Íðorðapistlar 1-130

051-Munnleiðis - hjáleiðis

Gísli G. Auðunsson, læknir á Húsavík, hringdi fyrir nokkuð löngu, eða á miðju hausti, og kynnti hugmynd að íslenskun lýsingarorðanna oral og parenteral þegar þau eru notuð til að lýsa leið næringargjafar.

Latneska nafnorðið os (ef.et. oris, ft. ora) merkir munnur á sama hátt og gríska nafnorðið stoma (ft. stomata). Lýsingarorðið oral er notað til að lýsa mörgu því sem munninum tilheyrir, til dæmis í samsetningunum oral cavity, munnhol, og oral mucosa, munnslímhúð. Íðorðasafn lækna notar orðhlutann munn- til að þýða lýsingarorðið oral. Oral nutrition, næring sem gefin er um munn, ætti samkvæmt því að vera munnnæring. Gísli segist hins vegar oftast gefa fyrirmæli um að næring eða lyf séu gefin munnleiðis. Eins má að sjálfsögðu mæla fyrir um að slík næring eða lyf séu gefin um munn.

Næring sem ekki er gefin munnleiðis er gjarnan nefnd parenteral nutrition. Forskeytið para- er komið úr grísku og merkir hjá, meðfram eða nærri. Enteron er einnig komið úr grísku og merkir þarmur eða görn. Lýsingarorðin parenteral og paraoral eru notuð um næringar- eða lyfjagjöf sem fer fram á annan hátt en um munn og meltingarveg, oftast er þá átt við gjöf í æð. Gísli nefnir slíkt að gefa hjáleiðis.

Fyrirmælin: "Gefist munnleiðis" eru auðskilin og lipur, þó ekki séu þau marktækt betri en "Gefist um munn". Fyrirmælin "Gefist hjáleiðis" eru lipur en ekki óyggjandi, því að lyf, sem ekki eiga að fara um meltingarveg, má hugsanlega gefa í æð, undir húð, í vöðva og svo framvegis. Ekki virðist ástæða til að takmarka merkingu heitisins parenteral við eina af þessum leiðum lyfja, vökva og næringargjafar.



Sett'ann á oral alimentation!

Rétt er líklega að nota nú tækifærið og gera athugasemd við þann leiða sið að gefa fyrirmæli um að sjúklingur sé settur "á" lyf eða "á" næringu. Ólíkt íslenskulegra er að heyra sérfræðing segja við aðstoðarlækni sinn: "Gefð'onum næringu munnleiðis!" eða "Láttu gef'onum næringu um munn!" Það hefur alltaf látið illa í eyrum undirritaðs að heyra að sjúklingar séu settir "á" lyf, "á" næringu, "á" vökvameðferð, "á" rúmlegu eða "á" öndunarvél.

Smáskurðameðferð

Undirrituðum tókst ekki að fara rétt með tillögu Þórarins Guðnasonar (Fréttabréf lækna 1994, 12: 8-9) um íslenskt heiti á minimally invasive therapy og er hann beðinn afsökunar á því. Rétt skal rétt vera. Með orðum Þórarins: "Mórallinn af þessu er auðvitað: Talaðu aldrei um alvarleg eða viðkvæm mál í síma!" Þórarinn vill hafa smáskurðina í fleirtölu og bendir á að þeir séu fleiri en einn í hverri aðgerð. Auk þess vill hann að tillaga sín um smáskurðameðferð eða smáskurðalækningar minni á gamalkunnugt íslenskt heiti á raunar óskyldu fyrirbæri, smáskammtalækningum (homeopathy).



Frásogsbilun

Fræðiheitið malabsorption kom nýlega fyrir í rituðum texta sem undirritaður var að ganga frá til birtingar. Uppfletting í Íðorðasafni lækna leiddi í ljós íslenska heitið vanfrásog, sem hljómar ekki sérlega vel. Lýsingarorðið malus er til í latínu og merkir illur eða slæmur. Forskeytið mal- er neikvæðrar merkingar og ýmist þýtt með van-, rang- eða ill-. Nefna má einnig að malfunction er þýtt sem starfsbilun eða starfsröskun. Því kom í hugann þýðingin frásogsbilun.



Skeiðarkanni

Bjarni Jónasson, læknir í Garðabæ, hringdi og var að leita að íslensku heiti á áhald sem notað er með ómtæki (sónar) til að skoða líffæri í grindarholi gegnum leggöng kvenna. Enska heitið er vaginal probe en fyrirspurn á ómdeild kvennadeildar Landspítala leiddi í ljós að nothæft íslenskt heiti skorti. Hér liggur beint við að nota heitið skeiðarkanni og er það sambærilegt við heiti á lyfjaforminu skeiðarstíll.

Í ljós kemur að þýðing Íðorðasafnsins á suppository, endaþarmsstíll, er ekki alveg rétt. Læknisfræðiorðabók Stedmans skilgreinir suppository sem gegnheilt lyfjaform til íkomu í líkamsop önnur en munn, til dæmis endaþarm, skeið eða þvagrás. Suppository er því stíll, en rectal suppository er endaþarmsstíll.

FL 1994; 12(3): 6

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica