Íðorðapistlar 1-130

031-Röntgenmyndataka

Á fræðslufundi fyrr í vetur sat undirritaður við hliðina á röntgenlækni og áður en fræðslan hófst barst íðorðamyndun í tal. Fyrsta tilefnið var latneska orðið graphia, sem er notað í heitum á ýmsum greiningaraðgerðum í röntgenfræðum. Sem dæmi má nefna cholecystographia, cystographia, galactographia, mammographia og urographia.

Orðhlutinn -graphia er kominn úr grísku, frá sagnorðinu grapho, sem merkir að skrifa. Orðhlutinn grapho- er vel þekktur í hópi lækna, því að þar má finna marga þá sem haldnir eru graphomania, ritæði, og aðra sem þjást af graphophobia, ritfælni. Í ensku er nafnorðið graph oft notað sem síðari orðhluti (-graph), ýmist um tæki sem gera línurit eða myndir, eða um línurit og myndir sem tækin framleiða. Í íslenskum skólum mun fyrir löngu kominn á sá siður að stafsetja orðið að íslenskum hætti og nota þá hvorugkynsorðið graf (ft. gröf) um ýmis línurit og myndir. Íðorðasafn lækna þýðir orðhlutann -graphia oftast sem myndataka, en þó hefur ekki enn náðst fullt samræmi. Cystographia er þannig nefnd blöðruskuggamyndataka en cholecystographia er nefnd gallblöðrumyndataka. Mammographia er brjóstamyndataka, en galactographia finnst ekki sem uppflettiorð. Undan þessum orðskorti kvartaði fyrrnefndur röntgenlæknir og taldi vanta gott íðorð.

Mjólkurgangamyndataka er óþægilega langt til að nota í daglegu tali og brjóstgangamyndataka litlu betri. Brjóstgangamyndun (samanber ljósmyndun) getur gengið þegar samhengið er augljóst, en hafa ber í huga að það orð mætti einnig nota um vefjamyndun (histogenesis) mjólkurganga. Rétt er einnig að minna á aðra þýðingu Íðorðasafnsins á orðinu graphia, svo sem í electroencephalographia, heilarafritun eða heilaritun, og í electrocardiographia, hjartarafritun. Athyglisvert er að orðin heilalínurit og hjartalínurit eru mikið notuð, en að orðin heilarafrit og hjartarafrit hafa ekki náð vinsældum. Sennilega er hrynjandin ekki rétt í þeim.



Hnýfill

Á fundi starfshóps Orðanefndar var rætt um nýtt heiti á fyrirbærið exostosis. Í Íðorðasafninu er exostosis þýtt með orðinu útgöddun en sú þýðing virðist ekki hafa náð neinni fótfestu. Erlendar orðabækur upplýsa að orðið sé komið úr grísku. Exo- er forskeyti sem merkir út-, ytri- eða utan-, osteon merkir bein og -osis er viðskeyti, sem er notað um ástand. Bein þýðing gæti þá verið útbeinsástand, vissulega skiljanlegt en varla boðlegt! Auk þess er orðið exostosis fyrst og fremst notað um beinútvöxtinn sjálfan, um staðbundinn, brjóskklæddan beingadd sem skagar út úr beini. Þá mun einnig vera til heitið endostosis, sem er haft um sambærilega beingadda sem skaga inn í merghol beina.

Niðurstaða starfshópsins varð sú að exostosis skyldi heita úthnýfill eða beinúthnýfill og endostosis innhnýfill eða beininnhnýfill. Undirritaður vill bæta því við, að endostosis er án efa svo sjaldgæft fyrirbæri að oftast er óhætt að nota orðin hnýfill eða beinhnýfill um exostosis. Hnýfill merkir, eins og flestir þekkja, 1. lítið horn (einkum á lambi) eða 2. yzti hluti stafns eða skuts á báti (Orðabók Menningarsjóðs).



Íslensk íðorð í læknisfræði

Nokkur umræða fer nú fram um notkun íslenskra fræðiorða og myndun íðorða í læknisfræði. Greinilegt er að margir læknar hafa áhuga á að nota íslensk orð þegar þess er nokkur kostur og leggja sig fram um að gera það. Giktarlæknar eru til dæmis á þessu ári að vekja athygli á giktarsjúkdómum með því að skrifa um þá stuttar fræðslugreinar í dagblöð. Þar kemur fram viðleitni til að nota íslensk heiti á sjúkdómsfyrirbærum og er það til fyrirmyndar. Sömuleiðis er kennsluefni, sem sett er saman fyrir nemendur í heilbrigðisfræðum, oftast vel úr garði gert hvað varðar íslenskun fræðiorða. Hins vegar er málfari mjög oft áfátt á fundum þeim sem haldnir eru á sjúkrahúsunum. Vissulega er erfitt að venja sig af slanguryrðum alls konar sem hafa verið mönnum munntöm á áralöngum starfsferli, en vel má gera kröfu til þess að í texta myndefnis á slíkum fundum séu fyrst og fremst notuð íslensk fræðiorð og að erlendu fræðiorðin komi sem viðbót (til dæmis í sviga) þegar þörf er á. Slík uppsetning þarf ekki að spilla skilningi. Tölvuvinnsla á texta og myndefni, svo sem á glærum, ætti einmitt að gera það auðvelt að hafa skipti á íslenskum fræðiorðum og erlendum.



FL 1992; 10(6): 4
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica