Umræða fréttir
  • Tafla I

Íslendingar greiða í heild 40-60% hærra verð fyrir lyf en nágrannaþjóðir

Miklar umræður hafa verið um dýrleika lyfja á Íslandi í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Lítið gagn er að því að tala um einstök lyf til samanburðar eins og gert hefur verið. Menn leita langt yfir skammt. Nákvæmar upplýsingar hafa lengi verið til um heildarsölu lyfja og smásöluverð þeirra í tölfræðihandbókum Norðurlanda sem koma út árlega. Hér á eftir fylgja slíkar upplýsingar frá 1999.

Rétt er að geta þess að lyfjaverslanir á Íslandi kaupa lyf á rúmlega 10% hærra verði á pakkninguna en lyfjaverslanir á hinum Norðurlöndunum. Lyfjafyrirtækin flagga oft þessum tölum sem segja þó aðeins hálfan sannleikann.

Á Íslandi er selt minnsta af lyfjum en smásöluverð er 40-60% hærra en meðal hinna Norðurlandaþjóðanna þegar á heildina er litið. Svipaðar tölur komu fram á árunum 1983-1998 sbr. sömu heimildir og í Fylgiriti landlæknis 1988 nr. 4. Við nánari athugun kemur í ljós að neysla geð-, róandi-, svefn- og sýklalyfja er einna hæst á Íslandi, en neysla annarra tegunda lyfja er einna minnst svo að heildarneysla er minnst hér á landi. Aðalorsökin er að heildsölu- og smásöluálagning er langhæst hér á Íslandi. Menn geta kynnt sér þessar tölur betur í norrænum tölfræðibókum sem koma út árlega, en að þessum samanburði hefur verið unnið í áratugi.

Helstu leiðir til þess að lækka verð er að lækka heild- og smásöluálagninguna. Hæg eru heimatökin því nú eru það aðallega tveir aðilar sem sjá um smásöluna. Freista þarf þess að taka þátt í útboðum með nágrannaþjóðum eins og Landsspítalamenn hafa bent á. Ennfremur mætti heilbrigðisráðherra huga betur að óskráðum lyfjum sem falla ekki undir verðlagseftirlit. En ljóst er af þessari samantekt að lyf eru úr hófi dýrari hér á landi í samanburði við nágrannalönd og kemur verst niður á veiku fólki, öryrkjum og öldruðum. Lyfjafyrirtæki hafa hingað til ekki getað hnekkt þessum útreikningum en falið sig á bak við alls óskyldar upplýsingar.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica