Umræða fréttir
Ekkert er nýtt undir sólinni
Úr grein Óskars Þ. Þórðarsonar: Reglur um lyfjagreiðslur sjúkrasamlaga. Læknablaðið 1951; 35: 26-31. Höfundur fjallar um reglur sem Tryggingastofnun ríkisins hefur nýverið gefið út. Hann lýkur grein sinni með eftirfarandi:
Tilgangurinn með þessum nýju reglum er fyrst og fremst sá, að draga úr lyfjakostnaði sjúkrasamlaganna, en hann hefir stóraukizt á undanförnum árum. Ber margt til þess, verðhækkun á hráefnum til lyfjagerðar, ný þýðingarmikil lyf, en dýr, og svo lyfjanotkunin, sem sjúkrasamlögin hafa stöðugt amazt við, bæði hér á landi og annars staðar. Lyfjanotkunin er viðkvæmt mál, einkum þegar á það er litið frá sjónarmiði lækna og sjúklinga. Allir starfandi læknar þekkja lyfjahungur fólksins og vita hverjar afleiðingar það hefir fyrir þeirra veraldlegu velferð ef þeir taka upp á því að gefa góð ráð í stað lyfja, þegar þeirra er ekki brýn þörf. Eins og oft hefir verið minnzt á áður, einkum rétt fyrir kosningar, þá búum við Íslendingar við svo léleg sjúkrahússkilyrði, að okkur er til mikillar vansæmdar. Allur sá fjöldi, sem fær ónóga læknisþjónustu vegna sjúkrahússkortsins, leitar til heimilislæknanna í von um að fá hjálp. Er þá skiljanlegt, að læknirinn freistist til þess að skrifa eitt vitaminreceptið í viðbót - ut aliqui fiat. Þó margt megi um lyfjanotkunina segja, þá er það íslenzkum læknum til lofs, að hún er sízt meiri hér á landi en hjá nágrannaþjóðum okkar, sem hafa samskonar heilbrigðislöggjöf og við, en stórum betri sjúkrahúskost. En þrátt fyrir þetta, þá hygg ég að læknar hefðu gott af því að hugleiða, hvort ekki sé hægt að komast af með bæði færri og ódýrari lyf, án þess að meginregla læknisstarfsins sé með því brotin, en hún er: Velferð sjúklinganna er öllu æðri.
Tilgangurinn með þessum nýju reglum er fyrst og fremst sá, að draga úr lyfjakostnaði sjúkrasamlaganna, en hann hefir stóraukizt á undanförnum árum. Ber margt til þess, verðhækkun á hráefnum til lyfjagerðar, ný þýðingarmikil lyf, en dýr, og svo lyfjanotkunin, sem sjúkrasamlögin hafa stöðugt amazt við, bæði hér á landi og annars staðar. Lyfjanotkunin er viðkvæmt mál, einkum þegar á það er litið frá sjónarmiði lækna og sjúklinga. Allir starfandi læknar þekkja lyfjahungur fólksins og vita hverjar afleiðingar það hefir fyrir þeirra veraldlegu velferð ef þeir taka upp á því að gefa góð ráð í stað lyfja, þegar þeirra er ekki brýn þörf. Eins og oft hefir verið minnzt á áður, einkum rétt fyrir kosningar, þá búum við Íslendingar við svo léleg sjúkrahússkilyrði, að okkur er til mikillar vansæmdar. Allur sá fjöldi, sem fær ónóga læknisþjónustu vegna sjúkrahússkortsins, leitar til heimilislæknanna í von um að fá hjálp. Er þá skiljanlegt, að læknirinn freistist til þess að skrifa eitt vitaminreceptið í viðbót - ut aliqui fiat. Þó margt megi um lyfjanotkunina segja, þá er það íslenzkum læknum til lofs, að hún er sízt meiri hér á landi en hjá nágrannaþjóðum okkar, sem hafa samskonar heilbrigðislöggjöf og við, en stórum betri sjúkrahúskost. En þrátt fyrir þetta, þá hygg ég að læknar hefðu gott af því að hugleiða, hvort ekki sé hægt að komast af með bæði færri og ódýrari lyf, án þess að meginregla læknisstarfsins sé með því brotin, en hún er: Velferð sjúklinganna er öllu æðri.