Íðorðapistlar 1-130

041-Blóðskilun - kviðskilun

Á einum af mörgum minnismiðum í sloppvasa undirritaðs stóðu þessi tvö orð, blóðskilun og kviðskilun. Engin frekari útskýring, en vafalítið var þetta hripað niður til minnis eftir umræðu í matsal Landspítalans.

Sé flett upp í Íðorðasafni lækna má finna að blóðskiljun er íslenska orðið, sem valið hefur verið fyrir hemodialysis. Sé hins vegar leitað að dialysis koma í ljós þýðingarnar himnuskiljun, límingasíun og svifefnasíun, en tvær þær síðarnefndu eru aftur komnar úr Íslenskum læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar. Límingar og svifefni tákna þar colloid, efni sem komast ekki í gegnum skæni eða pergament.

Orðið dialysis er komið úr grísku, myndað úr forskeytinu dia, sem merkir í þessu samhengi gegnum, og lysis, sem merkir losun, upplausn eða leysing. Skilgreiningu á dialysis má finna í læknisfræðiorðabók Stedmans: Aðskilnaður kristallsefna (crystalloid substances) frá kvoðuefnum (colloid substances) í lausn, með því að koma fyrir hálfgegndræpri himnu milli lausnarinnar og vatns. Þá fara kristallsefnin í gegnum himnuna og út í vatnið en kvoðuefnin ekki. Hemodialysis er síðan hreinsun blóðs af uppleysanlegum efnum með því að nota hálfgegndræpa himnu. Slík blóðhreinsun fer gjarnan fram í svonefndu gervinýra utan líkamans og nefnist þá á ensku extracorporeal hemodialysis.

Náttúruleg blóðhreinsun fer fram í nýrunum, en tilbúna blóðhreinsun má einnig framkvæma í líkamanum. Peritoneal dialysis er ekki að finna sem uppflettiorð í Íðorðasafni lækna, en má til samræmingar ofangreindu nefna skinuskiljun, lífhimnuskiljun, kviðarskiljun eða kviðskiljun. Orðabók Stedmans upplýsir að með peritoneal dialysis megi losa líkamann við vatn og uppleysanleg efni með því að dæla vökva inn í kviðarholið og fjarlægja hann aftur þegar þessi efni hafa lekið úr blóði, um lífhimnu (skinu) og út í vökvann. Lífhimnan er þá hin hálfgegndræpa himna, sem sér um aðskilnað efnanna.Skilun, skiljun

Eftir þennan langa formála rifjast það upp, að umræðan um blóðskilun og kviðskilun hófst með því að Páll Ásmundsson, nýrnasérfræðingur, sagðist nota skilun en ekki skiljun þegar hann ræddi eða skrifaði um dialysis. Undirritaður var sama sinnis og lofaði að athuga málið.

Hvorugt nafnorðið, skilun eða skiljun, er að finna í Orðabók Menningarsjóðs. Gera má því ráð fyrir að Orðanefnd læknafélaganna hafi á sínum tíma tekið upp orðið skiljun í staðinn fyrir orðið síun, sem notað er í Læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar. Skiljun er þá leitt af sögninni að skilja (greina sundur, skipta) á sama hátt og nafnorðið skilja (skilvinda). Málfræðingar munu vafalaust krefjast þess að þetta nýja nafnorð Páls, skilun, sé myndað af sögninni að skila. Hún hefur hins vegar ekki þá merkingu að aðgreina. Páll getur þá á móti haldið því fram að blóðið skili ýmsum efnum út í skilunarlausnina og að skilun fari þá fram. Hverjar sem endanlegar röksemdir og niðurstöður málfræðinga verða, þá tekur undirritaður afstöðu með Páli og hyggst framvegis nota skilun en ekki skiljun. Þarna er komið lipurt og gott orð, nýyrði sem skilst vel í réttu samhengi.

Frá landlækni

Ólafur Ólafsson hringdi og kom með tillögu um nýja þýðingu á World Health Organization, sem hingað til hefur verið kölluð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. Þetta 11 atkvæða orð er full þörf á að stytta og tillaga Ólafs er verulega til bóta í þá átt, Heimsheilsustofnunin. Vilji einhver skammstafa má nota HHS. Aðrar tillögur?

FL 1993; 11(4): 6
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica