Íðorðapistlar 1-130

040-Arta

Í pistlinum í nóvember 1992 (FL 11/92) var stungið upp á því að nota nafnorðið arta sem þýðingu á sjúkdómsheitinu acne. Orðið er frá 18. öld, eins og fram kom í pistlinum, og var áður notað um graftarnabba og smávörtur. Það er stutt og lipurt, fer vel í flestum samsetningum, og hefur auk þess vissa hljóðlíkingu við erlenda fræðiheitið.

Vinnuhópur Orðanefndar hefur nú samþykkt tillöguna og komið sér saman um íslensk heiti á helstu tegundum acne. Nú er skorað á lækna að taka orðið strax í notkun og láta á það reyna hvort hér sé ekki komið íslenskt heiti sem dugir. Orðið er kvenkyns og fallbeygist þannig: arta (nf.), örtu (þf.), örtu (þgf.), örtu (ef.).

Helstu form örtusjúkdóma fá því eftirtalin heiti á íslensku:

arta (acne, a. vulgaris, a. simplex),

blöðruarta (a. cystica),

dreparta (a. necrotica),

efnaarta (a. venenata, a. arteficialis),

fyrirtíðaarta (a. premenstruale),

graftararta (a. pustulosa),

herslisarta (a. indurata),

hnútarta (a. conglobata),

nabbaarta (a. papulosa),

nýburaarta (a. neonatorum),

snyrtivöruarta (a. cosmetica),

svæsin arta (a. fulminans)

tíðaarta (a. menstruale) og loks

örarta (a. keloidalis).Húðsjúkdómar

Tilefni þess að vinnuhópur Orðanefndar tók örtusjúkdómana til umfjöllunar er það að nú hefur verið hafist handa við íðorðasöfnun í húðsjúkdómafræði. Ætlunin er að útbúa sérstök orðasöfn fyrir sem flestar sérgreinar læknisfræði og nota um leið tækifærið til að endurskoða ýmislegt, sem betur má fara í aðalsafninu. Þá má um leið safna nýjum heitum og hugtökum, sem ekki hafa komist inn í orðabækur. Gott væri nú ef læknar vildu ljá vinnuhópnum lið sitt með því að senda inn óskir um þýðingar eða tillögur að íslenskum heitum.Úr matsalnum

Orðaþýðingar koma oft til umræðu þegar undirritaður situr með starfsbræðrum úr öðrum sérgreinum í matsal Landspítalans. Það er vel þegið, bæði til að safna efni í pistilinn og eins til að fá hugmynd um það, hvar verk er helst að vinna í orðaþýðingum.

Nýlega var rætt um þörf fyrir lipurt íslenskt heiti á því tæki sem á ensku kallast treadmill. Um er að ræða eins konar færiband, sem menn eru látnir ganga á eða hlaupa, og um leið eru gerðar mælingar á líkamsstarfsemi, svo sem á öndun og hjartslætti, til að meta þrek og finna dulin sjúkdómsmerki. Fyrstu uppástungurnar, sem komu fram, voru nánast bein þýðing: stigmylla eða göngumylla. Síðari orðhlutinn, mylla, var gagnrýndur á þeim grundvelli, að ekki væri um neina myllu að ræða. Þá var næst rætt um gönguband, þolband eða þrekband. Niðurstaða fékkst reyndar ekki, en við fyrstu sýn má ef til vill mæla með heitinu þrekband. Band er oft notað sem stytting á "færiband". Þrekband er einnig góð hliðstæða við heitið þrekhjól, sem komið er í almenna notkun. Aðrar tillögur eða hugmyndir væru vel þegnar.

Í sama matartíma kom fram gagnrýni á að nota orðið þéttni (concentration) um hlutfallslegt magn efna í blöndu. Þetta kom undirrituðum nokkuð á óvart því að hann hélt að orðið væri komið í almenna notkun. Við athugun reyndist það þó ekki vera að finna í Íslenskri orðabók Árna Böðvarssonar. Matartímanum lauk án þess að aðrar tillögur kæmu fram.

Í annað skipti skaut Björn Árdal, barnalæknir, inn í umræðuna kynningu á fyrirbærinu high altitude cachexia, háfjallakröm, þyngdartapi og orkuleysi, sem kemur fram við háfjallaferðir, og stafar af lystarleysi, vökvaskorti og fleiru. Mun hafa orðið mörgum kappanum að heilsutjóni og jafnvel aldurtila.

FL 1993; 11(3): 10
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica