Íðorðapistlar 1-130

052-Húðfræði

Dermatologia er heiti þeirrar fræðigreinar sem fjallar um húðina, og er greinin skilgreind þannig að viðfangsefnin séu bygging húðar, starfsemi hennar og sjúkdómar. Bein þýðing gríska heitisins er húðfræði, en vafalítið er hvorki þörf né möguleiki á að breyta því heiti sem fyrir löngu hefur áunnið sér hefð, húðsjúkdómafræði. Þeir læknar, sem fást við greiningu og meðferð húðsjúkdóma, nefnast húðsjúkdómalæknar eða einfaldlega húðlæknar (samanber augnlæknar og geðlæknar). Flestir íslenskir húðlæknar hafa reyndar sérfræðileyfi sem nær til húð- og kynsjúkdóma, en það er önnur saga. Í erlendum orðabókum má finna heitið dermatologist, sem í beinni þýðingu ætti að vera húðfræðingur. Læknisfræðiorðabækur skilgreina hins vegar heitið dermatologist þannig að um sé að ræða lækni sem fæst við húðsjúkdóma. Undirrituðum er ekki kunnugt um það hvort gríska heitið dermiatros (húðlæknir) hafi nokkurn tíma verið til eða hvort til séu húðfræðingar aðrir en húðlæknar.



Húðin

Gríska heitið derma mun upphaflega hafa verið notað um húðina alla, en heitið dermis er nú oftast eingöngu notað um meginlag hennar, leðrið eða leðurhúðina, sem á latínu nefnist corium eða cutis vera. Yfirborðslag húðarinnar er epidermis, sem á íslensku nefnist nú húðþekja. Húðþekjan, þó þunn sé, skiptist í fjögur lög, en þau nefnast grunnfrumnalag eða grunnlag (stratum basale), þyrnifrumnalag eða þyrnilag (stratum spinosum), kornafrumnalag eða kornalag (stratum granulosum) og loks er hornlag eða hyrnilag (stratum corneum) á yfirborði.

Leðrið er mun þykkara og gert úr þéttum bandvef, en skiptist þó einungis í tvö lög, stratum papillare, sem Íðorðasafn lækna nefnir nabbalag, og stratum reticulare, sem Íðorðasafnið nefnir netlag. Þetta heiti, nabbalag, finnst undirrituðum miður heppilegt. Orðið papilla er komið úr latínu og er útskýrt þannig að það sé notað um geirvörtulíka upphækkun (E. nipplelike eminence). Íðorðasafnið gefur þrjár þýðingar á fræðiheitinu papilla: tota, nabbi og varta. Þar sem heitið papilla kemur fyrir í samsettum heitum er það hins vegar oftast þýtt sem tota, svo sem tanntota, táratota og skeifugarnartota. Totur leðurhúðarinnar, papillae corii, sem ættu ef samræmis er gætt að heita leðurtotur, hafa hins vegar af einhverri ástæðu verið nefndar leðurnabbar.

Undir húðinni tekur við lag af bandvef og fituvef sem nefnist húðbeður á íslensku, á latínu ýmist subcutis eða tela subcutanea og á grísku hypodermis.



Húðfræðiorð

Því er húðin nú tekin til umfjöllunar, að vinnuhópur Orðanefndar hefur um nokkurt skeið unnið að því að safna fræðiorðum sem tilheyra húðsjúkdómafræði. Þau orð, sem þegar eru komin inn í Íðorðasafnið, verða tekin til endurskoðunar og fleirum bætt við. Stefnt er að því að öll helstu fræðiheiti þessarar sérgreinar verði þýdd á íslensku. Skilgreining skal fylgja hverju heiti þannig að víst sé hvað við er átt.

Ekki er úr vegi að rifja upp nokkur af þeim orðum sem notuð eru til að lýsa meinsemdum í húð. Heitið macula er oft notað til að lýsa afmörkuðum, flötum húðbreytingum, sem hafa annan lit en aðlæg húð. Þessar breytingar geta verið dökkar eða ljósar en mega samkvæmt skilgreiningu hvorki vera lægri né hærri en húðin umhverfis þær. Í Íðorðasafninu eru þrjár tillögur að þýðingu á macula: blettur, díll og drafna. Æskilegt væri að velja eitt þeirra.

Heitið papula er hins vegar notað um litlar, gegnheilar og afmarkaðar húðbreytingar, sem eru hærri en húðin í kring. Sumar læknisfræðiorðabækur tiltaka að papula sé minni en 0,5 sm í þvermál. Íðorðasafnið setur einungis fram tvær tillögur að þýðingu, en það eru heitin nabbi og arða. Þar finnst undirrituðum að betur megi gera, til dæmis með því að nota fremur heitið bóla. Maculopapular húðbreytingar má þá nefna blettabólóttar.

Næst má nefna nodulus, en það heiti er notað um ýmsar afmarkaðar, gegnheilar, upphækkaðar húðbreytingar, sem eru á bilinu 0,5 til 2 sm í þvermál. Íðorðasafnið gefur upp þrjár tillögur að íslenskun, hnökri, arða eða hnúður. Undirrituðum líst best á það síðasttalda (sjá þó pistil 53).

Loks er að geta um heitið plaque sem gjarnan er notað um upphækkaða og oftast fremur þétta húðbreytingu, sem er stærri um sig en papula, en skagar minna upp frá yfirborði en nodulus. Íðorðasafnið gefur tvær þýðingar, hörsl og skella. Þar gæti heitið þykkildi einnig komið til álita.



FL 1994; 12(4): 6
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica