Umræða og fréttir
  • Mynd 1
  • Mynd 2

Læknadagar lukkuðust listavel

Árleg endurmenntunarvika íslenskra lækna - Læknadagar - tekur stöðugum framförum, það fer ekki milli mála. Þessir janúardagar hafa fest sig í sessi sem hápunktur í félagslífi lækna og dagskráin verður þéttari og fjölbreyttari með hverju árinu. Að þessu sinni var bryddað upp á þeirri nýjung að halda síðdegisfundi milli kl. 16 og 19 sem mæltust vel fyrir þótt sumir væru að vísu orðnir heldur framlágir eftir stífa fundarsetu frá kl. 9 um morguninn.

Setning Læknadaga var einn af þessum síðdegisfundum og þar hélt Sigurður Guðmundsson landlæknir erindi sem hann nefndi Vonir og væntingar. Þar fór hann yfir sviðið og velti vöngum yfir stöðu heilbrigðismála í upphafi árs. Hann kom víða við og reifaði meðal annars þrískiptingu heilbrigðisþjónustunnar þar sem heilsugæsla og heimilislæknar veita grunnþjónustu, sérfræðingar og landshlutasjúkrahús mynda annað stigið og deildaskipt sjúkrahús (les: Landspítalinn) þriðja stigið. Landlæknir hefur sett fram hugmyndir um að nokkur landshlutasjúkrahús verði efld svo þau geti þjónað stærri svæðum og veitt alla almenna þjónustu en auk þess tekið að sér sérhæfðari verkefni, ekki síst á sviði lýðheilsu, samkvæmt þjónustusamningum. Sem dæmi um svona stofnun nefndi hann Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem hann telur að eigi að geta sinnt 30-40.000 íbúum Norður- og Austurlands.

Að sjálfsögðu ræddi Sigurður einnig vanda Landspítalans og sagði brýnt að samkomulag tækist milli fjárveitingavaldsins og spítalans. "Skilyrði þess er að spítalanum sé mörkuð skýr stefna: hverjum á hann að sinna, hvar, hvenær og hvers vegna." Hann lagði áherslu á að rannsóknir og kennsla eigi að vera "skilyrðislaus hlutverk" spítalans og bætti því við að "ef við viljum annað verður það að koma fram". Menn ættu ekki að einblína á niðurskurð á spítalanum heldur yrði að huga að umhverfi hans, efla heilsugæslu og fjölga hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu svo spítalinn geti sinnt því sem hann á að gera en sé ekki upptekinn af því að sinna grunnþjónustu.



Nýir vágestir og gamlir

Eins og vaninn er á Læknadögum sannast þar hið fornkveðna að læknum er ekkert mannlegt óviðkomandi. Það sást best á dagskránni því málþing og erindi sem þar voru flutt fjölluðu um allt milli himins og jarðar. Allt frá innviðum mannsraddarinnar yfir í fuglaflensu og hagvöxt. Tíðindamaður Læknablaðsins sótti eins og áður helst þau málþing sem ekki gerðu miklar kröfur til klínískrar þekkingar og setti fyrst kúrsinn á smitsjúkdóma.

Þar var fjallað um nýja og gamla fjandmenn mannkyns, sýkla, veirur og pestir sem maður hélt að sumar hverjar heyrðu sögunni til en lifa enn góðu lífi hér og þar um heiminn. Svo eru alltaf að koma til ný afbrigði sem taka ekki mark á mótvægisaðgerðum mannsins. Karl G. Kristinsson smitsjúkdómalæknir á sýklafræðideild Landspítalans greindi meðal annars frá því að nýjar og fjölónæmar bakteríur breiðist ört út á sjúkrahúsum Vesturlanda þessi misserin. Helsta ástæða þess er talin vera ótæpileg notkun sýklalyfja. Úr henni hefur heldur dregið og hefur það haft merkjanleg áhrif á baráttuna gegn sýklunum.

Á hinn bóginn hefur á allra síðustu árum orðið vart við verulega fjölgun svonefndra MÓSA-tilfella sem fátt bítur á annað en dýr og kröftug lyf á borð við Vankomýsin. Þessum tilfellum fór að fjölga ört á breskum sjúkrahúsum snemma á síðasta áratug og hefur það verið rakið til niðurskurðar og aukins vinnuálags í breska heilbrigðiskerfinu. Á undanförnum tveimur til þremur árum hefur sama þróun verið að gerast á Norðurlöndum og Ísland er þar ekki undanskilið. Afleiðingin af þessum tilfellum eru þær að lyfjakostnaður margfaldast, spítalalegur sjúklinga lengjast og æ oftar verður að grípa til þess að loka deildum eða setja fólk í einangrun. Það gæti því reynst dýrkeyptur sparnaður að skera niður á sjúkrahúsum.



Fuglar og aðrir flensuvaldar

Aðrir fyrirlesarar á þessu málþingi fjölluðu um tilraunir mannskepnunnar til að breyta sýklum og eiturefnum ýmiss konar í vopn sem nota má á vígvellinum. Ólafur Steingrímsson fræddi viðstadda um þessi "vopna fátæka mannsins" eins og þau hafa verið kölluð vegna þess að þau eru ódýr í framleiðslu og einföld í notkun. Tegundir vopnanna eru fjölmargar, ekki síst efnavopnanna, en af sýklavopnum nefndi hann einkum þrjú til sögunnar: stóru bólu, svarta dauða og miltisbrand.

Þótt flestum þyki nóg um að vita af þessum vopnum þá er það huggun harmi gegn að flestir veigra sér við að nota þau vegna þess að þau eiga það til að snúast gegn höfundum sínum. Stjórnvöldum þykir þó rétt að fylgjast náið með þessum vopnum og hafa uppi öflugan viðbúnað gegn þeim og frá því greindu þeir Haraldur Briem og Ólafur Guðlaugsson.

Eftir kaffihlé var hins vegar komin röðin að Magnúsi Gottfreðssyni sem fjallaði um nýja smitsjúkdóma og faraldra sem orðið hafa á síðustu árum. Raunar kom fram í máli hans að margir af þeim faröldrum sem geisað hafa upp á síðkastið eru af gömlum stofnum. Oft hafa þeir verið landlægir á tilteknum landsvæðum en tekið svo skyndilega upp á því að breiðast út. Ástæður þess eru einkum aukinn mannfjöldi, ferðalög og landnám, auk þess sem læknisfræðilegar ástæður geta átt sinn þátt í útbreiðslunni, svo sem sýklalyfjanotkun, líffæraflutningar og ónæmisbæling.

Magnús fjallaði þó mest um nýjar farsóttir sem komið hafa upp, ekki síst fuglaflensuna og HABL. Þessar farsóttir eiga sér rætur í þéttbýli Suðaustur-Asíu þar sem fuglum og öðrum dýrum er þjappað saman með þeim afleiðingum að ýmsar veirur taka stökkbreytingum og fara á flug. Hann nefndi dæmi um venjulega inflúensu sem lengst af hefði átt sér ákveðin feril frá uppruna sínum í öndum í gegnum gæsir, hænsnfugla, svín og þaðan í menn. Þessi ferill hefur hins vegar styst því árið 1997 varð þess fyrst vart að flensan hætti að hafa viðkomu í svínum og barst beint úr fuglum í menn. Við það varð hún erfiðari viðfangs og það glíma menn við þessa dagana þar eystra.

Magnús sagði gífurlega mikilvægt að rannsaka smitsjúkdóma og þróa varnarviðbrögð við þeim. Útbreiðsla þeirra getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf landa sem fyrir henni verður. Nefndi hann sem dæmi að tjónið sem varð af HABL sé metið á stjarnfræðilega upphæð sem myndi nægja til að standa straum af rekstrarkostnaði Landspítalans í 500 ár. Það er því allnokkuð í húfi.



Heilbrigði eykur hagvöxt

Eins og á þessu sést fléttast hagfræðin víða saman við læknavísindin þessa dagana. Áhuginn á hagfræðilegri hlið heilbrigðismála leyndi sér heldur ekki á Læknadögum því það erindi sem ég hef oftast heyrt menn vitna til hélt Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands á síðdegismálþingi fimmtudagsins.

Þorvaldur ræddi fyrst nokkuð um skipulag heilbrigðisþjónustu sem hann sagði að mætti alveg breyta hér á landi. Útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála væru mikil og með því hæsta sem gerist í heiminum en útgjöld einstaklinga og einkafyrirtækja með því lægsta sem þekkist innan OECD. Þessu hlutfalli taldi Þorvaldur brýnt að breyta til að auka jafnvægið í heilbrigðiskerfinu.

Það var líka á honum að heyra að hin miklu opinberu útgjöld ykju vald stjórnmálaflokkanna yfir heilbrigðiskerfinu og það væri ekki alltaf til góðs. Sagði hann það sérstakt einkenni á íslenska heilbrigðiskerfinu hversu mikil völd stjórnmálaflokkanna væru þar og nefndi sem dæmi heimasíður annars vegar Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð og hins vegar Landspítalans. Sænska sjúkrahúsið kynnti stjórnarmenn sína með því að leggja áherslu á sterka stöðu þeirra í atvinnulífinu enda væru þar forstjórar margra helstu stórfyrirtækja landsins. Stjórnarmenn Landspítalans væru á hinn bóginn kyrfilega merktir listabókstöfum flokkanna og fyrir þeim hefði til skamms tíma farið sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.

Mesta athygli vakti þó sú kenning Þorvalds að útgjöld til heilbrigðismála ykju beinlínis hagvöxt. Með því að kanna fylgni þeirra útgjalda við hagvöxt í löndum heims komst hann að þeirri niðurstöðu að aukning heilbrigðisútgjalda sem næmi 2,5% af vergri landsframleiðslu væri líkleg til að auka hagvöxt um 1%. Hann sagði að aukin menntun og heilbrigði héldust í hendur og hvort tveggja stuðlaði að auknum hagvexti. Hann var spurður að því hvort ekki væru einhver takmörk fyrir því sem þjóðir gætu eytt í heilbrigðismál og svarið var að hann kæmi ekki auga á þau. Nefndi hann sem dæmi að Bandaríkjamenn verðu töluvert hærra hlutfalli þjóðartekna sinna til heilbrigðismála en allar aðrar þjóðir og ekki væri hægt að kvarta yfir hagvextinum þar í landi.



Spurningar og reiptog

Með þessi bjartsýnisorð Þorvalds Gylfasonar í huga héldu menn áfram að ræða allar hliðar heilbrigðismála og linntu því ekki fyrr en á laugardagskvöldið þegar árshátíð LR fór fram með miklum tilþrifum á Hótel Íslandi. Meira að segja spurningakeppni tveggja harðsnúinna liða sem var endapunktur fræðsluvikunnar snerist um sjúkdómsgreiningar. Þar kom reyndar í ljós að reynslan og aldurinn skipti máli þegar úrslitin réðust, ekki krafturinn í reiptoginu.

Hér látum við staðar numið í bili frásögn af Læknadögum en tökum upp þráðinn að nýju í næsta blaði.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica