Umræða fréttir

"Hypnotica" og "sedativa" verði nú þegar gerð afritunarskyld

Hér fer á eftir bréf formanns Læknafélags Íslands frá 1971, Arinbjarnar Kolbeinssonar, til þáverandi landlæknis, Sigurðar Sigurðssonar. Tilefnið er ályktun af fundi Kvenfélagasambands Íslands sem LÍ hefur borist þar sem skorað er á lækna landsins að gæta varúðar við ávísun lyfja sem geta valdið ávana og fíkn.7. sept. 1971

Hr. landlæknir, Sigurður Sigurðsson, Arnarhvoli, R.Læknafélagi Íslands hefur borizt fundarályktun frá Kvenfélagasambandi Íslands, þar sem því er slegið föstu, að þörf sé að áminna lækna um meiri varúð varðandi ávísanir á ávanalyf og fíknilyf. Kvenfélagasambandið skorar á læknastéttina að gæta varúðar í því að gefa lyfseðla fyrir lyfjum, sem flokkast geta undir ávana- og fíknilyf.

Ekki hefur stjórn Læknafélags Íslands áður borizt skrifleg ábending eða kvörtun frá félagasamtökum varðandi gáleysi lækna í ávísun ávanalyfja og hefur eigi í höndum neinar sannanir fyrir því, að slíkt gáleysi viðgangist hér, og ef svo er, hvaða hlut læknar eiga þar að máli. Hins vegar ber þess að geta, að í blaðaskrifum hefur þó þráfaldlega verið haldið fram, að læknar ávísi um of fíkni- og ávanalyfjum, gefið er í skyn í skrifum þessum, að þeir eigi meginsök á notkun fíkniefna hér á landi. Í því sambandi viljum við benda á grein í dagblaðinu Vísi 9. apríl 1970 undir fyrirsögninni "Læknastéttin of laus á ávísun vanalyfja" og grein í Morgunblaðinu 17. apríl 1971, en auk þess hafa allmargar fleiri greinar birzt í blöðum, sem hníga í þá átt, að læknar eigi verulega sök á ofnotkun ávana- og fíknilyfja.

Þessi órökstuddi fréttaflutningur getur óhjákvæmilega haft óheppilegar og alvarlegar afleiðingar, og má í því sambandi nefna, að sjúklingar, sem þarfnast þessara lyfja, verða óeðlilega tortryggnir gagnvart áhrifum og notkun þeirra. Ólöglegur innflutningur og ólögleg sala fíkniefna og fíknilyfja getur þróast í landinu í skjóli þess, að hjá læknum sé að leita orsaka ofnotkunar ávanalyfja og fíkniefna. Órökstuddur fréttaflutningur sem þessi gerir því tvennt í senn, að torvelda eðlilega lækningastarfsemi og auðvelda smygl og ólöglega sölu fíkniefna, ávana- og fíknilyfja í landinu. Þess vegna er nauðsynlegt, að kannað verði til hlítar, hvort um sé að ræða misnotkun eða ofnotkun umræddra lyfja í starfsemi lækna og verði þá beitt lögum um endurritunarheimild í víðtækari mæli en hingað til hefur verið gert.

Fundarsamþykkt Kvenfélagasambandsins fylgir enginn rökstuðningur, og er því eðlilegast að álykta, að hún sé fram komin begna blaðaskrifa og orðróms, sem skapazt hefur, en fundarsamþykktin sýnir skoðanir almennings á þessum efnum og gefur sannarlega tilefni til þess, að málið sé rannsakað og greið svör gefin. Þá er einnig þess að geta, að í fundarsamþykktinni fellst áminnig um varkárni í ávísun deyfilyfja. Nú er ekki vitað, hverjir eða hvort nokkrir yfirleitt þurfi á slíkri áminningu að halda, og af þeim ástæðum er rannsókn óhjákvæmileg.

Með tilliti til þess, sem að framan segir, fer stjórn Læknafélags Íslands þess á leit við heilbrigðisyfirvöld, að "hypnotica" og "sedativa" verði nú þegar gerð afritunarskyld. Gerðar verði skýrslur um ávísanir og notkun þessara lyfja með sama hætti og nú er gert um hin sterkari fíkni- og deyfilyf. Ef svo kynni að fara, að einhvers staðar finnist mistök í sambandi við notkun hypnotica og sedativa, þá er það ósk Læknafélags Íslands, að lögum frá 1968 verði beitt til leiðréttingar slíkra mála, ef slíkt reynist nauðsynlegt.

Afritun þessara lyfja mun eigi gerð í öðrum löndum, og hefur ekki verið talin þörf á henni hér, en auk þess krefst hún allmikillar vinnu og kostar nokkurt fé. Nú er hins vegar brýn þörf á þessari athugun til þess að eyða órökstuddum orðrómi, gera vissa þætti lækningastarfseminnar framkvæmanlega með eðlilegum hætti og beina athygli fólks að hinum raunverulegu orsökum nautnalyfja- og nautnaefnavandamáls í nútímaþjóðfélagi.

Við viljum benda á, að ef tekin er upp nútímatækni við afritun lyfseðla, verður vinna vart tilfinnanlega mikil. Þar sem um svo mikið velferðarmál er að tefla, ætti ekki að horfa í kostnað, sem eðlilegt er, að greiddur verði úr ríkissjóði. Við væntum þess, að heilbrigðisyfirvöld sjái sér fært að hefja athugun þessa hið fyrsta.Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Læknafélags ÍslandsGuðmundur Jóhannesson Arinbjörn Kolbeinsson

gjaldkeri formaður

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica