Íðorðapistlar 1-130

020-Öndun

Í síðasta pistli var rætt um hypoventilation (vanöndun) og hyperventilation (oföndun). Við athugun hafði komið í ljós að betur mætti gera við þýðingar þessara orða í Íðorðasafni lækna.

Nú verða skoðuð ýmis önnur orð, sem tengjast öndun. Í latínu er sögnin ventilare. Hún virðist fyrst hafa verið notuð um það að blása, loftræsta eða láta blakta í lofti eða vindi, en ekki sérstaklega um það að anda. Síðar hefur hún verið notuð um þá athöfn að koma fersku lofti niður í lungun og lungnalofti út aftur. Sagnirnar spirare og respirare hafa hins vegar upprunalega verið notaðar um það að anda, draga andann og ná andanum, in-spirare að anda inn og ex-spirare að anda út. Merking þeirra orða, sem dregin eru af respirare, hefur síðan verið útvíkkuð og er enska orðið respiration nú notað sem yfirheiti á öllum öndunarferlinum, auk þess að vera notað sem lífeðlisfræðilegt undirheiti sömu merkingar og ventilation og sem lífefnafræðilegt undirheiti á þeim ferli sem felur í sér notkun súrefnis í efnaskiptum frumna.



Respiration

Yfirheitið öndun felur þannig í sér loftskipti milli umhverfis og frumna líkamans, en hlutar þess ferils eru loftun lungnanna (ventilation eða pulmonary respiration), lofttegundaskipti milli lungna og blóðs (gas exchange), loftflutningar með blóði í æðakerfinu (gas transport), lofttegundaskipti milli blóðs og vefja (gas exchange) og loks súrefnisnotkun í efnaskiptum frumna (tissue eða cellular respiration).

Íðorðasafnið gefur þrjár þýðingar á orðinu respiration: 1. öndun, vefjaöndun. Eðlisfræðileg og efnafræðileg ferli loftskipta vefja og vökvanna sem umlykja þá. 2. öndun, andardráttur. Innöndun lofts úr umhverfinu og útöndun lofts með auknu koltvísýringsmagni. 3. öndunarefnaflutningur. Flutningur blóðs á öndunarlofti, súrefni og koltvísýringi. Þarna virðist útskýringin með fyrstu þýðingunni fremur vísa í það, sem hér að ofan er kallað lofttegundaskipti, en í súrefnisnotkun vefja og frumna. Þetta þyrfti að lagfæra. Útskýringin með annarri þýðingunni vísar greinilega í loftun lungnanna og því þyrfti að benda þar á samheitið ventilation. Þriðja þýðingin er hins vegar vafasöm, ef ekki alröng, því að hún vísar í það sem á ensku kallast blood gas transport. Nær hefði verið að nota eftirfarandi: 3. öndun. Yfirheiti um feril og notkun súrefnis í orkuefnabúskap lifandi vera.

Ventilation

Íðorðasafnið gefur tvær þýðingar á enska orðinu ventilation: 1. loftræsting. 2. loftskipting. Þetta má einnig gagnrýna. Nær hefði verið að hafa þýðingarnar þrjár: 1. loftræsting. Það að skipta um loft í rými, venjulega með því að veita fersku lofti inn og öðru lofti út. 2. loftun, öndun. Það að veita lofti inn og út úr lungum. 3. viðrun. Það að setja fram eða láta í ljós skoðanir, hugmyndir eða tilfinningar.

Þá þarf einnig að endurskoða þýðingar á ensku sögninni to ventilate. Önnur þýðingin, sem þar er gefin að blóðilda er ekki í samræmi við erlendar orðabækur og betur fer á að blóðildun sé eingöngu notað sem þýðing á blood oxygenation.



Vanöndun - oföndun

Þá víkur sögunni aftur að orðunum úr síðasta pistli, hypoventilation og hyperventilation. Í framhaldi af ofanrituðu verður að leggja til að bætt verði við þýðingunum vanloftun og ofloftun, sem nota má um lungu og lungnahluta og jafnvel um sjúklinga. Þannig getur hægra, efra lungnablað verið van- eða ofloftað. Sjúklingar geta sjálfir van- eða ofandað og fengið van- eða ofloftun við öndunarvélameðferð. Vafasamt er hins vegar að tala megi um vanloftaða, ofloftaða, vanandaða eða ofandaða sjúklinga!

Þýðingar á hypoventilation gætu verið þessar: 1. vanöndun. Of grunn og/eða hæg öndun. 2. vanloftun. Of lítil loftun/loftfylling lungna eða lungnahluta. Þýðingar á hyperventilation þyrfti síðan að samræma með: 1. oföndun og 2. ofloftun, en láta ofuröndun helst falla í gleymsku. Þá þarf að hyggja vel að samræmingu við þýðingar á grísku orðunum hypopnea (grunn og hæg öndun), hyperpnea (djúp og hröð öndun), bradypnea (hægöndun) og tachypnea (hraðöndun). Loks má ekki gleyma dyspnea (mæði, andþrengsli, andnauð) og apnea (öndunarstöðvun, öndunarleysi, andhlé).

Að lokum er spurt: Er gerður greinarmunur á íslenskum heitum öndunarvélanna, respirator og ventilator?

FL 1991; 9(7): 6-7
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica