Umræða fréttir

Frumvarpið breyttist í meðförum þingsins - Rætt við Sigurbjörn Sveinsson formann LÍ um "samninganefndarfrumvarpið" sem varð að lögum viku fyrir jól

Samninganefndarfrumvarpið sem svo var nefnt er ekki lengur frumvarp heldur var það afgreitt sem lög frá Alþingi með 47 samhljóða atkvæðum á síðustu andartökum þingsins fyrir jólafrí. Nokkrar breytingar urðu á frumvarpinu í meðförum þingsins og snertu þær einkum þau ákvæði sem veita Tryggingastofnun ríkisins aðgang að sjúkraskrám í því skyni að hafa eftirlit með forsendum bótaréttar einstaklinga.

Eins og fram kom í desemberhefti Læknablaðsins gerðu læknasamtökin alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins. Blaðinu lék því forvitni á að vita hver viðbrögð Sigurbjörns Sveinssonar formanns LÍ eru við þessari lagasetningu.

"Ég get ekki sagt að ég sé sáttur við lögin. En þetta hefur skánað svo allrar sanngirni sé gætt. Vissulega eru fyrir því málefnalegar ástæður og skiljanlegt að ráðherra vilji fara vel með fjármuni ríkisins. En við töldum að leiðin sem hann vildi fara væri ekki rétt, forsendurnar væru rangar. Þær voru að þjónusta sem sjálfstætt starfandi læknar veittu utan sjúkrahúsa væri sundurlaus, óskipulögð, dýr og jafnvel faglega lakari en sú sem í boði er á sjúkrahúsum. Þetta var rauði þráðurinn í greinargerðinni með frumvarpinu.

Við í læknafélögunum drógum fram hið gagnstæða og bentum á að þessi þjónusta væri faglega sambærileg þeirri sem veitt væri á sjúkrahúsunum fyrir sambærileg verk, þau væru ekkert dýrari og jafnvel ódýrari. Í það minnsta vissi ríkið nákvæmlega hvað þessi verk kostuðu en því væri ekki að heilsa um verk sem unnin eru inni á sjúkrahúsunum. Við töldum því að stjórnvöld væru á rangri braut með frumvarpinu eins og það var."



Heilbrigðisnefnd sneri við blaðinu

"Það sem síðan hefur gerst og ber að þakka er að heilbrigðis- og trygginganefnd sneri alveg við blaðinu í nefndaráliti sínu eftir að hafa farið yfir frumvarpið og hlýtt á umsagnir um það. Nefndin tók þá afstöðu að áhyggjur og athugasemdir læknafélaganna væru ástæðulausar vegna þess að aldrei hefði annað staðið til en að fara eftir þeim grundvallarsjónarmiðum sem félögin bentu á, það er að þegar samið væri um læknisverk yrði gætt jafnræðis milli ólíkra rekstrarforma, svo sem sjúkrahúsa í eigu ríkisins annars vegar og lækningastarfsemi á vegum lækna í sjálfstæðum rekstri hins vegar. Einnig yrði gætt samkeppnissjónarmiða við hagkvæmnismat á þeim kostum sem í boði væru.

Við vorum vissulega fegin að þessi andi skyldi birtast í umfjöllun Alþingis en vildum að hann kæmi einnig fram í lagatextanum. Það ber að þakka heilbrigðisráðherra að það var gert á endanum í formi breytingartillögu þar sem mælt er fyrir um að samninganefnd ráðherrans skuli taka tillit til alls þess kostnaðar sem er við læknisverk þegar lagt er mat á hagkvæmni þjónustu stofnana, fyrirtækja og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna. Þarna er með öðrum orðum hnykkt á því að þegar samið er við stofnanir í opinberri eigu verður að liggja fyrir ítarleg kostnaðargreining við verkin. Það er mjög mikils virði að fá þetta inn í lagatextann.

Það sem eftir stendur er meðal annars það að við vitum ekki hvernig farið verður að við faglegt mat á þeim kostum sem eru í boði. Hugtakið gæði heilbrigðisþjónustu er ekki skilgreint í lögunum og það er miður. Einnig eru þær heimildir sem ráðherranum eru veittar óskilgreindar og ekki vitað í hverju þær gætu verið fólgnar. Í þriðja lagi lögðum við til að frekar yrði reynt að styrkja TR í því að veita landsmönnum tryggingavernd en að taka frá henni verkefni eins og lögin gera ráð fyrir. Það verður pólitískt viðfangsefni samtíðarinnar að leysa þessi vandamál."

Eitt þeirra ákvæða sem læknasamtökin gerðu athugasemdir við varðar aðgang TR að sjúkraskrám þeirra sem fá bótarétt hjá stofnuninni. Þar voru gerðar töluverðar breytingar á frumvarpinu en eru þær nægar?

"Í fyrsta lagi gerðum við ekki athugasemdir við það að ríkið vildi fylgjast með því hvernig fjármunir þess eru nýttir. Læknar hafa átt samstarf við TR um það hvernig þessu eftirliti skuli hagað. Hins vegar bentu lögfræðingar okkar á að þessi opna heimild stæðist ekki lög um réttindi sjúklinga og persónuvernd. Eftir að við bentum á þetta var málið rætt í þingnefndinni og gerðar breytingar sem eru á þann veg að það þarf að vera málefnaleg ástæða fyrir því að TR geti krafist þess að skoða sjúkraskýrslu. Áréttað er að taka þurfi tillit til áðurnefndra laga og að ágreiningsmálum megi skjóta til Persónuverndar.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að betra sé fyrir sjúklinga að þetta eftirlitshlutverk sé hjá TR því þá þarf hún ekki að deila þessum upplýsingum með öðrum stofnunum ríkisins. Hún þarf svo dæmi sé nefnt ekki að senda Ríkisendurskoðun lista með nöfnum sjúklinga sem farið hafa til tiltekinna lækna. Hins vegar hefði mátt setja í lögin ákvæði um að utanaðkomandi aðili kvæði upp úrskurð um það hvenær eftirlits og nánari skoðunar væri þörf en það var ekki gert."



Knappur tími til umræðu

- En sérðu fyrir þér að þessi lög muni hafa í för með sér miklar breytingar á störfum lækna?

"Það er erfitt að gera sér grein fyrir því á þessari stundu. Í upphaflegri mynd frumvarpsins átti að aftengja samkeppnislögin og heilbrigðisþjónustuna en frá því var fallið. Nú höfum við fengið í hendur álit heilbrigðis- og tryggingarnefndar þingsins sem er lögskýringargagn en þar er hnykkt á jafnræði rekstrarforma og því að samkeppnisreglna sé gætt. Það er því búið að laga hlutina verulega miðað við þau pólitísku markmið sem upphaflega komu fram. En maður hlýtur samt að gera ráð fyrir því að þau markmið séu að einhverju leyti fyrir hendi ennþá. Það er til dæmis auðvelt að sjá samhengi þessa máls og nýrrar stefnumörkunar varðandi ferliverk á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Ég tel að það sé ákveðin hugmyndafræði eða stefna í gangi sem fram er komin að öllu öðru leyti en því að starfsmenn heilbrigðisstjórnarinnar hafi gengist við henni. Það er þó óljóst hvernig heimildarákvæði ráðherra verður notað til að ná henni fram. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir því að þetta hafi miklar breytingar í för með sér í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Ég vil að það komi fram hér að hin lýðræðislega umræða um málið sem gert var ráð fyrir tók mjög skamman tíma. Ef við hefðum ekki komist á snoðir um þetta frumvarp þegar fyrstu drög þess lágu fyrir í vor hefðum við ekki getað fjallað um það með þeim hætti sem við gerðum. Okkur voru ætlaðar þrjár vikur til að vinna umsögn um frumvarpið sem en það hefði einfaldlega ekki nægt. Mér er kunnugt um það að í löndum þar sem menn vilja hafa gott samráð og breiða samstöðu um mikilvæg mál, svo sem í Bretlandi, eru myndaðir vinnuhópar stjórnmálamanna og sérfræðinga og læknasamtökum gefið gott tóm til að ræða málin og móta afstöðu sína til þeirra. Þetta gera stjórnvöld til þess að tryggja vandaðan málatilbúnað og ákveðinn stuðning við frumvörpin, hvort sem það er naumur meiri- eða minnihluti.

Það sem er kallað hin lýðræðislega umræða hér á landi leiðir oft ekki til mikils vegna þess að þegar er búið að gera út um málin í þingflokkum ríkisstjórnarinnar hvers tíma. Svo er gefið í skyn að engu verði breytt," sagði Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica