Íðorðapistlar 1-130

037-Holstingur

Í síðasta pistli var skýrt frá tillögu Orðanefndar að heiti á því áhaldi sem trocar nefnist, að það verði kallað holstingur. Mönnum til gamans og fróðleiks skal nú upplýst um uppruna orðanna.

Þessu áhaldi er lýst þannig í hinni miklu alþjóðlegu læknis- og líffræðiorðabók Wileys að um sé að ræða holt, sívalningslaga áhald með hvössum oddi, sem notað sé til að stinga á líkamsholi, venjulega til að hleypa út vökva. Í læknisfræðiorðabók Stedmans er hins vegar gert ráð fyrir að áhaldið sé í tveimur hlutum og fái hvor sitt heitið, annar cannula, hinn trocar. Holi hlutinn nefnist cannula, en það orð er komið úr latínu frá canna, sem merkir reyr eða reyrstafur. Reyr er vel þekkt ættkvísl votlendisplantna, sem meðal annars einkennast einmitt af því að hafa holan stöngul. Cannula nefnist holnál eða holpípa í Íðorðasafni lækna. Trocar er þá, samkvæmt skilningi Stedmans, eingöngu notað um oddhvassa teininn sem liggur inni í holnálinni, öðru nafni obturator (L. það sem lokar opi, lokandi) eða stylus (L. penni, staur, stíll).

Orðið trocar er hins vegar komið úr frönsku og finnast tvær skýringar á uppruna þess. Önnur vísar í trois quarts, sem merkir þrír fjórðu, en ekki er upplýst nánar hvernig það hæfir áhaldinu. Hin orðskýringin vísar í trois carre, sem merkir þrjár hliðar, og þá er bent á að oddurinn hvassi hafi oftast verið þrístrendur. Íslenska heitið holstingur á vel við, hvort sem litið er til skýringar Wileys eða Stedmans. Hol getur ýmist vísað í líkamsholið, sem stungið er á, eða holnálina, sem notuð er, og stingur merkir meðal annars: áhald til að stinga með, broddur, hvass oddur (Orðabók Menningarsjóðs).Vinurinn, vinan

Undirritaður var nýlega stöðvaður á Snorrabrautinni í Reykjavík á leið af orðanefndarfundi. Fyrstu orð hins unga fulltrúa réttvísinnar voru þessi: "Heyrðu vinurinn! Má ég sjá ökuskírteinið þitt?" Ekki tjáði að malda í móinn við þeirri beiðni, en undirrituðum fannst óneitanlega talað "niður" til sín.

Í tilefni af þessu rifjaðist upp nokkurra ára gömul umræða um notkun ávarpsorðanna vinurinn og vinan. Viðmælandi undirritaðs í þeirri umræðu var kona úr læknastétt. Hún fullyrti þá að konur, sem væru læknar, yrðu oftar fyrir því en karlar, að talað væri "niður" til þeirra á þennan hátt af starfsbræðrum þeirra.

Orðabók Menningarsjóðs upplýsir að nafnorðið vinur merki kær félagi, náinn kunningi, e-r sem hefur trúnað e-s. Ekkert af því á við um samband undirritaðs við ókunnugan lögregluþjón, sem hefur staðið hann að verki við umferðarlagabrot. Kvenkynsorðið vina er hins vegar talið merkja vinkona, vinstúlka. Varla hæfa þau orð heldur sambandi lítt kunnugra starfsbræðra af gagnstæðu kyni.

Vafalítið eru ávarpsorð af þessu tagi ekki illa meint, en þó má ganga að því sem vísu að lögregluþjónninn ungi noti þau ekki við sína æðstu yfirmenn. Undirritaður hefur einnig oft mátt þola það í símtölum við unga aðstoðarlækna á deildum sjúkrahúsanna að vera kallaður "vinur" af annars ókunnugum mönnum. Á þeirri stofnun í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem undirritaður var í sérnámi, var þess vandlega gætt að óviðeigandi ávarpsorð væru ekki notuð milli starfsmanna (darling! love! sweetie!). Skyldi einhver regla vera til um slíkt á hérlendum sjúkrastofnunum?

Þá þykist undirritaður oft hafa orðið var við það á liðnum árum að læknar noti stundum óviðeigandi ávarpsorð við sjúklinga sína, og að þá sé gjarnan gerður mannamunur. Þannig hafa þungaðar konur öðrum fremur kvartað undan kvensjúkdómalæknum og ljósmæðrum, sem kalli þær stöðugt "elskurnar", og eins mun hinn almenni eftirlaunaþegi oftar vera kallaður "Jón minn", en virðulegir athafnamenn og ráðherrar. Því er spurt: "Er ekki þörf á því að opinberir starfsmenn, þar á meðal læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, hugsi meira um framkomu sína og ýmsa almenna kurteisissiði?"

FL 1992; 10(12): 4
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica