Umræða fréttir

Lýðheilsustöðin bíður forstjóra síns - Óljós lagaákvæði færir þeim sem ráðinn verður mikið áhrifavald á mótun starfseminnar

Það gekk ekki eins smurt og vonast var til að finna nýjan forstjóra fyrir Lýðheilsustöð Íslands. Eins og Læknablaðið greindi frá í júlíbyrjun var Guðjón Magnússon ráðinn forstjóri en eftir nokkurt þóf gaf hann starfið frá sér. Þá var Jóhannes Pálmason lögfræðingur á skrifstofu Landspítalans fenginn til að taka forstjórastarfið að sér til bráðabirgða. Nú hefur starfið verið auglýst aftur og verður nýr forstjóri ráðinn úr hópi 15 umsækjenda á næstunni en hann á að taka til starfa 1. október.

En hvers kyns stofnun verður það sem hinn nýi forstjóri tekur við í byrjun næsta mánaðar? Það er alls ekki ljóst því eins og oft hefur verið bent á eru lögin um Lýðheilsustöð afskaplega almennt orðuð og vekja jafnvel fleiri spurningar en þau svara. Það mun því koma í hlut hins verðandi forstjóra að móta stefnu og starfshætti Lýðheilsustöðvar að verulegu leyti. Í þeirri vinnu mun hann þurfa að stíga létt til jarðar, að öðrum kosti gæti hann rekist harkalega á einhverja þeirra stofnana sem fyrir eru í heilbrigðiskerfinu. Mörk hinnar nýju stofnunar eru nefnilega alls ekki skýr.



Hvar eru landamærin?

Þegar frumvarp til laga um Lýðheilsustöð var til umfjöllunar hjá Alþingi veittu fjölmargir aðilar umsögn um það. Eitt þeirra atriða sem flestir nefndu var einmitt hversu óljós mörkin eru á starfssviði stöðvarinnar. Félag um lýðheilsu taldi að stöðina þyrfti "að skilgreina í starfrænu samhengi við aðrar stofnanir í landinu sem nú þegar vinna að málefnum lýðheilsu". Félagið nefndi sérstaklega Landlæknisembættið og sagði að verði frumvarpið að lögum þurfi "óhjákvæmilega" að endurskoða lög um það embætti. Aðrir nefndu heilsugæsluna í landinu en báðar þessar stofnanir sinna forvarnastarfi í talsverðum mæli.

Læknafélag Íslands gekk skrefinu lengra og lagði til að Lýðheilsustöð yrði ekki gerð að sjálfstæðri stofnun heldur fundinn staður innan Landlæknisembættisins en með eigin forstöðumann. Aðrir hafa bent á að slíkt fyrirkomulag gangi ekki því starf að forvörnum gæti rekist á eftirlitshlutverk landlæknis. Landlæknir sjálfur lagði til að frumvarpið yrði endurskoðað frá grunni og afgreiðslu þess frestað svo tími gæfist til að velta fyrir sér grunnhugmyndinni um lýðheilsu því henni væru ekki gerð nógu góð skil.

Eins og fram hefur komið verða verkefni Lýðheilsustöðvar einkum á sviði forvarna og frá og með 1. júlí í ár heyrir starfsemi fjögurra opinberra ráða og nefnda undir stofnunina. Nú heita þau sérfræðiráð og skulu vera stöðinni til ráðgjafar, hvert á sínu sviði. Ráðin eru Tóbaksvarnanefnd, Áfengis- og vímuvarnaráð, Manneldisráð og Slysavarnaráð en í lögunum er kveðið á um að ráðherra geti beint fleiri verkefnum á sviði forvarna og heilsueflingar til stöðvarinnar. Meðferð löggjafans á Slysavarnaráði sýnir kannski í hnotskurn hvað við er átt með því að starfssvið Lýðheilsustöðvar sé óljóst.

Slysavarnaráð var sett á laggirnar með lögum árið 1994 og því fundinn staður hjá landlækni. Þar hefur síðan verið unnið að því að byggja upp heildarskráningu á öllum slysum sem verða í landinu og er þar orðinn til gagnagrunnur með miklum upplýsingum sem því miður bætist stöðugt við.

Nú eru þessi lög fallin úr gildi og meginefni þeirra tekið upp í lög um Lýðheilsustöð. Samkvæmt þeim skal Slysavarnaráð "sjá til þess að slys séu skráð með samræmdum hætti" og ráðinu er einnig ætlað að "hlutast til um úrvinnslu skráðra upplýsinga og birtingu þeirra". En í næstu málsgrein segir: "Samræmd slysaskrá skal varðveitt hjá landlækni."

Um þetta segir í umsögn landlæknis frá því í vetur: "Vandséð er hvaða merkingu það hefur að samræmd slysaskrá skuli varðveitt hjá embættinu ... ef embættið hefur ekkert um skrána að segja."

Þessi mótmæli landlæknis og annarra hrinu ekki á löggjafanum sem hraðaði afgreiðslu málsins svo það mætti verða að lögum fyrir kosningar í vor. Í áliti meirihluta heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis er ekki minnst á Slysavarnaráð en málið afgreitt með þessari setningu: "Ekki er gert ráð fyrir að Lýðheilsustöð muni breyta að neinu leyti hlutverki landlæknis."



Fleiri verkefni

Eftir að frumvarpið varð að lögum tók landlæknir saman greinargerð um samvinnu embættisins og Lýðheilsustöðvar og sendi ráðherra. Þar nefnir hann fjóra þætti lýðheilsustarfs sem landlæknir hefur sinnt en verða augljóslega sameiginleg verkefni í framtíðinni. Þessir þættir eru stefnumótun og ráðgjöf til stjórnvalda og stofnana; klínískar leiðbeiningar og önnur ráðgjöf til heilbrigðisstarfsmanna; umsjón með heilbrigðistölfræði, söfnun upplýsinga um heilsufar og úrvinnsla úr þeim; uppbygging háskólanáms og rannsóknarstarfs í lýðheilsu.

Landlæknir tíundar síðan í greinargerðinni hvernig hann sér fyrir sér samstarfið við Lýðheilsustöð og hver eðlileg verkaskipting milli embættanna eigi að vera. Meðal þeirra verkefna sem hann vill að færist yfir til Lýðheilsustöðvar, auk þeirra sem nefnd eru í lögunum, eru geðvernd, hreyfing og líkamsrækt, heilsuefling og forvarnarstarf á sviði kynlífs og barneigna.

Í samtali við Læknablaðið segir landlæknir að nú eigi menn ekkert að vera að velta sér upp úr fortíðinni heldur taka höndum saman við að efla hina nýju stofnun. "Við munum styðja hana með ráðum og dáð enda skiptir miklu að þeir sem veljast til forystu fyrir Lýðheilsustöð fái þann stuðning sem þeir þurfa til að ýta henni úr vör," sagði Sigurður Guðmundsson.



Hvar á hún að vera?

En það er fleira sem óvissa ríkir um í starfsemi Lýðheilsustöðvar. Enn er til dæmis allsendis óljóst hvar stöðinni verður fundinn staður. Þegar ljóst var orðið að stofnunin yrði sett á laggirnar tóku að berast hávær tilmæli frá vissum stöðum á landsbyggðinni um að hún yrði sett niður utan höfuðborgarinnar. Einkum hefur verið bent á Akureyri sem vænlegan kost. Þar er bæði öflugur spítali og ungur háskóli með heilbrigðisdeild í örum vexti. Greinilegt var að þessi rök bitu á ráðherrann, í það minnsta meðan hann háði kosningabaráttu sína í Norðausturkjördæminu.

Flestir þeirra sem starfa á sviði heilbrigðismála eru hins vegar á því að Lýðheilsustöð eigi hvergi heima nema á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir því eru færð ýmis rök, svo sem að starfsemi ráðanna fjögurra sem undir stofnunina heyra fari öll fram í Reykjavík. Um skeið gældu einhverjir við þá hugmynd að stjórnsýsla stofnunarinnar gæti verið norðan heiða þótt ráðin störfuðu áfram í Reykjavík. Nú virðast menn líka hafa snúið baki við þeirri hugmynd. Hefur verið bent á að lífsvon hinnar nýju stofnunar sé ekki síst í því fólgin að henni takist að samræma starf þeirra sem vinna að forvörnum og það verði ekki gert í gegnum síma norðan úr landi.

Landlæknir segist telja það skipta mjög miklu máli að stofnunin verði á suðvesturhorninu. "Grunnhugmynd þessarar stöðvar er að koma öllum forvörnum fyrir á einum stað og með fullri virðingu fyrir byggðastefnunni þá yrði það ekki klínískri vinnu til framdráttar að setja stöðina niður fjarri stærsta þéttbýlinu og öflugustu heilbrigðisstofnunum þjóðarinnar," segir hann og bætir því við að vissulega sé hægt að vinna einstök verkefni annars staðar en að stjórnunin og yfirsýnin yfir rannsóknarstarfið verði að vera í stöðinni.

Þetta sjónarmið virðist vera að sækja á því það sem nú er helst til umræðu er að stöðinni verði fundinn staður á höfuðborgarsvæðinu en að hægt verði að fela til dæmis Háskólanum á Akureyri einstök afmörkuð verkefni á sviði rannsókna og kennslu í lýðheilsufræðum.

Enn einn óvissuþátturinn í starfsemi hinnar nýju stofnunar er fjárhagurinn. Samkvæmt fjárlögum er áætlað að kostnaður við Lýðheilsustöð verði á þessu ári 18 milljónir króna, auk fimm milljóna sem áætlaðar eru í stofnkostnað. Þetta hafa menn túlkað sem svo að heldur sé nú metnaður stjórnvalda rislítill. Þessi upphæð nægi til þess að ráða tvo starfsmenn, auk annars rekstrarkostnaðar, en ekki til að taka verulega á í forvarna- og lýðheilsumálum.

Fjármögnun forvarnastarfs er með ýmsu móti. Til er á vegum hins opinbera Forvarnasjóður sem 1% af innheimtu áfengisgjaldi rennur í og eru tekjur hans áætlaðar um 77 milljónir króna á þessu ári. Hægt er að sækja um framlög úr sjóðnum til forvarnaverkefna í áfengis- og fíkniefnamálum. Einnig er Tóbaksvarnaráði markaður tekjustofn sem er 0,9% af brúttósölu á tóbaki. Hvorki Manneldisráð né Slysavarnaráð hafa fasta tekjustofna.



Fræðsla og rannsóknir mikilvægust

Þeir sem til þekkja telja brýnast að efla sem mest rannsóknir og fræðslu á sviði forvarna og það kostar sitt. Þórólfur Þórlindsson prófessor og formaður Áfengis- og vímuvarnaráðs segist hafa kynnt sér viðhorf í forvarnastarfi í nágrannalöndum okkar og þar sé alls staðar lögð mikil áhersla á rannsóknir og miðlun upplýsinga. "Þetta er þungamiðja alls forvarnastarfs og byggist á þeirri hugmynd að með því að ná til fólks meðan það er á mótunarskeiði sé hægt að móta lífsstíl þess til frambúðar. Það er einnig lögð vaxandi áhersla á að meta forvarnaverkefni og ganga úr skugga um að þau skili árangri," sagði Þórólfur.

Þorsteinn Njálsson læknir og formaður tóbaksvarnanefndar tekur undir það að rannsóknir séu nauðsynlegar en þar sé þó oft hægt að nýta betur það sem til er af gögnum. Oft sé það þannig að vitneskjan sé til en komist ekki til skila til almennings, þar geti meðal annarra læknar litið í eigin barm.

Þorsteinn segir að stofnunin sé vissulega ómótuð en að það verði hlutverk nýs forstjóra að móta hana. "Hann getur gert hana að hefðbundinni stofnun sem stjórnar að ofan og niður. En hinn kosturinn er líka fyrir hendi að búa til lárétta stofnun sem starfar með félagasamtökum og sveitarfélögum á öllum sviðum forvarna." Hann bætir því við að þótt ekki sé gert ráð fyrir miklu fé til stofnunarinnar þá sé hægt að bæta úr því að einhverju leyti með því að sækja í sjóði Evrópusambandsins sem Íslendingar hafi fullan aðgang að.

Laufey Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri Manneldisráðs er sammála þeim félögum um nauðsyn rannsókna og menntunar á sviði lýðheilsu. "Það er einnig nauðsynlegt að samhæfa forvarnir á sem flestum sviðum og láta sér ekki nægja að fræða fólk heldur að ýta á markvissan hátt undir heilbrigðan lífsstíl. Þess vegna þarf að fella fleiri svið undir Lýðheilsustöð en þessi fjögur sem nú er rætt um," segir Laufey.

Þau Laufey og Þorsteinn eru raunar í hópi umsækjenda um forstjórastarfið en hvort sem annað þeirra verður fyrir valinu eða einhver annar þá er fyllsta ástæða til að óska viðkomandi farsældar í starfi. Verkefnin sem við blasa eru stór og varðar miklu fyrir forvarnir í landinu að á þeim sé tekið af metnaði og reisn.

Umsækjendur

um stöðu forstjóra Lýðheilsustöðvar voru fimmtán talsins:

Árni Thoroddsen, Elísabet Ólafsdóttir, Esther Guðmundsdóttir, Hallgrímur Magnússon, Ingunn Björnsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir, Lilja Sigrún Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sigurður P. Sigmundsson, Sigtryggur Jónsson, Stefán Hrafn Jónsson, Una María Óskarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Valgerður Kristjánsdóttir, Þorsteinn Njálsson.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica