð við yfirlækni þjónustudeildar lyfja á lyfjasviði spít­alans, um hvernig almennt skuli staðið að lyfjakynningum.

3. Áður en lyfjakynning er haldin á LSH skal aflað heimildar yfirlæknis á viðkomandi starfseiningu. Skal kynningin fara fram í samræmi við dagskrá og stað er faglegur yfirmaður og kynnir hafa komið sér saman um. Kynning og önnur sölustarfsemi er óheimil í húsnæði sem ætlað er sjúklingum og/eða þar sem meðferð þeirra fer fram.

4. Áður en kynning er haldin skal kynnir afhenda, í móttöku á fyrstu hæð á Eiríksgötu 5, eða hjá vaktmönnum á 1. hæð í Fossvogi, tilkynningu um fyrirhugaða kynningu, hvað kynna skal, hvaða starfsmönnum eða hópum er boðið, staðsetningu og tímasetningu og nafn yfirlæknis sem haft hefur verið samráð við. Skal kynni þá afhent merki þar sem skráður er áætlaður tími fyrir kynninguna. Skal kynnir staðfesta móttöku merkisins skriflega og þá jafnframt undirrita yfirlýsingu þar sem hann skuldbindur sig til að gæta þagmælsku varðandi allar persónuupplýsingar er hann kann að verða áskynja í starfi sínu innan stofnunarinnar. Kynnir skal bera merkið á sjáanlegan máta meðan hann dvelur á stofnuninni vegna starfa sinna og skila því þegar að kynningu lokinni. Í móttöku á Eiríksgötu 5 og hjá vaktmönnum 1. hæð í Fossvogi skal halda skrá yfir kynningar og hvenær merki er afhent og því skilað.

5. Í starfi sínu innan LSH skulu lyfjakynnar ætíð bera merki þar sem fram kemur nafn þeirra og vinnuveitanda. Skal merkið vera vel sjáanlegt meðan á kynningu stendur. LSH tekur ekki ábyrgð á öryggi lyfjakynna í störfum þeirra innan stofnunarinnar.

6. Heimilt er að kynna lyf sem eru á lyfja­lista stofnunarinnar svo og ný lyf. Þegar um ný lyf er að ræða skal þess getið að um sé að ræða nýja meðferð sem lyfjanefnd stofnunarinnar hefur enn ekki fjallað um eða tekið afstöðu til. Óheimilt er að kynna lyf sem hefur verið hafnað af lyfjanefnd stofnunarinnar eða verið fjarlægð af lyfja­lista.

7. Á kynningarfundi má afhenda kynningarefni en ekki skilja slíkt eftir á almennum svæðum innan spítalans eða svæðum sem ætluð eru sjúklingum.

8. Sýnishorn lyfja er heimilt að afhenda starfsmanni sé það í samræmi við almennar heimildir. Óheimilt er að nota slík sýnishorn til meðferðar sjúklinga.

9. Heimilt er að afhenda á kynningarfundi hlut/gjöf sem hefur táknræna merkingu fyrir viðkomandi kynningu eða er í tengslum við starf viðkomandi starfsmanns og bjóða má upp á einfaldar veitingar. Gæta skal þess að verði slíkra hluta og veitinga sé mjög stillt í hóf. Óheimilt er að bjóða starfsmönnum gjafir eða ívilnanir að öðru leyti í tengslum við slíkar kynningar eða í því augnamiði að hvetja starfsmenn til að beita sér fyrir innkaupum viðkomandi vöru til stofnunarinnar. Starfsmönnum er óheimilt að þiggja slík boð.

10. Í kynningum skulu koma fram upplýsingar um verð, t.d. verð á dagskammti viðkomandi lyfs.

11. Starfsmönnum LSH er óheimilt að annast kaup eða beita áhrifum sínum við ákvörðun á lyfjakaupum f.h. spítalans frá fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í eða tengjast að öðru leyti.

Kynningar utan LSH

12. Allar kynningar á lyfjum fyrir starfsmenn LSH sem fara fram utan spítalans skulu vera í samræmi við samning Læknafélags Íslands og Samtaka verslunarinnar um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf og einnig reglur annarra fagfélaga sem sett hafa sérstakar reglur þessu viðkomandi.

13. Boð til starfsmanna LSH um ferðir erlendis á vegum lyfjafyrirtækis eða um­­boðsaðila þess til að kynna lyf eða lyfja­meðferð skal senda skriflega til yfirlæknis sem tekur ákvörðun um hvort og þá hvaða starfsmaður muni fara í viðkomandi ferð. Yfirlæknir skal senda framkvæmda­stjóra lækninga upplýsingar um ferðina og þátttakendur í henni og ákveði yfirlæknir að fara sjálfur í slíka kynningarferð skal tilkynning þar að lútandi send fram­kvæmda­stjóra lækninga áður en ferð er farin. Framkvæmdastjóri lækninga skal halda skrá yfir ferðirnar og þátttakendur. Slíkar kynningarferðir fela ekki í sér neinar skuldbindingar af hendi LSH um neins konar frekari viðskipti og í tengslum við ferðir er starfsmanni óheimilt að gera ráðstafanir sem skuldbundið geta spítalann.

14. Listar með nöfnum lækna eða annars starfsfólks eru einungis ætlaðir LSH og starfsfólki spítalans og er óheimilt að afhenda þá lyfjakynnum eða sölumönnum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica