Íðorðapistlar 1-130

032-Graphia - scopia

Í síðasta pistli var rætt um gríska orðið graphia sem notað er um ýmsar læknisfræðilegar greiningaraðgerðir sem fela í sér vélræna skráningu á ákveðnum þáttum í starfsemi eða byggingu líffæra. Electrocardiographia, hjartarafritun, hjartalínuritun, skráir til dæmis feril rafspennubreytinga í hjarta, en cholecystographia, gallblöðrumyndataka, er röntgenmyndataka af gallblöðru og innihaldi hennar. Orðin sem notuð eru í íslensku læknamáli um graphia eru þannig ritun og myndataka eða myndun. Síðari tvö orðin eru reyndar ekki birt í Íðorðasafninu með uppflettiorðinu -graphy, en þurfa að bætast við í næstu útgáfu. Líklegt er að tæknilegar framfarir muni bæta við nýjum aðgerðum af þessu tagi og þá þarf að vera á verði til að góð íslensk heiti komi fram þegar þörf er á.



Holskoðun

Langt er síðan farið var að skyggnast djúpt í meltingarveg, öndunarveg og þvagveg manna, fyrst um hörð rör og síðan um sveigjanlegar slöngur. Með þessum aðferðum má horfa beint á innri slímhúðir og meta ástand þeirra og meinsemdir, taka sýni og beita ýmis konar staðbundinni meðferð. Nú eru læknar einnig farnir að brjóta leið fyrir þessi tæki gegnum heilt yfirborð og skoða líkamshol og líffæri, sem annars eru ekki opin sjónum þeirra. Í gegnum slöngurnar má síðan lauma (renna) greiningar- og aðgerðartækjum af ýmsu tagi og framkvæma "lokaðar aðgerðir" með minni fyrirhöfn og ekki síst með minni áhættu en hinar hefðbundnu "opnu aðgerðir". Þarna er svið sem einnig er þörf á að orðasmiðir og unnendur íslensks fræðimáls séu reiðubúnir að sinna, þegar þörf er á nýjum orðum í tilefni af nýrri tækni og nýjum tækjum.

Scopia - speglun

Orðið scopia er komið úr grísku (skopeo: skoða) og hefur verið tekið upp lítið breytt í mörgum málum, en á íslensku hefur orðið speglun hins vegar unnið sér vissa hefð, svo sem í samsetningunum blöðruspeglun, magaspeglun og ristilspeglun. Einnig hafa spegiltæki og spegilslanga náð vissri útbreiðslu, en heitið speglari hefur þó ekki verið notað um þann sem speglun framkvæmir.

Nýlega hefur orðið speglun verið gagnrýnt og því til stuðnings er á það bent, að ekki er um eiginlega speglun að ræða, það er endurvarp myndar frá spegli. Það er nú það! - Undirritaður er ekki reiðubúinn til þess að fara að endurlesa gömlu menntaskólaeðlisfræðina til að geta sjálfur lagt fræðilegt mat á það, hvað er speglun og hvað ekki, enda bókin vafalítið fyrir löngu farin sína leið. Þó má benda á að orðið speglun hefur stundum fengið útvíkkaða merkingu og verið notað um endurvarp af öðru tagi. Á Gamla Garði á sínum tíma léku stúdentar leikinn "bobb" og þá voru hundarnir oft "speglaðir" af brúnum borðsins til að ná ákveðinni skotstefnu í erfiðri stöðu. Spegill er hlutur sem endurkastar ljósi (eða mynd) og má ekki segja að ljósleiðarar í slöngunum endurkasti ljósi (og mynd) þannig að líkja megi við spegil?

Undirritaður telur sem sagt að orðið speglun, til dæmis magaspeglun, sé ekki alrangt í þessu samhengi, og þar sem það hefur náð mikilli útbreiðslu og er auðskiljanlegt, sé engin ástæða að láta það fyrir róða. Í framhaldi af þessu má nefna tækin spegla, til dæmis magaspegil, kviðarspegil, og aðgerðirnar speglanir.





Scopia - kögun

Fram hefur komið tillaga um að holspeglun af ýmsu tagi verði kölluð kögun. Þarna er um fornt orð að ræða, köguður var varðmaður sem skyggndist um og kögunarhóll (kagaðarhóll) var sjónarhóll, útsýnishæð eða varðmannshóll. Þetta orð mun vera komið í notkun, en skoða þarf nánar hvað það hefur í för með sér. "Endóskópisti" er til dæmis vandræðalegt slanguryrði, en er "köguður" betra?

FL 1992; 10(7): 4.
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica