Umræða og fréttir
  • 2004-04-u03-fig1
  • 2004-04-u03-fig2
  • 2004-04-u03-fig3
  • 2004-04-u03-fig4

Viðbrögð við bráðum vanda á vettvangi - Bráðalæknar skipuleggja námskeið fyrir lækna

 
Að undanförnu hefur hópur lækna staðið fyrir námskeiðum sem ætluð eru læknum sem vilja vera við því búnir að bregðast við bráðavanda. Læknablaðið hitti að máli Hjalta Má Björnsson deildarlækni, en ásamt honum hafa þau Jón Baldursson og Kristín Sigurðardóttir bráðalæknar haft veg og vanda af námskeiðshaldinu og notið aðstoðar Brynjólfs Mogensen, Viðars Magnússonar og fleiri.

"Fyrsta námskeiðið í bráðalækningum utan sjúkrahúsa - kallað BLUS-námskeið - var haldið vorið 2003. Fram að því höfðu verið haldin sérhæfð námskeið í rúman áratug í endurlífgun og slysavinnu. Nýlega var einnig haldið fyrsta námskeiðið í bráðaviðbrögðum barna á vegum Landspítala, en hingað til hafa öll námskeiðin miðast við sjúkrahúsumhverfið. Í fyrravor settum við hins vegar saman í fyrsta skipti eitt heildstætt námskeið þar sem læknar eru þjálfaðir til að sinna öllum bráðavandamálum á vettvangi utan sjúkrahúsa.

Fyrirmyndir að þessum námskeiðum höfum við sótt til útlanda. Skotar halda til dæmis svona námskeið á fimm dögum en við ákváðum í upphafi að hafa það dálítið stífara og ljúka því á þremur dögum. Nú erum við í ljósi fenginnar reynslu búin að lengja það um einn dag. Námskeiðið miðast við að læknar séu á vettvangi utan sjúkrahúss og með þann búnað sem er í fullbúnum sjúkrabíl. Við kennum þeim að leysa úr bráðum vandamálum og skila sjúklingnum inn á sérhæfða stofnun.

Á námskeiðinu erum við að þjálfa lækna í að takast á við öll helstu vandamál sem læknar þurfa að bregðast við utan sjúkrahúsa, það er að segja endurlífgun, bráða hjartasjúkdóma, meðhöndlun öndunarvegar, meðvitundarleysi, flogaveiki, áverka, einföld slys og hópslys, bráðavanda barna og fæðingar. Það er því farið yfir æði mikið efni og allt miðast það við að kenna læknum að bregðast við á þeim skamma tíma sem þeir hafa til umráða og með takmörkuðum búnaði."



Bæði verkleg og bókleg námskeið

- Hverjir kenna á þessum námskeiðum?

"Auk okkar sem ég taldi upp koma fleiri læknar á bráðadeild Landspítala við sögu. Einnig hafa bráðatæknar tekið að sér að kenna ákveðin verkleg atriði sem þeir eru vanir að vinna við svona aðstæður. Við höfum sett okkur það markmið að allir þeir sem kenna á námskeiðunum hafi umtalsverða reynslu af að vinna utan sjúkrahúsa."

- Hverjum eru námskeiðin ætluð?

"Fyrst og fremst eru þau ætluð læknum sem taka bráðavaktir utan sjúkrahúsa, læknum í heilsugæslu á landsbyggðinni og einnig læknum sem starfa á sjúkrahúsum úti á landi þar sem þessi vinna getur verið hluti af starfinu. Námskeiðið getur hins vegar nýst öllum læknum sem vilja vera vel þjálfaðir til að bregðast við bráðatilvikum sem kunna að koma upp í vinnunni. Þetta er í þriðja skipti sem við höldum námskeiðið og við vonumst til að þetta verði fastur liður í símenntun lækna og að hægt verði áfram að halda það tvisvar á ári.

BLUS-námskeiðin eru haldin í samvinnu við Endurmenntunarstofnun HÍ og Fræðslustofnun lækna sem láta okkur í té kennsluaðstöðu í húsakynnum læknafélaganna við Hlíðasmára. Við leggjum ríka áherslu á verklega þáttinn sem er um helmingur námsins á móti fyrirlestrum. Við förum út úr húsi í hálfan dag til að kenna björgun úr bílflökum og annað þess háttar við eins raunverulegar aðstæður og hægt er. Við förum í vettvangsskoðun í Slökkvistöðina við Skógarhlíð og í Neyðarlínuna til að kynna okkur þær verklagsreglur sem unnið er eftir á þessum stöðum. Á námskeiðinu er eingöngu krafist mætingar og þátttöku í æfingum, ekki þarf að standast próf."

- Þetta er þá ekki námskeið fyrir lækna sem kallaðir eru óvænt til að veita aðstoð?

"BLUS-námskeiðið þjálfar lækna mjög vel til þess að bregðast við ef þeir eru kallaðir til að veita aðstoð í neyðartilvikum, en það er ef til vill nokkuð ýtarlegt fyrir þá lækna sem ekki þurfa að sinna neyðarútköllum í starfi sínu. Til að koma til móts við þann hóp lækna erum við að undirbúa námskeið í fyrstu hjálp fyrir lækna og kenndum það reyndar í fyrsta skipti á Læknadögum nú í janúar við góðar viðtökur þátttakenda. Það er ætlað læknum sem fást við skrifstofustörf, rannsóknir og kennslu eða eingöngu sérhæfðari vandamál innan læknisfræðinnar, en eru ekki að fást við bráðveika sjúklinga dags daglega. Viðfangsefnin þar eru ekki ósvipuð og á námskeiðum í fyrstu hjálp fyrir almenning en þau eru sérsniðin fyrir lækna og þess vegna er farið mun dýpra í námsefnið. Sú þjálfun miðast öll við hvað læknir getur gert á vettvangi ef hann óvænt er kallaður til í neyðartilviki án þess að hafa nokkurn búnað meðferðis. Vonandi getum við farið af stað með þessi námskeið nú í vor, en þau munu standa yfir í um fjórar klukkustundir og henta því vel sem kvöldnámskeið."



Mikið spurt um námskeiðin

- Hvernig hafa viðtökur verið við BLUS-námskeiðunum?

"Það hefur verið fullt á tveim fyrstu námskeiðunum en við getum tekið við 24 á hvert námskeið. Næsta námskeiðið verður haldið í lok apríl og hægt er að nálgast upplýsingar um það á vefslóðinni; www.endurmenntun.is Það er talsvert spurt um þau þannig að læknar hafa greinilega áhuga á að þjálfa sig betur í bráðaviðbrögðum. Vonandi öðlast skyndihjálparnámskeiðin fyrir lækna líka vinsældir. Það er að okkar mati afar mikilvægt að læknum sé gert fært að halda við þjálfun sinni í þeim efnum því slík námskeið fyrir almenning hafa verið að breytast mikið á seinni árum, " sagði Hjalti Már Björnsson.



Þörf og góð námskeið

Læknablaðið ræddi við tvo lækna sem sótt hafa námskeið í bráðalækningum og skyndihjálp og innti þá eftir því hvernig þeim hefði líkað við þau.



Ágúst Oddsson heilsugæslulæknir á Hvammstanga tilheyrir markhópi BLUS-námskeiðanna og hann er á því að slík námskeið eigi að vera fastur liður á dagskrá allra kollega sinna á svona tveggja til þriggja ára fresti. - Þetta var mjög gott námskeið, vel uppbyggt og þarft fyrir landsbyggðarlækna. Við sem störfum meðfram hringveginum getum alltaf átt von á því að vera kallaðir á vettvang þar sem alvarleg slys hafa orðið. Sem betur fer gerist það sjaldan en þegar það gerist er eins gott að vera viðbúinn og það eru menn einfaldlega ekki nema þeir hafi sótt svona námskeið, sagði Ágúst.

Ágúst er þeirrar skoðunar að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eigi að gera þá kröfu til lækna sinna að þeir sæki svona námskeið reglulega. - Þær eiga að bera kostnaðinn af þeim, enda er þetta liður í því að gera okkur kleift að veita þá þjónustu sem almenningur krefst af okkur. Vinnuumhverfi lækna hefur verið að breytast. Nú er hægt að ná í okkur hvar og hvenær sem er, kröfur fólks hafa aukist og þeir sem lenda í alvarlegum slysum eiga heimtingu á því að fá lækna sem ráða við aðstæður á vettvangi. Svona námskeið bæta lífslíkur þeirra sem slasast á landsbyggðinni, sagði Ágúst og hafði það eitt út á námskeiðin að setja að þau væru fullstutt. Þau mættu alveg vera full vinnuvika.



Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir í Reykjavík sótti skyndihjálparnámskeiðið sem haldið var á Læknadögum og lét vel af því. - Það er ómetanlegt fyrir mig að geta sótt svona námskeið vegna þess að ég vil geta brugðist rétt við ef ég kem á slysstað. Það hefur orðið fagleg þróun á þessu sviði læknisfræðinnar eins og öðrum og margt breyst og þetta námskeið var kærkomið tækifæri til að rifja upp það sem manni var kennt á sínum tíma og kynnast þeim breytingum sem orðið hafa. Fræðslan á námskeiðinu var skýr og markviss og markmiðið var að kenna rétt viðbrögð við slysum á fólki. Einnig var farið í grunnatriði endurlífgunar og það er gott að rifja upp þá kunnáttu. Í raun ættu allir læknar að fá reglulega fræðslu og upprifjun um slíkt. Það er aldrei að vita hvenær maður lendir í því að þurfa að bregðast við slíkum aðstæðum, sagði Ólafur Þór.


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica