Umræða fréttir

Hver má segja hvað við hvern um hvað? Deilur innan yfirstjórnar Landspítala snerta tjáningarfrelsi starfsmannaYfirlýsing stjórnar Læknafélags Íslands vegna frétta af barna- og unglingageðdeild Landspí

YfirlÝsing sú sem stjórn Læknafélags Íslands sendi frá sér í byrjun júnímánaðar og birtist hér að neðan á sér nokkra forsögu. Hún er á þá leið að í lok maí rann út þjónustusamningur Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) við Barnaverndarstofu og SÁÁ sem verið hafði í gildi í tvö ár en endurnýjun samningsins hefur enn ekki tekist. Sama dag og hann rann út var boðað til fundar af sviðsstjórum geðsviðs með yfirlækni og hjúkrunardeildarstjóra til að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir í ljósi þessarar stöðu, ráðstafanir sem beindust að fækkun og tilfærslu starfsfólks BUGL og þar með samdrátt í þjónustu.

Um þetta varð nokkur fjölmiðlaumræða sem lyktaði með því að ráðherra heilbrigðismála kvað upp úr með það að þjónusta BUGL yrði ekki skert og að gerður yrði nýr samningur afturvirkur til 1. júní. Þar með ætti málið að vera úr sögunni en í umræðunni féllu orð sem margir áttu erfitt með að kyngja. Þeirra á meðal var stjórn LÍ. Málið skipti um farveg eins og títt er í íslenskri þjóðfélagsumræðu og breyttist úr því að fjalla um starfsemi einu barna- og unglingageðdeildar landsins í valdabaráttu stjórnenda spítalans.





Hvað varð um fjárveitinguna?

Ólafur Ó. Guðmundsson yfirlæknir á BUGL rakti forsögu málsins í grein í Morgunblaðinu 4. júní þar sem hann greinir frá því að framkvæmd þjónustusamningsins hafi í öllum aðalatriðum gengið mjög vel. Samningurinn gerði ráð fyrir talsverðri aukningu á fjárveitingum til BUGL og samstarfi við Barnaverndarstofu og SÁÁ með það markmið að gera þjónustu við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða betri og samhæfðari.

Þrátt fyrir það að menn væru ánægðir með samninginn varð það niðurstaða Barnaverndarstofu að segja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara. Ástæður uppsagnar höfðu verið tilteknar en sú veigamesta verið sú að viðbótarfjármagn sem renna átti til BUGL samkvæmt samningnum virtist ekki skila sér. Í grein Ólafs segir að "sviðstjórn geðsviðs LSH [hafi] ekki getað gert fullnægjandi grein fyrir því hvernig rekstrarfjármagni hefur verið varið þrátt fyrir að formleg beiðni frá forstjóra Barnaverndarstofu þar um hafi fyrst komið fram fyrir rúmu ári. Hér er um að ræða um það bil 43 milljóna króna rekstrarfjármagn á ári sem koma átti til viðbótar því rekstrarfé sem BUGL hafði fyrir ...".

Þarna er því greinilega á ferðinni ágreiningur um fjárveitingu sem var eyrnamerkt BUGL en að því er virðist notuð til annarra hluta í rekstri Landspítalans. Niðurstaðan verður sú að samningnum er sagt upp og daginn áður en hann rennur út án endurnýjunar er farið að undirbúa fækkun starfsfólks og samdrátt í þjónustu.





Viðbrögð Magnúsar

Það er auðskilið að þessi þróun mála hvíli þungt á yfirlækni deildarinnar og að hann finni hjá sér hvöt til þess að deila áhyggjum sínum með þjóðinni. Viðbrögð yfirlæknisins verða til þess að Magnús Pétursson forstjóri Landspítala ræðir við Morgunblaðið og blaðamaður þess hefur eftir honum að "málið sé á misskilningi byggt og það sé ekki hlutverk Ólafs á spítalanum að senda út fréttatilkynningar".

Það eru fyrst og fremst þessi ummæli sem fóru fyrir brjóstið á mörgum. Stjórn LÍ var ekki ein um að bregðast við þeim. Morgunblaðið fjallar um þau í leiðara 5. júní og segir orð Magnúsar "bera vitni hugsunarhætti, sem á ekkert erindi í stjórnsýslu opins lýðræðisríkis í upphafi 21. aldarinnar". Blaðið heldur áfram og segir að almenningur geri kröfu um góða heilbrigðisþjónustu og fáir viti betur deili á henni en sérfræðingarnir sem sjái um sjúklingana.

"Ef það er ekki hlutverk þeirra að benda á þegar þeim þykir að skera eigi niður þjónustu með þeim hætti að vegið sé að hagsmunum sjúklinga má spyrja hvers hlutverk það sé eiginlega. Í raun má snúa forsendunum við og segja að það sé einmitt þeirra hlutverk - og þeirra skylda - að stíga fram, en ekki að sitja og þegja og þegar það gerist á að svara því með þeim hætti að almenningur verði upplýstur um hvað sé á ferðinni, í stað þess að snupra lækna eða aðra, sem sinna þessari sjálfsögðu upplýsingaskyldu," segir í leiðaranum.





Tjáningarfrelsið lifi

Í þessu sambandi er athyglisvert að skoða viðbrögð Magnúsar Péturssonar í ljósi ummæla sem hann lét hafa eftir sér á síðum þessa blaðs í vetur. Undirritaður átti við hann viðtal sem birtist í marshefti Læknablaðsins og fjallaði um sameiningu sjúkrahúsanna. Þar úttalar Magnús sig um tjáningarfrelsi starfsmanna sjúkrahússins og segir:

"Ég hef heyrt það að sumum þyki ákvarðanir koma ofanfrá og að knappur tími sé til þess að ræða niðurstöður við stjórnendur og starfsmenn. Auðvitað mega starfsmenn hafa skoðun á þessu eins og öðru og láta hana í ljósi. Ég er sannfærður um að álit starfsmanna spítalans vegur mjög þungt í skoðanamyndun um heilbrigðisþjónustuna í landinu og um hlutverk spítalans sérstaklega. Ég treysti því að þessar skoðanir komi fram í fjölmiðlum, á fundum og ráðstefnum. Ég ætla starfsmönnum ekki annað en góða dómgreind til þess að meta hvað er við hæfi að segja hverju sinni í ljósi stöðu þeirra innan spítalans. Þetta er lykilatriði sem allir verða að hafa vald á."

Þarna kveður við nokkuð annan tón og ekki fullljóst hver afstaða æðsta forystumanns spítalans er til þessa mikilvæga máls. Skyldi eitthvað hafa breyst í millitíðinni?





Lagskipt yfirstjórn

En hvað segir Ólafur Ó. Guðmundsson um þessa deilu? Í samtali við Læknablaðið kvaðst hann þakklátur fyrir stuðning stjórnar LÍ við sig í þessu máli, hann væri nauðsynlegur ekki síst í því ljósi að staða yfirlækna á fjölþátta starfsemi eins og BUGL, hefði verið gerð veikari með nýju skipuriti sem fylgdi í kjölfar sameiningar stóru sjúkrahúsanna í LSH.

"Það má segja að yfirstjórn spítalans sé lagskipt. Efst er framkvæmdastjórnin og framlenging hennar inn á sviðin í formi sviðstjóra sem ekki eru í auglýstum stöðum eða ráðnir samkvæmt hæfnismati og hafa fyrst og fremst það hlutverk að gæta rekstrarlegra hagsmuna. Undir þá heyra aðrir yfirmenn sviðsins þar á meðal klínískir stjórnendur eins og yfirlæknar sem bera hitann og þungann af því að þjónustan sé boðleg og fullnægjandi og finna á eigin skinni ef svo er ekki. Innan sviða er síðan orðin til ýmis undirstarfsemi, svo sem sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf sem líka heyra beint undir sviðstjóra en ekki yfirlækna. Þetta skipulag getur reynst bagalegt fyrir deild eins og BUGL þar sem fram fer sérhæfð starfsemi, sú eina á landinu, á einu stærsta sviði spítalans, geðsviði. Milliliðirnir geta orðið æði margir og stundum óljóst hver ber ábyrgð þó á endanum sitji yfirlæknar uppi með hana en sviðstjórarnir með ákvörðunarvaldið. Starfsemi okkar á BUGL byggist meðal annars á því að eiga góð samskipti, ekki bara við kollega sem stunda okkar sjúklinga, heldur einnig við ýmsar stofnanir úti í bæ, félagsþjónustu sveitarfélaga, skóla, barnaverndaryfirvöld og fleiri. Þessar stofnanir gera miklar kröfur til okkar og við sem berum ábyrgðina verðum að geta tjáð okkur beint og milliliðalaust við þær. Við þurfum að gæta hagsmuna skjólstæðinga okkar og aðstandenda þeirra og þess vegna getum við þurft að sinna upplýsingaskyldu okkar í gegnum fjölmiðla. Það er mikilvægara að taka afstöðu til tíðindanna og það sem þau fela í sér heldur en að elta ólar við hver kemur þeim á framfæri," sagði Ólafur Ó. Guðmundsson yfirlæknir.

Margvísleg starfsemi á Landspítala háskólasjúkrahúsi er sú eina sinnar tegundar í landinu. Sameining stóru sjúkrahúsanna tveggja í Reykjavík í þessu eina sjúkrahúsi hefur leitt til þess, að landsmenn eiga ekki aðra kosti varðandi ýmsa sérhæfða meðferð, en að njóta þeirrar þjónustu, sem þar er boðin. Því eru málefni sjúkrahússins viðkvæm þjóðinni allri og brýn nauðsyn að umræður um vöxt þess og viðgang séu opnar og byggðar bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma.

Mikilvægi þess að læknar sjúkrahússins taki þátt í þessari umræðu, miðli af reynslu sinni og veiti tafarlaust upplýsingar um þjónustu, sem á undir högg að sækja, hlýtur að liggja í augum uppi. Þar standa almannahagsmunir sérsjónarmiðum framkvæmdastjórnar spítalans langtum framar. Þau sjónarmið, sem sett eru fram af yfirlækni barna- og unglingageðdeildarinnar í Morgunblaðsgrein í dag, styðja það svo ekki verður um villst.

Ítrekað hefur það gerst, að læknar eru snupraðir fyrir að tjá sig um málefni sjúkrahússins og raunar heilbrigðisþjónustunnar undir því yfirskyni, að það sé annarra hlutverk. Virðast þær snuprur byggjast á þeim djúpa og hættulega misskilningi, að aðfinnslur lækna, meðal annars í yfirlæknisstöðum, séu framkvæmdastjórn sjúkrahússins til óþurftar og trufli störf hennar.

Þessu mótmælir stjórn Læknafélags Íslands af ástæðum sem að ofan eru tilgreindar.

Framkvæmdastjórn Landspítala og yfirlæknar sjúkrahússins eiga miklu fremur samleið, þegar til almannahagsmuna er litið. Mikilvægt er, að framkvæmdastjórnin og læknar sjúkrahússins sýni háttvísi og varúð í öllum ummælum sínum og skapi ekki óþarfa efasemdir um góða stjórnsýslu á sjúkrahúsinu.

Stjórn Læknafélag Íslands ítrekar þá skoðun sína, sem áður hefur komið fram, að réttur lækna til að tjá sig um þróun heilbrigðisþjónustunnar og brotalamir á henni, hvort sem er á eigin vinnustað eða annars staðar, eigi að vera óheftur. Skiptir þá ekki máli hvort læknar eru í stöðum yfirmanna eður ei. Það er farsælt þegar til lengri tíma er litið.

Um þetta sjónarmið mun stjórn Læknafélag Íslands standa dyggan vörð.





Kópavogi 4. júní, 2002

F.h. stjórnar Læknafélags Íslands,





Sigurbjörn Sveinsson

formaður

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica