Umræða fréttir

Íðorð 153. Vitundarvakning

Í 150. pistli (Lbl 2002; 88: 935) var rætt um vitundarvakningu sem vekur athygli á einkennum eða áhættuþáttum tiltekins sjúkdóms. Með vitundarvakningu eru menn gjarnan fræddir um ýmsar breytingar sem gera má á mataræði eða lífsstíl til að draga úr sjúkdómsáhættu. Sömuleiðis er vakin athygli á ýmsum líkamlegum einkennum sem gætu bent til sjúkdóms á byrjunarstigi og ættu að leiða fólk til læknis, þannig að nákvæm greining fari fram og meðferð geti hafist á fyrstu stigunum í ferli sjúkdóms. Í tengslum við vitundarvakningu má einnig gera sérstaka leit að áhættuþáttum, vægum einkennum eða beinum sjúkdómsmerkjum.



Skimun

Tilefni fyrri umræðu var fyrirspurn um hvenær nota ætti heitið skimun. Undirritaður leggur til að enska heitið screening verði þýtt með íslenska orðinu skimun. Góðar lýsingar á hugtakinu er að finna í læknisfræðiorðabókum Dorlands: rannsókn eða prófun á hópi einstaklinga til að aðgreina þá sem eru heilbrigðir frá þeim sem eru með ógreindan sjúkdóm eða galla eða eru í mikilli áhættu, og Stedmans: skoðun á hópi einstaklinga, sem oftast eru einkennalausir, venjulega með því að beita ódýru greiningarprófi til að greina þá sem hafa miklar líkur á að vera með tiltekinn sjúkdóm.

Augljóst virðist af þessu að skimunin er almenn leit að vægum einkennum eða áhættuþáttum en ekki sértæk greining. Áherslan er á að aðgreina hópa manna, en ekki að greina einstaka sjúklinga nákvæmlega. Skimuninni skal hins vegar fylgt eftir með sérstökum greiningaraðgerðum hjá þeim einstaklingum sem lenda í tilteknum áhættuhópum. Minnt er á að sögnin að skima merkti upphaflega að líta í kringum sig, skyggnast um, horfa.



Kembileit

Verði þessi breyting gerð þarf að endurskoða aðrar færslur í Íðorðasafni lækna. Þar á meðal er heitið kembileit, sem undirritaður vill láta nota um nákvæma sjúkdómsleit, til dæmis krabbameinsleit, sem gerð er hjá öllum einstaklingum á tilteknum aldri með því að beita viðeigandi rannsóknaraðferð. Þessi tillaga er grundvölluð á þeirri tilfinningu undirritaðs, sem ekki verður studd með óyggjandi tilvitnunum í orðabækur, að sögnin að kemba feli í sér ítarlegri verknað en sögnin að skima. Auðvitað getur stundum verið erfitt að ákvarða í hvorn flokkinn tiltekin læknisfræðileg leit skuli falla, flokk kembileita eða flokk skimunaraðgerða, og skal ekki gert lítið úr þeirri ákvörðun. Hugmyndin snýst um það að þörf sé fyrir heiti sem aðgreina almennar yfirlitsaðgerðir frá þeim sem eru ítarlegar og sértækar. Með vel aðgreindum heitum má gefa til kynna, bæði fyrir almenningi og heilbrigðisstarfsmönnum, hvers eðlis tiltekin leit er, hvort hún felur í sér almenna skimun eða fínkembingu.



Skönnun

Sömuleiðis þarf að breyta þýðingu Íðorðasafnsins á ensku heitunum scan, scanner og scanning, en við þýðingar á þeim urðu til íslensku orðin skima, skimari og skimun. Óhætt er að horfast í augu við það að sögnin að skanna hefur náð fótfestu í íslensku læknamáli í þeim tilvikum þar sem sögin to scan er notuð á ensku. Í Íslenskri orðabók Eddu frá 2002 má finna nafnorðið skanni: tæki til að skanna og sögnina skanna: 1. láta tæki lesa textasíður og myndir og umbreyta þeim á tölvutækt form 2. óforml. renna augunum hratt yfir (e-ð). Í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs má sömuleiðis finna ítarlegar útskýringar á fyrrgreindum heitum þar sem íslensku orðin skanna (s.), skanni (n.) og skönnun (n.) koma fyrir og virðast fyllilega viðurkennd.

Lagt er því til að umræddar færslur Íðorðasafnsins verði þannig: 1 scan so. skanna, scanner no. skanni. scanning no. skönnun. Þá er eftir nafnorðið scan. Samkvæmt læknisfræðiorðabók Dorlands er það notað um gögnin eða myndina sem verður til við skönnun á tilteknu líffæri, svo sem brain scan, kidney scan og thyroid scan. Læknisfræðiorðabók Stedmans tekur í sama streng, en vísar eingöngu í tæknina sem beitt er: CT scan, radionuclide scan og ultrasound scan. Að teknu tilliti til beggja sjónarmiða gætu færslur Íðorðasafnsins orðið þannig: 2. scan no. skannamynd, skannagögn. Mynd eða gögn sem verða til við notkun skanna. 3. scan no. skönnunarmynd, skönnunargögn. Mynd eða gögn sem verða til við skönnun.



Eftirlit

Við umræður um skimun og kembileit vakti Ásgeir Theodórs, læknir, einnig athygli á að þýðingu vantaði á orðinu surveillance, sem hann vildi fá inn í Íðorðasafn lækna. Þar er eingöngu birt nafnorðið survey sem þýtt er með íslenska orðinu könnun. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs gefur fleiri þýðingarmöguleika: 1. athugun, skoðun, rannsókn, könnun.

2. yfirlit, yfirsýn. 3. formleg könnun. 4. landmælingar. 5. uppdráttur, kort (yfir e-ð); landmælingakort.
Surveillance er hins vegar þýtt sem 1. eftirlit. 2. umsjón, forræði. Ásgeir notar þetta enska heiti um það að fylgjast með sjúkdómseinkennum eða þáttum sem hafa áhrif á tiltekinn sjúkdóm, til dæmis við eftirlit hjá fólki sem hefur ættarsögu um sjúkdóminn. Læknisfræðiorðabók Stedmans birtir langa útskýringu á hugtakinu. Þar kemur meðal annars fram að þær aðgerðir sem einkenna surveillance eru hagnýtar, samræmdar og hraðvirkar, fremur en nákvæmar og altækar. Eftir nokkra umræðu kom okkur Ásgeiri saman um að hlíta forsjá ensk-íslensku orðabókarinnar og leggja til heitið eftirlit um surveillance.



Exposure

Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, hringdi og vildi fá umræðu um orðið exposure. Íðorðasafn lækna gefur upp nokkra þýðingarmöguleika: 1. afhjúpun, opnun. 2. berskjöldun. 3. geislaskammtur. Ekkert af þessu nær þó til þess sem Laufey hefur í huga. Fram kom að hún vildi nota hugtakið exposure á ákveðinn hátt í faraldsfræðilegum texta, til að tengja saman ytri áhrifaþætti sjúkdóma eða sjúkdómsbreytinga og þær afleiðingar sem vænta má af verkun þeirra. Hún tilgreindi íslenska texta þar sem nota mætti orðin áreiti eða áhrif til að koma þessu til skila. Eftir ítarlega umhugsun getur undirritaður þó ekki fallist á að þessi orð tákni nákvæmlega það sem exposure er ætlað að gefa til kynna.

Tvisvar áður hefur verið óskað eftir umfjöllun um exposure í þessum pistlum. Beiðni um tillögur að íslensku heiti var því lögð fram í 135. pistli (Lbl 2001; 87: 667) og aftur í 141. pistli (Lbl 2002; 88: 163) en viðbrögð lesenda hafa ekki borist. Endurtaka má að latneska sögnin exponere hefur margar skráðar merkingar: bera út, setja út, setja fram, setja upp á strönd, skilja eftir óvarinn, yfirgefa, gefa út, sýna, leggja til, útskýra. Í síðari pistlinum var bent á að suma texta mætti þýða þannig að notuð væri íslenska samsetningin að verða fyrir einhverju í viðeigandi myndum í stað nafnorðsins. Vel þekkt er að hin mikla nafnorðanotkun, sem fyrir kemur í ensku, á ekki fulla samsvörun í íslenskunni. Gaman gæti verið að láta reyna á þessa hugmynd með því að fá texta til þýðingar þar sem fyrir kæmi heitið exposure. Í þriðja og síðasta sinn er skorað á lesendur að leggja málinu lið.



Endurlífgun

Hjalti Már Björnsson, umsjónarlæknir neyðarbílsins, sendi tölvupóst með beiðni um skoðun á heitinu resuscitation. Taldi hann að notkun þess væri tekin að færast yfir á það að koma sjúklingi í stöðugt ástand, fyrir utan það að ná yfir tilraunir til lífgunar.

Orðabók Websters greinir frá því að orðið sé latneskt að uppruna og þrísamsett: re-sus-citare. Forskeytið re- merkir til baka, aftur- eða endur-, sus- merkir upp og sögnin citare merkir að hreyfa, vekja eða örva. Bein orðhlutaþýðing leiðir til sagnarinnar að enduruppvekja. Uppflettingar í nokkrum læknisfræðiorðabókum gáfu ekki til kynna að heitið resuscitation væri notað um annað en endurlífgun: "Revival from potential or apparent death." Undirritaður lagðist því eindregið gegn því að merkingin væri "teygð" á þann hátt sem Hjalti tilgreindi.



Stabilize

Hjalti sagði að enska sögnin stabilize væri notuð um það að koma sjúklingi í stöðugt ástand og spurði hvort til væri samsvarandi íslenskt læknisfræðiheiti. Íðorðasafn lækna birtir eingöngu nafnorðið stabilizer, varðveisluefni. Sagnorðið finnst hins vegar í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs: gera stöðugan; festa; stilla; stöðva af; koma í jafnvægi; verða stöðugur. Í læknisfræðiorðabók Dorlands er heitið stabilization útskýrt þannig: myndun stöðugs ástands. Meðan ekki kemur fram ótvíræð snilldarhugmynd er lagt til að þetta nefnist að koma sjúklingi í jafnvægi.



Facilitator

Martha Hjálmarsdóttir, meinatæknir, lagði fram skemmtilegt verkefni. Hún hafði tekið þátt í hópstarfi þar sem einum þátttakenda var falið það sérstaka hlutverk að auðvelda og tryggja samskipti innan hópsins og að greiða hópnum leið að niðurstöðu. Hugtakið er vel þekkt í nútíma stjórnunarfræðum þó ekki sé það alls staðar skilgreint á sama hátt. Facilitator er hvorki ætlað að vera yfirmaður hópsins né sérfræðingur í því máli sem til umræðu er. Honum er ætlað að vaka yfir umræðunni, gæta þess að öll sjónarmið fái að njóta sín og að niðurstaða fáist.

Heitið er dregið af latneska lýsingarorðinu facilis sem merkir auðveldur. Ekki tókst að finna íslenskt heiti í orðabókum né hjá stjórnunarsérfræðingum. Í fyrsta hugarflugi okkar Mörthu komu fram ýmsar villtar hugmyndir: auðveldari, framtogi, hagræðir, leiðgreiðir, liðkari, liðtogi og smyrjari. Því miður eru heitin leiðtogi og leiðbeinandi þegar frátekin og lokaniðurstaðan varð því: leiðbeinir, sá sem beina skal hópnum rétta leið.



Incidentaloma

Í síðasta pistli var minnst á incidentaloma, en það er heiti á fyrirferðaraukningum eða hnútum, sem finnast í vissum líffærum við rannsókn af öðru tilefni. Oftast er um að ræða myndgreiningu, svo sem ómskoðun, segulómskoðun eða tölvusneiðmyndatöku, á nálægu svæði eða líffæri. Kviðarholsrannsókn af þessu tagi getur til dæmis leitt í ljós hnút í nýrnahettu. Heitið incidentaloma er þá þægilegt til að gefa til kynna að ekki var verið að leita að sjúkdómi í nýrnahettunni þegar hnútarnir greindust. Heitið lýsir því hins vegar ekki hvers eðlis meinsemdin er og aðgreinir ekki góðkynja ofvöxt frá krabbameini. Nokkrar tillögur hafa borist og í stafrófsröð eru þær þessar: draugahnútur, handahófshnútur, hendingarhnútur, hittnihnútur og hulduhnútur. Gaman væri að heyra skoðanir annarra og aðrar tillögur.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica