Fræðigreinar

Veggspjöld

V - 1 P2Y12 ADP-viðtakinn er til staðar í sléttum vöðvafrumum æða og miðlar samdrætti

 

Ágrip:
ADP gegnir mikilvægu hlutverki í samloðun blóðflagna með því að virkja P2Y12 viðtaka, en lyf sem hemja þessa viðtaka (til dæmis clopidogrel, Plavix®) eru notuð til að fyrirbyggja sega í kransæðum. Í þessari rannsókn könnuðum við þá tilgátu að P2Y12 viðtaka sé að finna í sléttum vöðvafrumum blá- og slagæða.

Efniviður og niðurstöður:
Notast var við slagæða- og bláæðagræðlinga 16 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituraðgerð á háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Í sléttum vöðvafrumum mældist mRNA fyrir P2Y12 hátt samanborið við aðra P2 viðtaka, sérstaklega samanborið við hina tvo ADP viðtakana, P2Y1 og P2Y13 (real-time PCR). Með Western-blot aðferð sáust 50 kD bönd sem svipar til þeirra sem sjást í blóðflögum. Til þess að afhjúpa æðasamdrátt vegna P2Y12 viðtakans, og þannig líkja eftir aðstæðum in vivo, voru æðarnar fyrst meðhöndlaðar með norepinephrine, síðan adenosine og loks calcitonin-gene-related peptide sem veldur æðavíkkun. Síðan var 2-MeSADP, sem er stöðugt lyf sem svipar til ADP, notað til að framkalla samdrátt í innri brjóstholslagæð (IMA), greinum hennar og litlum bláæðum (Emax = 15 ± 6 % af 60 mmol/L K+ samdrætti, pEC50 = 5.6 ± 0.6, Emax = 20 ± 1 %, pEC50 = 6.8 ± 0.3 resp. Emax = 68 ± 11 %, pEC50 = 6.7 ± 0.3). Að því búnu var samdráttur vegna 2-MeSADP upphafinn með sérhæfðum P2Y12 hemjara, AR-C67085. Ekki sást minnkun á samdrætti hjá sjúklingum sem tóku clopidogrel en clopidogrel hemur ADP-örvaða samloðun blóðflagna með því að hemja P2Y12 viðtaka. Þetta skýrist sennilega af því hversu óstöðugt virka efni clopidogrels er.

Ályktun:
ADP miðlar samdrætti í slag- og bláæðum með því að virkja P2Y12 viðtaka. Lyf sem letja P2Y12 viðtaka geta því haft áhrif á bæði samloðun blóðflagna en einnig hindrað samdrátt í æðum. Slík lyf gætu haft þýðingu hjá sjúklingum sem gangast undir hjáveituaðgerð til að fyrirbyggja samdrátt og segamyndun í slag- og bláæðagræðlingum fyrst eftir aðgerð.


V - 2 NUSS-aðgerð - nýjung í meðferð trektarbrjósts

Tómas Guðbjartsson, Ramon Lillo-Gil, Per Jönsson, Erik Gyllsted
Hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð

Inngangur:
Trektarbrjóst (pectus excavatum) er algengur meðfæddur galli sem sést hjá 1o/oo barna, aðallega drengjum. Oftast er trektarbrjóst án einkenna en í völdum tilvikum getur trektin þrengt að bæði hjarta og lungum. Aðgerðir við trektarbrjósti eru langoftast framkvæmdar til fegrunar. Áður fyrr var beitt opnum skurðaðgerðum þar sem rifbein og brjósk voru lagfærð og brjóstbeinið síðan fest með stálvír og/eða stálplötum. Um var að ræða stórar aðgerðir með töluverðum fylgikvillum og langri sjúkralegu. Síðar hefur í vaxandi mæli verið notast við sílíkon-fyllingu en margir sjúklingar hafa óþægindi af fyllingunni. Nuss-aðgerð er ný aðgerð við trektarbrjósti sem fyrst var lýst fyrir 15 árum en hefur verið þróuð frekar á síðustu árum. Stálboga er komið fyrir aftan við brjóstbeinið og trektin sléttuð út. Boganum er komið fyrir með aðstoð brjóstholsjár og ör því minniháttar og sjúklingar fljótir að jafna sig aðgerðina. Yfirleitt er boginn látinn sitja í tvö til þrjú ár.

Efniviður og aðferðir:
Á síðustu þremur árum hafa verið framkvæmdar rúmlega 40 Nuss-aðgerðir á háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Helstu skref aðgerðarinnar eru sýnd og árangri fyrstu 35 aðgerðanna lýst.

Niðurstöður:
Alls gengust 32 drengir og þrjár stúlkur undir aðgerð vegna trektarbrjósts. Aðgerðartími var í kringum 60 mínútur og sjúkrahússdvöl í kringum fjóra daga. Engri aðgerð þurfti að snúa í opna aðgerð. Algengustu fylgikvillar voru loftbrjóst og blæðing. Engir meiriháttar fylgikvillar sáust í eða eftir aðgerðirnar. Boginn hefur verið fjarlægður hjá fimm sjúklingum, oftast tveimur til þremur árum eftir aðgerðina.

Ályktun:
Nuss-aðgerð er örugg, fljótleg og ör eru minniháttar. Sjúklingar dvelja mun skemur á sjúkrahúsi en eftir opna aðgerð. Nuss-aðgerð verður því að teljast mjög fýsilegur kostur hjá börnum og unglingum með trektarbrjóst.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica