Umræða fréttir

Nesstofa og landlæknar fyrri tíma

Höfundurinn er meinatæknir og sagnfræðingur.Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Þjóðminjasafnið fyrir hönd Nesstofusafnsins bjóða í sameiningu fram styrk til háskólanema sem vilja skrifa námsritgerð um efni tengt sögu heilbrigðismála á Íslandi. Styrkurinn er kenndur við prófessor Jón Steffensen til að minnast framlags hans til safnsins og rannsókna í sögu læknisfræðinnar. Styrkur Jóns Steffensen var veittur í fyrsta sinn 12. febrúar 2002 og skipt milli tveggja umsækjenda. Annar styrkþeginn, Kolbrún S. Ingólfsdóttir nefndi ritgerð sína: Nesstofa. 70 ár í heilbrigðissögu Íslands 1763-1833. Kolbrún kynnti efnið á fræðslufundi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar sem haldinn var 30. apríl 2003 þar sem hún rakti sögu Nesstofu sem menningar- og menntaseturs í 70 ár. Á eftir fyrirlestri Kolbrúnar fræddi Heimir Þorleifsson sagnfræðingur fundarmenn um sögu Seltjarnarness. Hér á eftir fer útdráttur úr fyrirlestri Kolbrúnar sem hún hefur tekið saman fyrir lesendur Læknablaðsins.

Nesstofa var byggð á árunum 1761 til 1763 eftir teikningum Jacobs Fortling hirðhúsameistara og var grágrýtið í hana fengið úr fálkahúsi konungs á Valhúsahæð. Á jarðhæð var apótek og húsakynni landlæknisembættisins en í risi voru íbúðarherbergi og yfir því var hanabjálkaloft. Bjarni Pálsson (1719-1779), okkar fyrsti landlæknir, settist að í Nesi með fjölskyldu sína árið 1763 og bjó þar til dauðadags. Frá árinu 1772 skiptu landlæknir og apótekari með sér ábúðarréttindum í Nesi. Á Íslandi var engin læknisþjónusta fyrir árið 1760 en hér voru alþýðulæknar, ólærðar yfirsetukonur og stundum erlendir bartskerar á ferð. Hér var engin lyfjabúð en grasalækningar algengar. Miklar sveiflur voru í ungbarnadauða og íbúafjöldi gekk í bylgjum og stóð nánast í stað eftir hvert hallærið af öðru. Fyrsti landlæknirinn átti að sjá um menntun læknaefna og útskrifa þá sem fjórðungslækna, uppfræða ljósmæður, vera lyfsali, sjá um sóttvarnir og annast heilsugæslu allra landsmanna. Þetta var mikið verkefni fyrir einn mann í strjálbýlu landi sem var erfitt yfirferðar með óbrúaðar ár og enga vegi. Á 18. öld byggðist læknisfræði á lyfjafræði, blóðtökum og koppsetningu. Læknar sem útskrifuðust úr háskóla stunduðu lyflækningar og bartskerar, sem voru rakarar, stunduðu skurðlækningar eða handlækningar. Í Danmörku sameinuðust þessar tvær stéttir innan læknadeildar Hafnarháskóla árið 1842. Konungur hafði einn manna vald til að koma á fót læknisembættum og skipuleggja menntun lækna. Þetta var því einokun á starfsleyfum til lækna og á menntun læknisefna. Uppbygging heilbrigðisþjónustu á Íslandi á átjándu öld var undir áhrifum frá upplýsingastefnunni sem var hugmyndastefna um að efla hag þjóða með þjóðfélagslegum breytingum.

Nesstofa var læknasetur og þar fór fram menntun lækna og kennsla ljósmæðra hjá Bjarna Pálssyni landlækni og eftirmönnum hans. Á þessum sjötíu árum urðu læknanemar í Nesi alls 22. Af þeim urðu tíu læknar á Íslandi að prófi loknu þaðan eða frá Kaupmannahöfn. Síðasti nemandinn í Nesi var dr. Jón Hjaltalín (1807-1884), síðar landlæknir.

Skipaðir landlæknar voru allir með fullgilt embættispróf (examen medicum) frá Hafnarháskóla en einnig voru settir landlæknar með önnur próf. Skipaðir landlæknar í Nesi voru Bjarni Pálsson 1760-1779, Jón Sveinsson 1780-1803, Thomas Klog 1803-1815 og Jón Thorstensen 1820-1855. Settir landlæknar voru Jón Einarsson 1779-1780, útskrifaður frá Nesi, Sveinn Pálsson 1803-1804, náttúrufræðingur frá Hafnarháskóla, og Oddur Hjaltalín 1816-1820 sem nam við Hina konunglegu kírúrgísku akademíu í Höfn. Landlæknisembættið var flutt til Reykjavíkur árið 1833.

Á árunum 1766-1799 voru stofnuð alls fimm læknisembætti á Íslandi í viðbót við embætti landlæknis. Vestmannaeyjar urðu sérstakt læknishérað árið 1828 og Húnvetningar fengu sér sinn eigin lækni árið 1837. Þessi skipan hélst til ársins 1876 þegar Læknaskólinn var stofnaður í Reykjavík. Læknishéruðin urðu þá alls tuttugu. Brautryðjendastarfið að Nesi skilaði sér síðar í aukinni kennslu fyrir lækna og ljósmæður með stofnun Læknaskóla árið 1862 á vegum dr. Jóns Hjaltalíns landlæknis og stofnun sjúkrahúss í Reykjavík árið 1866.

Apótekarar í Nesi ráku lyfjabúð í Nesstofu og kenndu þeir jafnframt lyfjafræðinemum sem urðu þó að taka lokapróf sitt í Kaupmannahöfn að loknu námi sem lyfjasveinar (candidatus pharmaciae). Fyrsti lærði lyfjafræðingurinn var Björn Jónsson (1738-1798) lyfsali. Nesapótek eða landlæknisapótekið varð síðan að Reykjavíkurapóteki árið 1834 og var það lagt niður þann 1. apríl 1999. Þetta elsta apótek á Íslandi hafði því verið á tveimur stöðum í 236 ár þegar því var lokað. Akureyrarapótek starfaði frá 1819 til 1823 og svo á ný eftir 1836 og lyfjabúð var sett á stofn í Stykkishólmi árið 1835. Uppbygging lyfjafræðináms á Íslandi og fjölgun apóteka gekk því hægt fyrir sig.

Ljósmæður eru elsta embættisstétt kvenna á Íslandi. Uppfræðsla þeirrar tók oftast ekki nema fjórar vikur. Bjarni Pálsson réði fyrstu lærðu ljósmóðurina til landsins árið 1761. Hún hét Margrethe Katarine Magnússen og var dönsk. Hún annaðist verklega kennslu ljósmæðra til 1803. Kennslufyrirkomulag ljósmæðra hélst nær óbreytt næstu 100 árin. Á árunum 1761 til 1833 útskrifuðu landlæknar 40 ljósmæður og aðrir læknar 14 og fóru þær oftast til starfa í heimabyggð sinni.

Í Nesstofu var heilbrigðisþjónustan á Íslandi mótuð á árunum 1763-1833 eftir tilskipunum frá Danmörku sem átti sér rætur í breyttri stjórnsýslu þar. Kennslan var nær eingöngu fræðileg þar sem ekkert sjúkrahús var í landinu nema sjúkraskýli í Nesi og holdsveikraspítalarnir fjórir. Það má spyrja sig hvort Nesstofa hafi verið fyrsti fagskólinn á Íslandi með menntun læknanema og útskrift þeirra, forkennslu í lyfjafræði og kennslu ljósmæðra. Háskóli Íslands útskrifar núna nemendur í öllum þessum greinum innan heilbrigðisþjónustunnar. Hin skipulagða uppbygging heilbrigðisþjónustu á Íslandi á árunum 1760 til 1833 átti sér rætur í skólastarfinu í Nesi og hjá Bjarna Pálssyni. Uppbygging læknakennslu og uppfræðsla ljósmæðra að Nesi við Seltjörn ruddi brautina fyrir aukna heilbrigðisþjónustu á Íslandi á síðari helmingi nítjándu aldar.

Núna er Lækningaminjasafn Þjóðminjasafns Íslands til húsa í Nesstofu og má það þakka áhuga Jóns Steffensen læknis (1905-1991) við að halda til haga sögu læknisfræðinnar og heilbrigðisþjónustu Íslendinga með söfnun lækningatækja frá fyrri tímum.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica