Umræða fréttir
Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Stöndum við sameinaðir eða föllum við sundraðir?
Í núgildandi lögum Læknafélags Íslands segir í 2. grein að tilgangur félagsins sé að efla hag og sóma hinnar íslenzku læknastéttar og auka kynni og stéttarþroska félagsmanna, stuðla að aukinni menntun lækna og glæða áhuga þeirra á því er að starfi þeirra lýtur, efla samvinnu lækna um allt sem horfir til framfara í heilbrigðismálum og beita sér fyrir bættu heilsufari landsmanna. Um þessi markmið ætti ekki vera ágreiningur meðal lækna á Íslandi.Í VII kafla laganna segir svo í 16. grein um kjarasamninga: "LÍ sér um gerð kjarasamninga lækna í samráði við svæðafélög og önnur félög lækna, eftir því sem við á hverju sinni. Þeir einir greiða atkvæði um kjarasamning, sem taka laun eftir honum."
Í samræmi við þetta verkefni LÍ og langa hefð gerði samninganefnd félagsins samning um kjör sjúkrahúslækna við fjármálaráðherra sem undirritaður var 2. maí síðastliðinn. Þá þegar var ljóst að djúpstæður ágreiningur var meðal lækna um þennan samning og það svo að fulltrúi Félags ungra lækna undirritaði ekki samninginn og sagði sig úr samninganefnd LÍ í mótmælaskyni. Stjórn FUL hvatti síðan félagsmenn þess til að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn. Þá hvatti stjórn Skurðlæknafélags Íslands sína menn til að greiða atkvæði gegn samningnum. Greidd voru atkvæði um kjarasamninginn hinn 16. maí og tóku einungis 57,8% atkvæðisbærra félaga þátt í henni. Fylgjandi voru 61,1%, andvígir 37,6%.
Eftirmálar samnings þessa eru læknum kunnir. Félag ungra lækna hefur sagt skilið við Læknafélag Íslands. Ungir læknar hafa verið tregir til að ráða sig til starfa samkvæmt hinum nýja kjarasamningi, sem þeir telja sig raunar óbundna af, og hafa óskað eftir því að semja sjálfir um eigin kjör. Stjórnvöld halda fast við að bindandi samningur sé í gildi enda sé LÍ hinn rétti samningsaðili.
Þá hafa sjúkrahúsyfirvöld treyst á það að læknar með sérfræðimenntun gangi í störf unglækna þar sem þeim sé ekki stætt á öðru vegna skyldu lækna við sjúklinga og vinnuveitendur. Þannig hefur Landspítali búið við óviðunandi ástand nú yfir sumar(frís)mánuðina. Sjúkrahúslæknar, sem hafa verið við störf hafa lagt á sig mikla aukavinnu, sumir við að ganga í störf yngri kollega sem eru í réttindabaráttu. Lítið hefur frétzt af því að unnið sé að lausn mála nú þegar haustar og læknanemar, sem sinnt hafa unglæknastöðum á sjúkrahúsum, setjast aftur á skólabekk. Ekki má dragast lengur að stjórnvöld og stjórnendur spítala leysi málin. Því miður getur Læknafélag Íslands lítið komið þar að þar sem FUL hefur sagt sig úr lögum við LÍ.
Að mínu áliti er það mikið óheillaspor að yngstu læknarnir skuli ekki lengur eiga aðild að Læknafélagi Íslands. Ef til vill er unnt að skilja sárindi þeirra yfir fyrrgreindum kjarasamningi sem margir eldri læknar eru einnig óhressir með. Ég tel að ungir læknar geti mun betur beitt sér fyrir umbótum á starfsaðstöðu og kjörum innan LÍ en utan þess. Ósennilegt er að FUL geti, hreinlega vegna eðlis félagsins og hins hraða gegnumflæðis félagsmanna, orðið nægilega sterkur bakhjarl fyrir unga lækna í baráttu þeirra við að ná fram markmiðum sínum. Reyndar hef ég saknað virkari þátttöku ungra lækna í félagsstarfi LÍ á undanförnum árum, stundum hefur mér virzt að unglæknar væru feimnir við að láta til sín taka á vettvangi LÍ.
Enginn vafi er á því að brotthvarf FUL úr LÍ veikir heildarsamtök lækna á Íslandi og gerir þeim erfiðara um vik að standa við þau fyrirheit sem greint var frá í upphafi þessa pistils. Þannig eru bæði LÍ og FUL veikari eftir en áður.
Títtnefndur kjarasamningur sjúkrahúslækna er að mínu mati einnig meingallaður frá sjónarhóli sjúkrahúsanna. Nú er sjúkrahúslæknum sem jafnframt sinna sjúklingum á læknastofum gert að minnka starfshlutfall sitt á sjúkrahúsum um 20% þannig að læknir sem til þessa hefur verið í fullu starfi við sjúkrahús og haft samningsbundinn rétt til stofuvinnu er framvegis skráður í 80% starfshlutfall. Við það styttist vinnuvika hans á sjúkrahúsinu úr fimm virkum dögum í fjóra, sem mun kalla á aukna yfirvinnu eða fjölgun lækna við sjúkrahúsin ef halda á uppi óskertri þjónustu. Fjölgun starfa er kostnaðarsöm, og er í litlu samræmi við stefnu um aukið aðhald og bann við nýráðningum sem verið hefur í gildi.
Gerð kjarasamninga fyrir sjúkrahúslækna er flókið verk, vanþakklátt og umdeilt eins og tvennir síðustu kjarasamningar bera með sér. Nú er í gildi samningur, sem einungis 35,3% atkvæðisbærra lækna samþykkti. Ekki verður hjá því komizt að leita nýrra leiða við að semja um kjör lækna. Störfin eru það ólík orðin, tækifærum til vinnu annars staðar fer fjölgandi svo sem við sjálfstæðan stofurekstur, störf hjá líftæknifyrirtækjum, tryggingafélögum, kennslu og ýmiskonar ráðgjöf auk starfa erlendis um lengri eða skemmri tíma.
Sjúkrahúslæknum er mismunað í launum eftir því hvers konar störfum þeir sinna auk læknisstarfa á sjúkrahúsunum. Launakerfi eins og það sem nú er unnið eftir er að mínu mati óhagkvæmt fyrir sjúkrahúsin á sama hátt og ég tel það vera óhagkvæmt fyrir heilsugæzluna, það felur í sér misrétti milli sérgreina og einstakra lækna og það sundrar læknastéttinni eins og dæmin sanna.
Sem kunnugt er hefur Skurðlæknafélag Íslands unnið að því undanfarna mánuði að ná til sín samningsrétti fyrir skurðlækna á sjúkrahúsum, þar sem þeir telja að samninganefnd LÍ geti ekki barizt fyrir hagsmunum skurðlækna en þurfi stöðugt að leita málamiðlana milli hagsmuna hinna ýmsu sérgreina. Vitna þeir til betri árangurs í samningum við Tryggingastofnun ríkisins fyrir læknisverk utan spítala, þar sem meira tillit er tekið til mismunandi sjónarmiða sérgreinafélaganna enda koma þau sjálf að þeim samningum.
Af framansögðu má vera ljóst að ræða þarf endurskipulagningu læknasamtakanna á aðalfundi LÍ í næsta mánuði, ekki sízt gerð kjarasamninga. Þá er nauðsynlegt að breyta lögum félagsins vegna brotthvarfs Félags ungra lækna ef ekki tekst að finna unglæknum leið inn í LÍ fyrir aðalfund.
Sjálfstæður stofurekstur lækna er þjóðhagslega hagkvæmur. Þar eru leyst af hendi læknisverk sem ekki krefjast innlagna á sjúkrahús, iðulega verk sem ekki er aðstaða fyrir á sjúkrahúsum þar sem tekist er á við viðameiri læknisverk og stærri aðgerðir. Á stofunum nýtist sérþekking margra lækna sem einnig starfa á sjúkrahúsum. Þar með styttast biðlistar eftir skurðaðgerðum og aukið svigrúm skapast á sjúkrahúsunum til þeirra verkefna, sem einungis verður sinnt þar.
Samvinna og eðlileg verkaskipting milli sjúkrahúsanna og læknastofa er nauðsynleg og þarf að ná til allra þátta starfseminnar, þjónustu við sjúklinga, kennslu heilbrigðisstétta og vísindastarfa. Ekkert er rangt við að hvetjandi áhrif fræðilegrar og rekstrarlegrar samkeppni fái að njóta sín, þiggjendum, veitendum og greiðendum þjónustunnar til hagsbóta.
Nauðsynlegt er að hið stóra nýstofnaða háskólasjúkrahús, með heilbrigðisyfirvöld að bakhjarli, fari gætilega með yfirburðaaðstöðu sína í heilbrigðiskerfinu og leiti leiða í samvinnu við aðra þætti þess til að tryggja landsmönnum áfram góða og hagkvæma heilbrigðisþjónustu. Þar munu þau geta treyst á stuðning og samvinnu við samtök lækna.