Fræðigreinar
  • Tafla I
  • Tafla II
  • Tafla III
  • Tafla IV

Ungmenni sem leituðu athvarfs í Rauðakrosshúsinu 1996-2000

Ágrip

Tilgangur: Að kanna tengsl brotthlaups unglinga að heiman við slakan árangur í skóla, neyslu áfengis og annarra vímuefna, fjölskyldugerð og fleira.

Efniviður og aðferðir: Unnið var úr upplýsingum um skjólstæðinga Rauðakrosshússins árin 1996-2000 og niðurstöður bornar saman við rannsókn á starfsemi athvarfsins fyrir tímabilið 1985-1995. Skráningarblað athvarfs hússins var notað við gagnaöflun og ungmennum raðað í heimanfarna, heimanrekna og heimilislausa. Ungmenni sem fóru að heiman af eigin hvötum og þau sem komu af götunni en nefndu aðra ástæðu en húsnæðisleysi fyrir komu sinni, röðuðust í hóp heimanfarinna. Ungmenni sem hafði verið vísað að heiman eða af stofnun töldust heimanrekin. Heimilislaus flokkuðust ungmenni sem komu af götunni og nefndu húsnæðisleysi sem ástæðu komu og ungmenni sem bjuggu ekki hjá forráðamönnum en komu úr leiguhúsnæði, í fylgd lögreglu eða eftir áfengis/ vímuefnameðferð.

Niðurstöður: Komur voru um 32% fleiri en árin 1985-1995. Mest var aukning heimanfarinna pilta og heimanrekinna af báðum kynjum. Færri ungmenni töldust heimilislaus en árin 1985-1995. Þriðjungur heimanfarinna/rekinna var iðjulaus, en yfir 70% heimilislausra. Tóbaks-, áfengis- og fíkniefnaneysla var útbreidd. Húsnæðisleysi og vímuefnavandi voru algengustu ástæður komu heimilislausra, en samskiptaörðugleikar á heimili í hinum hópunum. Heimanfarnir/reknir piltar höfðu frekar flosnað frá námi, voru í neysluvanda og oftar iðjulausir en stúlkur. Endurkvæmir stóðu verr að vígi en frumkvæmir.

Ályktanir: Vandi heimilislausra virðist meiri en heimanfarinna/rekinna. Tilvist neyðarathvarfs Rauðakrosshússins virðist sporna við því að heimanfarnir/reknir gangi svo langt að falla í hóp heimilislausra ungmenna sem virðast frekar vera iðjulaus, stunda afbrot og í neysluvanda. Sú aukning sem virðist hafa orðið í hópi heimanfarinna og heimanrekinna unglinga sýnir að samskiptavandamál leiða nú frekar en áður til brotthlaups unglings eða brottvísunar af heimili.English Summary

Hauksson H, Arnarson EÖOperation of an emergency shelter in the Red Cross House (RCH) for runaway, throwaway and homeless adolescents in Iceland during the period 1996-2000Læknablaðið 2003; 89: 507-12Objective: To explore the relationship between running away from home with doing poorly at school, the use of alcohol and drugs, family structure, etc.

Material and methods: Analysis of data collected among adolescents who sought help at the RCH, the period 1996-2000 was compared to a prior report on RCH guests for the period 1985-1995. Admission records of the RCH were used for collecting data for subsequent analysis and the guests were grouped into runaways, throwaways and homeless adolescents. Runaways came off the street or left home on their own accord. Throwaways had been asked to leave home. The homeless had nowhere to stay, did not live with parents/ guardians, presented following alcohol/drug treatment or were escorted by the police.

Results: Compared with the operation of RCH during 1985-1995, there was about 32% increase of registered visits, mostly runaway boys and throwaways of both sexes. Fewer adolescents were homeless than in 1985-1995. About one third of runaways/throwaways and more than 70% of homeless were neither working nor at school when presenting at the RCH. Use of tobacco, alcohol/ drugs was common among guests. The most frequent reasons for the homeless seeking assistance was alcohol/ drug abuse but for runaways/throwaways having nowhere to stay and conflicts within their family. Runaway/throwaway boys were more likely than girls to be school dropouts, abuse alcohol/drugs and be out of work. Frequent visitors were worse off than first time visitors.

Conclusions: The plight of homeless adolescents seemed more serious than that of runaways and throwaways. The RCH aims to keep adolescents off the streets and to prevent runaways or throwaways to become homeless who are more likely to be out of work, commit crimes and abuse alcohol/drugs. The increase of visits by adolescents registered as runaways or throwaways to the RCH, and the decrease of visits by those registered as homeless might suggest that frequency of severe relational problems between parents and their child is on the increase in Icelandic homes.Keyword: emergency shelter, adolescent, runaway, throwaway, homeless.Correspondence: Eiríkur Örn Arnarson, eirikur@landspitali.is
Inngangur

Rauðakrosshúsið átti 15 ára starfsafmæli í desember árið 2000. Af því tilefni var unnið úr gögnum um hjálparþurfi unglinga sem leituðu í athvarfið árin 1996 til 2000, meðal annars til samanburðar við niðurstöður úr rannsókn Helga Hjartarsonar og Eiríks Arnar Arnarsonar (1) á þeim unglingum sem dvöldu í athvarfinu fyrstu tíu starfsár þess.

Hlutverk neyðarathvarfs Rauðakrosshússins er að veita unglingum í neyð eins konar fyrstu hjálp með grundvallarmarkmið Rauðakrossins um mannúð og hlutleysi að leiðarljósi (2). Athvarfið er opið allan sólarhringinn árið um kring og ungmenni þurfa ekki að gera boð á undan sér. Forvarnarmarkmið Rauðakrosshússins er að veita ungmennunum húsaskjól, fæði, stuðning og ráðgjöf áður en í óefni er komið. Þær upplýsingar sem skráðar eru um ungmenni sem gista í Rauðakrosshúsinu skipta miklu máli þegar fjallað er um málefni unglinga og fjölskyldna á Íslandi, ekki síst til samanburðar við skýrslur og rannsóknir á opinberum gögnum um þennan málaflokk.

Í flestum rannsóknum er heimanfarinn unglingur skilgreindur sem 10-17 ára unglingur sem hefur verið að heiman eina nótt eða lengur án samþykkis forráðamanna (3, 4). Þessi skilgreining nær ekki til þeirra ungmenna sem er vísað að heiman, eru heimanrekin, en margir vilja gera þar greinarmun. Samkvæmt þeim fara unglingar að heiman vegna djúpstæðra deilna við foreldra og slakra félagslegra tengsla en heimanreknir fara ekki að eigin frumkvæði heldur vegna hvatningar eða þrýstings forráðamanna (3). Talið er að 30 til 60% unglinga sem fara að heiman geri það fyrir orð forráðamanna en ekki að eigin frumkvæði (5).

Samkvæmt skýrslu Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 1991 (5) hlaupast milli 4 og 10 af hundraði bandarískra ungmenna einhvern tíma að heiman. Af þeim gerir innan við helmingur fleiri en eina tilraun og um 75% snýr heim innan viku. Í fjórðu útgáfu greiningarkerfis amerísku geðlæknasamtakanna (DSM IV) (6) er endurtekið brotthlaup eða endanlegt í fyrstu tilraun talið uppfylla skilmerki fyrir truflun á félagslegu atferli.

Rannsóknir benda ekki til að um afmarkaðan orsakaþátt sé að ræða hjá brotthlaupnum í samanburði við þá sem ekki fara að heiman, heldur virðist vera víxlverkun ýmissa þátta, svo sem slakra tilfinningatengsla í fjölskyldu, vandamála í skóla, afbrigðilegrar hegðunar og neikvæðra tilfinninga.

Ýmsir hafa bent á hversu hátt hlutfall heimanfarinna kemur frá einstæðu foreldri eða úr stjúpfjölskyldu (1, 2, 7). Heimanreknir koma frekar en heimanfarnir úr slíku fjölskylduumhverfi (7) og togstreita og rifrildi virðast algengari á heimilum þeirra sem reknir eru að heiman en hinna sem fara að eigin frumkvæði (3).

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að líklegra er að heimanfarinn unglingur hafi verið beittur líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á heimili sínu en unglingur sem dvelur í föðurhúsum (8, 9). Flótti er yfirleitt eðlilegt viðbragð við ógn í umhverfi og ætti að auka afkomulíkur viðkomandi. Svo er ekki hér samkvæmt rannsókn (10) sem bendir til að unglingur sem flýr ofbeldi á heimili og heldur að mestu til á götunni er líklegri en aðrir heimanfarnir til að verða fórnarlamb líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis þar.

Vandamál í skóla virðast algengari meðal heimanfarinna en þeirra sem heima búa (11, 12). Í rannsókn á 123 skjólstæðingum athvarfs í Kanada (11) kom fram að um 52% áttu við lestrarörðugleika að etja og 28,5% voru undir mörkum í skrift og stærðfræði miðað við aldur.

Neysla vímugjafa og fíkniefna virðist samkvæmt rannsóknum (13, 14) algengari meðal heimanfarinna unglinga en unglinga almennt. Hegðunar- og geðbrigðaraskanir virðast einnig algengari meðal þeirra sem fara að heiman en hinna og þeir þjást frekar af þunglyndi og sjálfsvígshugmyndum sem tengjast slakri sjálfsmynd (12, 14).

Eins og í fyrri rannsókn (1) var unglingum sem gistu athvarfið raðað eftir ástæðum komu í heimanfarna, heimanrekna og heimilislausa. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman þessa þrjá hópa með tilliti til ástæðna komu í Rauðakrosshúsið, bakgrunns, fjölskyldu, neyslu vímuefna og fleiri breytna. Innan hópanna voru sömu breytur notaðar til að kanna mun milli kynja, þeirra sem komu einu sinni í athvarfið (frumkvæmir) og hinna sem komu oftar (endurkvæmir). Þá voru bornar saman niðurstöður þessarar rannsóknar og rannsóknar á fyrstu 10 árum starfseminnar (1).Efniviður og aðferðir

Þátttakendur: Unnið var úr gögnum um 686 ungmenni, 12-21 árs, sem gistu neyðarathvarf Rauðakrosshússins árin 1996-2000 og þeim skipað í þrjá flokka eftir ástæðum komu. Í flokk heimanfarinna röðuðust þau ungmenni sem fóru úr foreldrahúsum að eigin frumkvæði. Einnig voru þeir sem hvorki nefndu húsnæðisleysi né brottvísun að heiman, en komu af götunni, flokkaðir sem heimanfarnir. Þeir sem komu í athvarfið vegna þess að þeim var vísað að heiman flokkuðust sem heimanreknir. Þeir sem komu af götunni, úr vímuefnameðferð, úr leiguhúsnæði eða í fylgd lögreglu og nefndu húsnæðisleysi sem ástæðu komu töldust heimilislausir. Einnig voru þeir sem ekki tilgreindu húsnæðisleysi, en flýðu sambýli með vinum eða kunningjum vegna neysluvandamála eða samskiptaörðugleika settir í hóp heimilislausra.Mælitæki: Upplýsingar um ungmennin fengust í tölvuskráningarkerfi Rauðakrosshússins með leyfi stjórnar Rauðakross Íslands. Skráð er samkvæmt númeri og nafn viðkomandi kemur ekki fram. Almennar upplýsingar eru aldur, kyn, lögheimili og búseta, fyrri reynsla af athvarfinu, iðja, skólaganga og tengsl við félagslegar stofnanir. Þá er skráð sambúðarform foreldra, systkinafjöldi, systkinaröð og síðasta aðsetur. Upplýsingar um neyslu tóbaks, áfengis og vímuefna síðustu þrjá til sex mánuði eru skráðar, ástæður komu og loks almennar upplýsingar við brottför, það er fjöldi gistinátta, dagsetning brottfarar, næsti dvalarstaður og með hvaða hætti unglingur yfirgefur athvarfið.

Starfsmenn öfluðu ofangreindra upplýsinga og skráðu þær að unglingi ásjáandi. Þeim upplýsingum sem komu fram síðar var þá bætt við skráningu. Munur milli hópa var metinn með kí-kvaðrat prófi. Tölfræðilega marktækur munur var talinn við p<0,05.Niðurstöður

Á bak við 686 færslur voru 318 ungmenni (206 heimanfarnir, 84 heimanreknir og 28 heimilislausir) sem komu einu sinni á tímabilinu. Í 368 færslum var um endurkomu að ræða. Á bak við þær færslur voru 281 ungmenni (156 heimanfarnir, 45 heimanreknir og 80 heimilislausir) sem komu tvisvar eða oftar á tímabilinu, eða höfðu komið til dvalar í athvarfinu fyrir árið 1996. Þegar allar færslur eru taldar og fjöldi endurkvæmra borinn saman við fjölda frumkvæmra eftir hópum, sést að hlutfall endurkvæmra er langhæst, eða 74% af skráðum komum, í hópi heimililausra (tafla I).

Í hópi heimanfarinna sem komu einu sinni í athvarfið var kynskipting jöfn, en meðal endurkvæmra voru 103 piltar og 53 stúlkur. Meðal frumkvæmra í hópi heimanrekinna voru 45 piltar og 39 stúlkur og endurkvæmir töldust 29 piltar á móti 16 stúlkum. Í hópi frumkvæmra heimilislausra voru 16 piltar og 12 stúlkur. Endurkvæmir í þessum hópi skiptust í 50 pilta og 30 stúlkur (tafla I).

Meðalaldur heimanfarinna sem komu einu sinni á tímabilinu var 16,2 ár en þeirra sem komu oftar 16,7 ár. Hjá heimanreknum var meðalaldur frumkvæmra 16,4 ár en endurkvæmra 16,8 ár. Meðalaldur heimilislausra unglinga sem komu einu sinni var 17,9 ár en hinna sem komu oftar 17,1 ár.

Flestir gesta neyðarathvarfsins komu af höfuðborgarsvæðinu, en hæst var hlutfall þeirra í hópi heimanrekinna (tafla I).

Foreldrar unglinganna sem gistu Rauðakrosshúsið voru í fæstum tilfellum í sambúð (tafla II). Heimilislausir skera sig úr þar sem einungis 11% þeirra áttu foreldra í sambúð.

Rúmur þriðjungur heimanfarinna og heimanrekinna ungmenna, en yfir 70% heimilislausra, var iðjulaus við komu í athvarfið (tafla II). Meðal heimilislausra var ekki marktækur munur milli kynja, en í hópi heimanfarinna voru um 54% pilta iðjulausir og um 30% stúlkna (x2 (2,206) = 22,5; p<0,0001). Meðal heimanrekinna var munur milli kynja í sömu átt, rúm 60% pilta voru iðjulausir en sama hlutfall stúlkna var um 27% (x2 (2,84) = 10,4; p<0,001).

Iðjuleysi var algengara meðal endurkvæmra en frumkvæmra í hópum heimanfarinna (x2 (1,362) = 23,6; p<0,001) og heimanrekinna (x2 (1,129) = 8,5; p<0,005). Munur frum- og endurkvæmra í hópi heimilislausra var ekki metinn þar sem væntigildi var undir mörkum í yfir 20% tilvika.

Munur á skólagöngu milli heimilislausra annars vegar og heimanfarinna og -rekinna hins vegar (tafla II) skýrist líklega helst með aldursmuni milli hópanna (F(1,315) = 32,2; p<0,0001) þar sem meðalaldur heimilislausra er 17,2 ár en hinna hópanna 16,3 ár.

Þegar borin var saman námsstaða milli kynja innan hópanna kom fram munur í hópi heimanfarinna. Um helmingi fleiri stúlkur en piltar voru í skyldunámi eða framhaldsskóla en tæp 12% pilta á móti tæpum 4% stúlkna höfðu hætt skyldunámi (x2 (4,206) = 23,4; p<0,0001).

Munur var á frum og endurkvæmum í öllum hópunum þegar skoðað var hve margir hættu skyldunámi. Í hópi heimanfarinna höfðu tæp 20% endurkvæmra hætt skyldunámi en meðal frumkvæmra var hlutfallið 7,8% (x2 (4,206) = 23,3;p<0,001). Hjá heimanreknum var þetta hlutfall um 11% frumkvæmra og rúm 16% endurkvæmra (x2 (1,129) = 4,3; p<0,005). Meðal heimilislausra höfðu tæp 4% frumkvæmra, en rúmur fjórðungur endurkvæmra hætt skyldunámi (x2 (1,108) = 6,4; p<0,005).

Meirihluti unglinga af báðum kynjum hafði verið í tengslum við félagslegar stofnanir áður en leitað var í neyðarathvarfið, en saga um afskipti lögreglu var algengust í hópi heimilislausra (tafla III). Heimilislausir skáru sig líka úr þegar litið var á tegund tengsla við félagslegar stofnanir. Helmingur heimilislausra hafði farið í áfengis- eða vímuefnameðferð, en meðal heimanfarinna var þetta hlutfall 18% og heimanrekinna 12,6% (x2 (2,235) = 14,4; p<0,005).

Hærra hlutfall endurkvæmra en frumkvæmra hafði verið í tengslum við félagslegar stofnanir fyrir komu í athvarfið. Marktækur munur kom þó aðeins fram meðal heimanfarinna (x2 (1,362) = 12,3; p<0,0001) þar sem rúm 60% frumkvæmra, en tæp 96% endurkvæmra höfðu reynslu af félagslegum stofnunum.

Afar hátt hlutfall ungmennanna í athvarfinu notaði tóbak og áfengi en munur milli hópa var lítill og ómarktækur (tafla III). Hærra hlutfall heimilislausra en heimanfarinna og -rekinna hafði neytt fíkniefna fyrir komu í athvarfið (x2 (2,318) = 19,0; p<0,0001). Í hópi heimanrekinna var neysla slíkra efna algengari meðal pilta (44%) en stúlkna (24%) (x2 (1,84) = 5,4; p<0,05), en munur milli kynja kom ekki fram í hinum hópunum.

Ekki kom fram munur á reykingum eða neyslu áfengis eða fíkniefna milli frum- og endurkvæmra í hópum heimanrekinna og heimilislausra. Í hópi heimanfarinna var munur á reykingum á þann veg að tæp 89% endurkvæmra reykti, á móti rúmum 77% frumkvæmra (x2 (1,362) = 12,3; p<0,0001). Annar munur frum- og endurkvæmra í hópi heimanfarinna var sá að 33% endurkvæmra höfðu notað ólögleg fíkniefni, en sama hlutfall frumkvæmra var 22% (x2 (1,362) = 6,11; p<0,05).

Í töflu IV eru bornar saman eftir hópum þær ástæður sem ungmennin gáfu upp fyrir komu sinni í Rauðakrosshúsið. Athuga skal að við komu í athvarfið eru oftar en ekki nefndar fleiri en ein ástæða.

Samskiptaörðugleikar voru oftast nefndir sem ástæða komu stúlkna (66%) í hópi heimanfarinna og greinir þær frá piltum (48%) í þeim hópi (x2 (1,206) = 6,4; p<0,05). Piltarnir tilgreina oftast húsnæðisleysi sem ástæðu komu (53,4%), mun oftar en stúlkur (22,3%), og sú ástæða komu greinir líka milli kynja í hópi heimanfarinna (x2 (1, 206) = 21,1; p<0,001). Ofbeldi er töluvert oftar nefnt sem ástæða komu í hópi heimanfarinna en hinum tveimur og er algengari hjá stúlkum (31%) en piltum (13%) (x2 (1, 206) = 4,5; p<0,05). Þar er fyrst og fremst um líkamlegt ofbeldi að ræða, en næstum þrisvar sinnum fleiri heimanfarnar stúlkur tilgreina þessa ástæðu fyrir komu í athvarfið en heimanfarnir piltar (x2 (1, 206) = 10,3; p<0,001). Eigin neysla sem ástæða komu í athvarfið greinir milli pilta og stúlkna í hópi heimanrekinna (x2 (1,84) = 7,6; p<0,05), á þann veg að piltar tilgreina ástæðuna oftar (38%) en stúlkur (18%).

Enginn munur á ástæðum komu greindist milli kynja í hópi heimilislausra.

Í hópi heimanfarinna tilgreinir hærra hlutfall frumkvæmra (32%) en endurkvæmra (22%) ástæðuna erfiðar heimilisaðstæður (x2 (1,362) = 4,2; p<0,05). Endurkvæmir tilgreina hins vegar marktækt oftar húsnæðisleysi (65%) en frumkvæmir (38%) í hópi heimanfarinna (x2 (1,362) = 33,9; p<0,0001).

Endurkvæmir í hópi heimanfarinna tilgreina líka oftar en frumkvæmir eigin neyslu sem ástæðu komu í athvarfið (x2 (1, 362) = 5,2; p<0,05).Umræða

Niðurstöður sýna talsverðan mun milli heimilislausra unglinga annars vegar og heimanrekinna og heimanfarinna hins vegar með tilliti til skráninga við komu. Munur milli heimanfarinna og heimanrekinna unglinga er minni. Í hópi heimanfarinna var kynskipting jöfn, fleiri stúlkur en piltar voru í hópi heimanrekinna en piltar aftur fleiri í hópi heimilislausra. Þetta kemur heim og saman við niðurstöður eldri rannsókna (1, 2, 6), þó með einni undantekningu (1) þar sem voru stúlkur 64% heimanfarinna en hér voru hlutföll kynja jöfn. Ofangreindar rannsóknir benda til þess að fleiri stúlkur en piltar fari að heiman. Á tímabilinu 1996 til 2000 leituðu fleiri stúlkur en piltar athvarfs í Rauðakrosshúsinu, en miðað við eldri rannsókn (1) hefur þó dregið töluvert saman með kynjum.

Þegar bornar eru saman tölur úr þessari rannsókn og rannsókn á starfsemi athvarfsins 1985-1995 (1) má sjá að skráðum komum í neyðarathvarf Rauðakrosshússins hefur fjölgað. Á fyrstu tíu árum starfseminnar voru skráðar 927 komur í athvarfið, eða að meðaltali um 102 á ári. Í þessari rannsókn voru skráðar að meðaltali rúmar 136 komur (skráðar færslur, ekki einstaklingar) á ári. Hér er um 30% aukningu í gestakomum að ræða.

Í fyrri rannsókn (1) voru foreldrar um þrjátíu af hundraði heimanfarinna og heimanrekinna í sambúð. Engin breyting virðist hafa orðið þar á. Í hópi heimilislausra er hlutfall foreldra í sambúð hins vegar lægra hér (10,7%) en í eldri rannsókninni (16%). Þessar niðurstöður benda til þess að í stjúpfjölskyldum og fjölskyldum þar sem aðeins annað foreldrið (yfirleitt móðir) er til staðar séu árekstrar tíðari eða tengsl við ungling lausari en í fjölskyldum þar sem foreldrar eru í sambúð (2, 14).

Iðjuleysi var algengt í öllum þremur hópunum. Miðað við niðurstöður eldri rannsóknar (1) er hins vegar jákvæð þróun í skólamálum unglinga sem leita í athvarfið. Í þeirri rannsókn hafði fjórðungur heimanfarinna og heimanrekinna, en um 41% heimilislausra hætt skyldunámi. Samkvæmt skráningum árin 1996-2000 hafa þessi hlutföll breyst töluvert til hins betra. Hins vegar er ekki hægt að sjá tilsvarandi hækkun milli tímabila á hlutfalli þeirra sem stunda framhaldsnám. Auknar líkur virðast á brotthlaupi og áfengis- og/eða fíkniefnaánetjun hjá unglingum sem flosna úr námi vegna félagslegra erfiðleika og einnig eru þeir líklegri til að fara endanlega, eða oftar en einu sinni, að heiman (11). Heimilislausir skera sig úr hvað varðar iðjuleysi, (71,4%), en hlutfall þeirra er einmitt hærra hvað varðar neyslu vímugjafa og endurkomur í neyðarathvarfið sem bendir vafalítið til meiri félagslegra örðugleika en unglingar í hinum hópunum búa við.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að Rauðakrosshúsið sé ekki fyrsti staðurinn sem meirihluti unglinganna leitar hjálpar. Flestir höfðu verið í sambandi við félagslegar stofnanir eða sérfræðinga í einkageiranum fyrir komu í athvarfið. Virðist því sem stór hluti unglinga í þessum hópum eigi við atferlis-, náms- eða geðraskanir að stríða og er það í samræmi við niðurstöður rannsókna (1, 13).

Neysla áfengis er algeng meðal unglinganna sem leituðu í athvarfið, en virðist þó hafa minnkað frá því sem fram kom í eldri rannsókn (1). Neysla fíkniefna hefur hins vegar ekki minnkað og virðist raunar hafa aukist meðal heimilislausra (68%). Í helmingi skráninga heimilislausra og í 27% skráninga heimanrekinna er eigin neysla tilgreind sem ein af ástæðum komu. Þetta er í samræmi við rannsóknir sem hafa sýnt fram á tengsl fíkniefnaneyslu og brotthlaups að heiman (13, 14).

Algengasta ástæða komu heimanfarinna og heimanrekinna er ,,samskiptaörðugleikar" á heimili og er það í samræmi við niðurstöður rannsókna (1-3). Heimanfarnir skera sig úr hvað varðar ástæðuna ,,ofbeldi" og eru það frekar stúlkur en piltar sem verða fyrir því. Sú niðurstaða er í samræmi við eldri rannsóknir (10).

Heimilislausir skera sig úr hvað varðar ýmis einkenni og staða þeirra virðist öllu slakari en heimanfarinna og heimanrekinna. Sú mynd af heimilislausum sem birtist í þessum niðurstöðum er nánast hin sama og dregin er upp í rannsókn Helga Hjartarsonar og Eiríks Arnar Arnarsonar (1). Þar sem skilgreiningin á heimilislausum unglingi felur í sér lítil eða engin tengsl við foreldra og fjölskyldu má ætla að vandamál hans snúist að miklu leyti um aðra hluti en vandamál heimanfarins eða -rekins unglings. Foreldrar og fjölskylda virðast oftast í myndinni hjá þessum hópum, meðan vandi heimilislausra snýst meira um að komast af frá degi til dags.

Miðað við hlutfall heimanfarinna sem sóttu skóla, 18,4% pilta og 48,3% stúlkna, og þeirra sem hætt höfðu skyldunámi, 11,7% pilta og 3,9% stúlkna, eiga heimanfarnir piltar frekar undir högg að sækja í skólamálum en stúlkurnar. Iðjuleysi er líka algengara meðal piltanna en stúlknanna. Þetta kemur heim og saman við niðurstöður eldri rannsókna (11).

Samkvæmt ofangreindu virðist mega segja að karlkyns ungmenni sem leita í neyðarathvarf Rauðakrosshússins séu oft verr á vegi staddir en stúlkur með tilliti til skólamála og neyslu vímu og/eða fíkniefna, að minnsta kosti í hópum heimanfarinna og -rekinna. Stúlkur virðast hins vegar oftar sjá samskiptaörðugleika í fjölskyldu sem rót vanda síns, þó kynjamunur sé einungis marktækur tölfræðilega í hópi heimanfarinna.

Ekki kemur á óvart að unglingar sem hlaupast endurtekið að heiman virðast eiga í alvarlegri persónulegum og félagslegum vanda en þeir sem ekki endurtaka brotthlaup (11, 12). Þeim gengur verr í skóla, bæði námslega og félagslega og stjórnleysi einkennir hegðun þeirra (12, 13). Reykingar virðast tíðari meðal endurkvæmra en frumkvæmra í öllum hópum, en aðeins í hópi heimanfarinna er um tölfræðilega marktækan mun að ræða. Endurkvæmir eru einnig líklegri til að nota ólögleg fíkniefni en munur milli frum- og endurkvæmra var þó aðeins marktækur í hópi heimanfarinna. Endurkvæmir tilgreindu líka oftar en frumkvæmir vímuefnaneyslu sem ástæðu komu, en munur var þó ekki mikill (19,9% á móti 12,1%).

Aðstæður þeirra unglinga sem fóru endurtekið að heiman og í neyðarathvarfið virðist öllu verri en þeirra sem aðeins komu einu sinni í athvarfið. Sú mynd sem draga má upp hér af unglingum sem endurtaka brotthlaup samræmist nokkuð vel skilyrðum DSM IV (6) um skilmerki fyrir truflun á félagslegu atferli með tilliti til tengsla við annað félagslega óæskilegt atferli, svo sem áfengis- og dópneyslu. Lýsing Ingersolls (7) á rótlausum unglingum, sem eiga í erfiðleikum við að uppfylla kröfur samfélagsins um ástundun skóla eða vinnu og lenda snemma í erfiðleikum með áfengi og dóp, virðist líka eiga hér samsvörun.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru samskiptaörðugleikar áberandi ástæða brotthlaups meðal þeirra unglinga sem teljast heimanfarnir og heimanreknir. Skráningar gefa ekki færi á að greina hvernig samskiptaörðugleika er um að ræða; hvort samskiptin hafi verið slæm um langa hríð, hvort þau tengjast beint hegðun unglings, hvort þau einkennast af rifrildum eða afskiptaleysi, útskúfun og svo framvegis. Ef unnt væri að greina betur í hverju samskiptaörðugleikar eru fólgnir má ætla að auðveldara væri að skipuleggja viðbrögð.

Iðjuleysi og neysla ólöglegra fíkniefna er töluvert áberandi meðal unglinganna, sérstaklega í hópi heimilislausra. Fáir unglingar raðast í hóp heimilislausra en þeir koma hins vegar frekar oftar en einu sinni í athvarfið en unglingar í hinum hópunum. Líklegt er að heimilislaus unglingur hafi hafið ,,feril" sinn sem heimanfarinn eða heimanrekinn. Þegar litið er á hversu algengt iðjuleysi er meðal unglinganna, hversu fáir þeirra halda áfram námi eftir grunnskóla, hversu margir hafa þurft meðferð vegna hegðunar- eða geðraskana og þess að fíkniefnaneysla er algengari þeirra á meðal en annarra unglinga á Íslandi er ljóst að samhengi er milli þessarar hegðunar og samskiptaörðugleika á heimili. Áhugavert væri að skoða hversu vel meðferðarform stofnanna á Íslandi sinnir þörfum fjölskyldu þess unglings sem meðferð þiggur, ekki síst með tilliti til eftirfylgni.

Rauðakrosshúsið hefur sinnt hlutverki sínu sem neyðarathvarf fyrir ungmenni sem ekki hafa í önnur hús að venda í rúm 17 ár. Um þau ungmenni sem hafa nýtt sér þjónustuna liggja fyrir upplýsingar sem vert er að rannsaka og svo hefur verið gert hér frá tilteknu sjónarhorni. Komum í athvarfið hefur fjölgað töluvert umfram það sem eðlilegt mætti teljast með tilliti til fólksfjöldaaukningu og vert er að huga að ástæðum þess í náinni framtíð með tilliti til samfélagslegra þátta ýmissa. Þær upplýsingar í gögnum athvarfsins um þann hóp unglinga sem fer að heiman, er rekinn að heiman og í versta falli nánast slítur öll tengsl við foreldra og fjölskyldu eru nýtanlegar til glöggvunar á stöðu unglinga í samfélaginu og ekki síður sem leiðbeiningar um hvað hugsanlega megi betur fara í viðbrögðum samfélagsins, þar á meðal Rauðakrosshússins, við vaxandi vanda.Heimildir1. Hjartarson H, Arnarson EÖ. Heimanfarnir, heimanreknir og heimilislausir unglingar á Íslandi. Úttekt á fyrstu 10 starfsárum Rauðakrosshússins. Læknablaðið 2000; 86: 33-8.

2. Þór ÓH, Sigurðsson E. Rauðakrosshúsið í 10 ár. 10 ára skýrsla um Rauðakrosshúsið frá opnun þess 14. desember 1985 til ársloka 1995. 1996; Reykjavík: Rauðikross Íslands.

3. Adams GR, Gullotta T, Clancy MA. Homeless adolescents: a descriptive study of similarities and differences between runaways and throwaways. Adolescence 1985; 21: 715-23.

4. Regoli RM, Hewitt JD. Delinquency in society: A childcentered approach. New York: McGraw-Hill, 1991.

5. Steinberg L. Adolescence. 4th ed. New York: McGraw Hill, 1996.

6. American Psychiatric Association. Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders. 4th ed (DSM-IV). Washington DC: American Psychiatric Association, 1994.

7. Ingersoll GM. Adolescents. 2nd ed. New Jersey: Prentice Hall, 1989.

8. Whitbeck LB, Hoyt DR, Ackley KA. Abusive family backgrounds and later victimization among runaway and homeless adolescents. J Res Adolescence 1997; 7: 375-92.

9. Kurtz PD, Kurtz GL, Jarvis SV. Problems of maltreated runaway youth. Adolescence 1991; 26: 543-55.

10. Terrel NE. Street life: Aggrevated and Sexual Assaults among Homeless and Runaway Adolescents. Youth Soc 1997; 28: 267-90.

11. Barwick MA, Siegel LS. Learning difficulties in adolescent clients of a shelter for runaway and homeless street youths. J Res Adolescents 1996; 6: 649-70.

12. DeMan AF. Predictors of adolescent running away behavior. Soc Behav Personal 2000; 28: 261-8.

13. Kipke MD, Unger JB, Palmer RF, Edington R. Drug use, needle sharing and HIV risk among injection drug-using street youth. Subst Use Misuse 1996; 31: 1167-87.

14. Sleegers J, Spijker J, van Limbeek J, van Engeland H. Mental health problems among homeless adolescents. Acta Psychiatr Scand 1998; 97: 253-9.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica