Umræða fréttir

Íðorð 160. Hjartaöng

Árni Kristinsson hafði samband við undirritaðan eftir umræðuna um hvikula og óhvikula hjartaöng í 158. pistli (Læknablaðið 2003; 89: 627). Hann getur ekki sætt sig við að stable angina pectoris verði nefnd óhvikul hjartaöng, enda heitið ekki lýsandi um það sem að baki býr. Stable angina pectoris er þannig lýst: hjartaöng sem birtist í fyrirsjáanlegum köstum, hvað varðar tíðni og tímalengd, og eru framkölluð af þáttum sem auka súrefnisþörf hjartavöðva, svo sem áreynslu, streitu og æsingi. Árni sagðist hafa hugleitt málið vandlega enn einu sinni og komist að þeirri niðurstöðu að nota annað hvort heitanna áreynslubundin hjartaöng eða áreynsluhjartaöng. Við þetta er ekki miklu að bæta.



Í jafnvægi

Árni sagðist einnig hafa verið að fást við heiti til að lýsa ástandi sjúklinga, til dæmis á gjörgæslu, sem hafa svarað fyrstu meðferð og eru orðnir það sem á slangurmálinu nefnist "stabílir". Undirritaður svaraði að bragði að þeir væru þá komnir í jafnvægi. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs birtir ýmsar þýðingar á lýsingarorðinu stable: 1. stöðugur, í jafnvægi. 2. öruggur, traustur. 3. staðfastur, einbeittur. 4. varanlegur. 5. (í efnafræði) stöðugur, þolinn, óhvarfgjarn. 6. (í eðlisfræði) stöðugur. Engin af þeim virðist eiga betur við.



Bjargráður

Framangreind umræða fór fram við hringborðið í matsal Landspítala við Hringbraut og fleiri hjartalæknar voru nærri. Tveir vildu koma efni í íðorðapistilinn. Gizur Gottskálksson vakti athygli á heiti sem Sigurður V. Sigurjónsson, röntgenlæknir, hafði varpað fram til að nota um implantable defibrillator. Íðorðasafn lækna geymir eitt heiti sem nota má um defibrillator, hjartastillir en Sigurður er maður tilþrifa og vill nefna hið ísetta tæki bjargráð. Þetta er skemmtileg hliðstæða við heitið gangráður. Ragnar Daníelsen vakti svo athygli á íslensku heitunum kransæðaómun, sem væntanlega er þýðing á coronary ultrasonography, og ómróf, sem nota má um Doppler spectrum. Ragnar getur einnig verið maður mikilla tilþrifa og sagðist nefna það áhlaupsvíkkun kransæða þegar á enskri tungu væri talað um ad hoc coronary dilatation.



Næturógnir

Katrín Davíðsdóttir, barnalæknir, óskaði eftir umfjöllun um night terror eða night terrors. Undirritaður safnaði einföldum upplýsingum. Um er að ræða svefnröskun, sem einkum kemur fram hjá börnum innan 10 ára aldurs. Börnin rjúka upp, um það bil 90 mínútum eftir að þau sofna, og sýna augljós merki mikillar hræðslu, geta hrópað upp, talað óskiljanlega og verið sveitt og með hraðan hjartslátt. Þau eru oftast með opin augu, en fjarræn og mjög hrædd. Þetta ástand getur varað 10-15 mínútur og börnin muna ekki tilefni hræðslunnar þegar þau loksins vakna.

Pétur Lúðvígsson, barnalæknir, upplýsti að þessi vel skilgreinda svefnröskun kæmi fyrir í bliksvefni (e: rapid eye movement sleep). Martröð (nightmare) ætti sér hins vegar stað í augnkyrrðarsvefni (non- rapid eye movement sleep) og þá muna börnin oftast draumfarirnar eða tilefni hræðslunnar.

Hið latneska heiti night terror er pavor nocturnus sem Íðorðasafn lækna þýðir sem næturótti, andfælur. Nafnorðið pavor var notað um ótta, hræðslu eða skelfingu, sem var svo mikil að menn nötruðu og skulfu. Terror er einnig býsna sterkt heiti. Orðabók Websters gefur meðal annars skýringuna: áköf, sterk og yfirbugandi hræðsla, og Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs birtir þýðingarnar: ógn, ótti, skelfing, mikil hræðsla. Undirrituðum finnst því að íslenska heitið verði einnig að vera sterkt og leggur til heitin næturógn, night terror, og næturógnir, night terrors. Heitin svefnógn og svefnógnir geta einnig komið til greina. Gaman væri að fá viðbrögð við þessu.



Viðbrögð

Í síðasta pistli voru birt 15 erlend fræðiheiti sem komið hafa til umræðu í fyrri pistlum, en ekki fengið fulla úrlausn. Lesendur voru hvattir til að láta frá sér heyra og að koma með tillögur. Þorkell Jóhannesson, prófessor emeritus, brást fljótt við, eins og hans var von og vísa, og sendi tölvupóst með nokkrum hugleiðingum.



Exposure

Þorkell benti réttilega á að þetta enska nafnorð hefði fjölda merkinga og taldi ekki ómaksins virði að leita að einu jafngildu orði á íslensku. Hann sagði vænlegra að nota fleiri en eitt nafnorð í stað exposure, eftir því sem best færi í texta hverju sinni. Þorkell setti svo fram aðra upprunaskýringu en undirritaður. Hann taldi að orðið væri dregið af latnesku sögninni pausare, sem merkir meðal annars að hvílast, liggja niðri. Samkvæmt Íðorðasafni lækna merkir ex- a) út, burt, frá, b) án, sviptur, -laus. Þorkell sagði sögnina expausare segja frá hreyfingu, athöfn eða hugsun úr hvíld eða "pásu". Úr þessu þarf að vinna nánar til að finna eitt eða fleiri viðeigandi og jafngild nafnorð.

Ítrekað skal það sem sagt var í 153. pistli: Gaman gæti verið að láta reyna á þessa hugmynd með því að fá texta til þýðingar þar sem fyrir kemur heitið exposure.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica