Umræða fréttir
  • Drífa Snædal

Læknar og greining heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi er þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar. Sá sem beitir heimilisofbeldi getur verið maki, fyrrverandi maki, foreldri, barn eða aðrir tengdir fórnarlambinu fjölskylduböndum. Oftast er um að ræða karlmann sem beitir konu ofbeldi í krafti líkamlegra yfirburða og verður hér fjallað um einkenni þessa og hvað læknar geti gert ef grunur kviknar um slíkt ofbeldi.



Birtingarmyndir og umfang

Heimilisofbeldi getur birst í andlegri kúgun, einangrun, efnahagslegri stjórnun, hótunum og niðurlægingu. Líkamlegt ofbeldi er sú birtingarmynd sem er greinilegust en andlegt ofbeldi er erfiðast að merkja og jafnframt að vinna úr. Kynferðisleg misnotkun, svo sem nauðganir eða kynferðisleg niðurlæging, er einnig mjög oft hluti af heimilisofbeldi.

Í skýrslu sem unnin var að beiðni dómsmálaráðherra árið 1996 kemur fram að 14% íslenskra kvenna hafa verið beittar ofbeldi af núverandi eða fyrrverandi maka og 7% verið beittar mjög grófu ofbeldi. Þar kemur einnig fram að tæp 9% af öllum ofbeldisáverkum skráðum það ár á slysavarðstofu voru af völdum einhvers fjölskyldumeðlims en konur voru þar í miklum meirihluta. Það ber að hafa í huga að þetta er samkvæmt frásögn kvennanna og gæti því verið vanmetið.

Þar sem einangrun er ein tegund heimilisofbeldis er opinber þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónustan, oft einn af fáum snertiflötum fórnarlambs við umheiminn. Það er því mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk þekki einkenni heimilisofbeldis og viðeigandi viðbrögð. Sömuleiðis að greina það sem fyrst því annars getur það þrengt verulega möguleika konunnar á raunhæfri aðstoð. Ef konan er meðhöndluð sem sjúklingur er hætta á að hún fari sjálf að líta á sig sem slíkan og að rót vandans liggi í sjúkdómum hennar en ekki því að hún búi við ofbeldi. Þar með er heilbrigðisstarfsfólk farið að styrkja þau skilaboð sem ofbeldismaðurinn sendir henni, það er að hún sé ekki "í lagi" og þurfi að "læknast".



Einkenni heimilisofbeldis

Konur sem búa við heimilisofbeldi sækja marktækt meira til lækna vegna minni háttar veikinda og vandamála tengdu kynlífi en aðrar konur. Einnig leita konur í ofbeldissamböndum meira til lækna vegna barna sinna en gengur og gerist. Líkamleg einkenni konu í ofbeldissambandi geta verið:



o Höfuðverkur o Ýmis stoðkerfaeinkenni

o Svefntruflanir o Meltingaróþægindi

o Þreyta o Átröskun

o Almennt slen o Brjóstverkir



Tíðar sýkingar í þvag- eða kynfærum geta einnig verið merki um kynferðislega misnotkun.

Andleg einkenni birtast oft í:



o Þunglyndi o Kynlífsvandamálum

o Kvíða o Áráttuþráhyggjuhegðun

o Ótta o Áfengis- og lyfjamisnotkun

o Spennu o Sjáfsvígstilraunum



Oft er lítið samræmi milli lýsingar á líðan annars vegar og líkamlegs ástands hins vegar. Vegna þeirrar einangrunar sem oft er samfara heimilisofbeldi getur liðið einhver tími milli þess sem kona verður fyrir líkamlegu ofbeldi og hún leitar sér læknisaðstoðar. Ef ofangreind einkenni eiga við er fullt tilefni til að spyrja konu út í ástand á heimili.



Spurningar lækna

Þegar saga sjúklings er skráð og grunur leikur á ofbeldi ber að hafa nokkur atriði í huga. Ofbeldismaðurinn fylgir oft fórnarlambinu í læknisheimsóknir og heimtar jafnvel að svara spurningum heilbrigðisstarfsfólks fyrir sjúklinginn. Ef slíkt er uppi á teningnum er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að ræða einslega við sjúkling. Það ber einnig að hafa í huga að ef nauðsynlegt reynist að túlka samtalið þá sé túlkurinn ekki í fjölskyldutengslum við sjúklinginn. Einnig skal sjúklingur upplýstur um trúnaðarsamband við lækni og hvaða takmörkunum það er háð, þegar til dæmis grunur leikur á að börn búi við óviðunandi aðstæður.

Til að greina hvort um heimilisofbeldi er að ræða er lagt til að læknar spyrji eftirfarandi spurninga við grun um ofbeldi:

o Hefur þér verið ýtt, hrint, þú slegin eða meidd með öðrum hætti síðastliðið ár. Ef svo er, hver gerði það?

o Finnst þér þú vera örugg í hjónabandi þínu (ástarsambandi)?

o Finnur þú til óöryggis gagnvart fyrrum maka?

o Ertu hingað komin vegna áverka af völdum maka? Ertu hingað komin vegna veikinda eða streitu sem má rekja til hótana, ofbeldis, eða ótta við maka?

Þegar staðfest hefur verið að um heimilisofbeldi er að ræða, og það skráð í sjúkraskýrslu, þarf að koma réttum skilaboðum á framfæri til sjúklings. Í fyrsta lagi að einkennin séu mjög eðlileg miðað við aðstæður og að heimilisofbeldið sé aldrei réttlætanlegt. Í öðru lagi að hún sé ekki ein, fjöldi úrræða sé til fyrir konur í þessum aðstæðum.



Úrræði

Stundum þarf mikið að ganga á þar til konur eru tilbúnar til að brjótast út úr ofbeldissambandi, en með réttri greiningu og skilaboðum til kvenna í þessari stöðu aukast líkurnar á að þær grípi til viðeigandi ráðstafana. Best er að fylgja þeirri reglu að konan sé sérfræðingur í sínum málum og hún ráði ferðinni. Það er því ágætt að spyrja hana hvers konar hjálp hún vilji fá. Hvort hún sé tilbúin til að breyta sínum högum og hvaða spor hún vilji taka í þá átt.

Kvennaathvarfið hefur sérhæft sig í að aðstoða konur sem búa við heimilisofbeldi. Þjónustan er þríþætt: Í fyrsta lagi rekstur athvarfs fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg. Í öðru lagi símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561 1205. Í þriðja lagi ókeypis viðtöl, þar sem konur geta komið og fengið stuðning og upplýsingar án þess að til dvalar komi. Það er nauðsynlegt að benda konum sem búa við heimilisofbeldi á þetta, en frekari upplýsingar um heimilisofbeldi, einkenni og úrræði má nálgast hjá kvennaathvarf.is

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica