Umræða fréttir

Frétt frá Landlæknisembættinu

Bókin um bakið er komin út hjá Landlæknisembættinu. Hópur breskra sérfræðinga sem hefur einbeitt sér að meðferð bakverkja samdi bókina og stuðst er við nýjustu rannsóknir. Bókin kom fyrst út í Bretlandi 1996 í tengslum við gerð klínískra leiðbeininga um bakvandamál og meðferð þeirra. Önnur útgáfa, aukin og endurbætt, kom út á síðastliðnu ári og er íslenska útgáfan þýðing hennar. Á vefsetri Landlæknisembættisins komu út klínískar leiðbeiningar um bráða bakverki í árslok 2002 og var þar stuðst við bresku leiðbeiningarnar. Í framhaldi af því var ákveðið að þýða Bókina um bakið. Magnús Ólason, yfirlæknir á Reykjalundi, þýddi bókina en hann stýrði vinnuhópi um gerð klínísku leiðbeininganna.

Bókin geymir ráðleggingar um hvernig best er að bregðast við og hafa stjórn á bakverkjum, hvernig hægt er að ná sér tiltölulega fljótt og halda sér gangandi með því að hreyfa sig eftir getu og reyna að lifa eðlilegu lífi þrátt fyrir verki.

Bakverkir eru mjög algengir og valda mikilli vanlíðan þótt alvarleg bakvandamál séu í raun sjaldgæf. Það er því mikil þörf fyrir gagnlegar upplýsingar fyrir fólk sem þjáist af bakverkjum. Markmið með útgáfunni er að læknar og aðrir meðferðaraðilar, s.s. sjúkraþjálfarar og kírópraktorar, gefi sjúklingum sínum Bókina um bakið til að hjálpa þeim að ráða við bakverki strax á bráðastiginu. Einnig verður bókinni dreift hjá heilsugæslunni.

Í júlí sl. var Bókin um bakið gefin út á vefsetri Landlæknisembættisins en með rausnarlegum styrk frá SPRON reyndist unnt að gefa bókina einnig út á prenti. Hún er prentuð í Prentsmiðjunni Odda sem einnig annast dreifingu.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica