Umræða fréttir

Lyfjamál 112: Sparnaðarmöguleikar í flokki blóðþrýstingslyfja

Nýlega voru birtar niðurstöður úr stærstu rannsókn á blóðþrýstingslyfjum sem gerð hefur verið; svokölluð ALLHAT-rannsókn í Ameríku (JAMA 2002; 288). Þátttakendur voru rúmlega 33.000. Aðal niðurstaða rannsóknarinnar er að ódýr þvagræsilyf eru fyllilega sambærileg að virkni til blóðþrýstingslækkunar og hin nýrri lyf í flokkum kalsíumgangaloka (C08) og ACE-hemla (C09). Ljóst er að menn hafa yfirleitt verið í góðri trú um að nýju lyfin væru eitthvað verulega betri og skýrir það væntanlega hina miklu og vaxandi notkun þeirra. Í ljósi niðurstöðu þessarar rannsóknar verður okkur hugsað til þess að ef hægar hefði verið farið í sakirnar með nýja meðferð hefði sparast umtalsvert fé sem nota hefði mátt til þarfari hluta.

Samanlagt söluverðmæti kalsíumgangaloka og ACE-hemla frá 1983 er tæplega 6 milljarðar króna, reiknað á verðlagi hvers árs. Ef við hefðum nú algjörlega sleppt því að nota þá og haldið okkur við þvagræsilyf í staðinn hefði mátt spara um það bil fimm milljarða króna. Þá er miðað við að dagskammtafjöldi, sem í raun hefur verið notaður á þessu tímabili, væri reiknaður á meðalverði dagskammts þvagræsilyfjanna eins og það hefur verið á hverjum tíma. Jafnvel þó að gert sé ráð fyrir að ekki væri raunhæft að notast alfarið við þvagræsilyf er ljóst að hér eru miklir sparnaðarmöguleikar og mikið fé hefur farið fyrir lítið. Institut for Rationel Farmakoterapi (IRF) í Danmörku kallar þetta "Sparnaðarmöguleika með góðri samvisku".

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica