Íðorðapistlar 1-130

022-Fibromyalgia

Giktarlæknir lét frá sér heyra og var þá að velta fyrir sér þýðingu á fræðiorðinu fibromyalgia. Fibromyalgia finnst ekki sem uppflettiorð í Íðorðasafni lækna, en þar má þó finna alla orðhlutana.

Forliðirnir fibr- og fibro- eru þýddir sem þráður, þráð- eða þráða- og eru komnir af latneska orðinu fibra sem er þýtt sem þráður eða trefja. Forliðirnir my- og myo- eru hins vegar komnir úr grísku þar sem mys merkir vöðvi. Síðasti orðhlutinn -algia er einnig kominn úr grísku, af algos sem merkir verkur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við rekumst á grísku- og latínublending í fræðiorðum læknisfræðinnar!

Bein íðorðasafnsþýðing á orðinu fibromyalgia er þá þráðavöðvaverkir eða - til að draga úr hugsanlegum misskilningi - þráða- og vöðvaverkir, því að hér er ekki verið að vísa í "þráðavöðva" heldur í "fibrous tissue" sem Íðorðasafnið kallar trefjavef eða þráðavef. Undirrituðum er reyndar tamara að kalla þann vef bandvef og mundi í samræmi við það kjósa að bein þýðing á fibromyalgia væri bandvefs- og vöðvaverkir. Þar með er þó ekki öll sagan sögð og þegar menn fara að "lesa á sig" kemur ýmislegt óvænt í ljós.Fibromyalgia syndrome

Sjúkdómsfyrirbærið fibromyalgia er ekki ósértækt ástand með bandvefs- og vöðvaverkjum, heldur afmörkuð samstæða ákveðinna sjúkdómseinkenna, sem hefur fengið heitið fibromyalgia syndrome eða fibrositis syndrome. Þetta fyrirbæri er flokkað sem mjúkvefjagikt (soft tissue rheumatic disorder) og er lýst á þann veg að saman fari: 1. mjúkvefjaverkir, stirðleiki og þreyta; 2. eymslablettir (tender points) í vöðvum eða bandvefjum; 3. svefntruflanir; 4. fullkomnunarárátta og 5. eðlilegar rannsóknaniðurstöður, svo sem sökk og hefðbundin giktarpróf. Sjúklegar breytingar finnast heldur ekki við venjulegar vefjarannsóknir, svo sem vöðvasýnisrannsókn.

Orsakir þessa heilkennis eru enn óþekktar, en orsakafræðin fjallar um hugsanlegar mjúkvefjaskemmdir, annað hvort í vöðvum eða bandvefjum, hugsanlegar miðtaugakerfistruflanir og um áhrif skapgerðar og svefntruflana á sársaukaskynjun. Þetta heilkenni er þó umdeilt fyrirbæri, og í einni bókinni var því haldið fram að nafnið væri óheppilegt, að mikilvægi þessa ástands sé dregið í efa og að óvíst sé jafnvel um tilveru þess. Fibrositis (bandvefsbólga) er þó enn óheppilegra heiti, því að ekki er hægt að sýna fram á að um vefjafræðilegar bólgubreytingar sé að ræða. Bein þýðing á fibromyalgia syndrome er heilkenni bandvefs- og vöðvaverkja eða bandvefs- og vöðvaverkjaheilkenni, en æskilegra væri að finna styttra nafn. Nauðsynlegt er einnig að taka mið af nafngiftum á öðrum giktarverkjasamstæðum, svo sem polymyalgia rheumatica og psychogenic rheumatism. Æskilegast væri að taka allt flokkunarkerfi giktarsjúkdóma og nafngiftir skyldra meina til endurskoðunar.Borderline tumor

Í síðasta orðaþætti var sagt frá því að tillaga hafði borist um að nefna þetta fyrirbæri jaðaræxli. Óskað var eftir fleiri tillögum og Málverndunardeild Heilsugæslunnar í Garðabæ stakk að bragði upp á því að þetta yrði kallað vafaæxli. Undirritaður var einnig að velta vandamálinu fyrir sér og komst að þeirri niðurstöðu að í fræðilegri umfjöllun og við flokkun æxla mætti notast við orðið vafakynja, þannig að æxli væru ýmist góðkynja, vafakynja eða illkynja. Hinu ber ekki að neita að orðið vafaæxli er þjált og á sér hliðstæður í íslensku máli, til dæmis orðið vafagemsi, sem notað hefur verið um kindur eða lömb sem eru svo óljóst eyrnamörkuð að óvíst er um eiganda. Óvissuæxli virðist ekki eins lipurt, en það er enn rúm fyrir önnur sjónarmið og fleiri tillögur!E.S. Nýlega varð mér það á í samtali að nota enska orðið "stress" eins og það væri íslenskt. Viðmælandi minn tók því illa og sagðist vilja útrýma þessu leiðinlega orði þar sem íslenska orðið streita væri búið að ná góðri fótfestu. Hann bætti því við, að hann væri að reyna að hætta að vera "stressaður" í vinnunni, héðan í frá yrði hann "streittur".

FL 1991; 9(9): 6
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica