Íðorðapistlar 1-130

053-Þýðingar óskast

Stöðugt berast óskir um þýðingar á erlendum fræðiorðum. Það er gleðilegt að finna að læknar leggja sig meir og meir fram um að vanda það ritmál sem þeir láta frá sér fara. Í talmáli lækna má þó enn betur gera, eins og oft hefur verið rakið í þessum pistlum, ekki síst á virðulegum fræðslufundum og þegar rætt er við sjúklinga. Orðanefndin og undirritaður eru fús til þess að taka við fyrirspurnum og að hafa milligöngu um leit að góðum orðum. Hér verður getið þriggja fyrirspurna.Útbýti, aðrétta, dreifigögn

Ásgeir Theódórs biður lækna um að láta frá sér heyra ef þeir hafa gott heiti á þeim kennslugögnum sem dreift er til nemenda í tengslum við fyrirlestra. Á ensku er slíkt gjarnan nefnt handout, en á íslensku hafa heyrst heitin útbýti og aðrétta. Hið fyrra er hvorugkyns, það útbýtið, en hið síðara kvenkyns, hún aðréttan. Útbýti finnst ekki í Íslenskri orðabók Máls og Menningar, en þar má finna aðréttu, sem sagt er sjaldgæft. Gefnar eru þrjár merkingar: gjöf, eitthvað sem einhverjum er rétt og loks skammir. Frá sjónarhóli kennara líst undirrituðum mun betur á útbýti. Það hljómar einhvern veginn betur að segja: "Þetta er útbýti dagsins!", en að segja: "Þetta er aðrétta dagsins!". Til viðbótar má stinga upp á heitinu dreifigögn.Ofhreyfikvilli ?

Helgi Jónsson, læknir, hringdi og var að fást við þýðingu á heitinu hypermobility syndrome. Þetta heilkenni einkennist af mjúkum liðböndum og auknu hreyfisviði liðamóta. Hvorki hypermobility né hypermobility syndrome er að finna í Íðorðasafni lækna. Mobility er hins vegar þýtt sem hreyfanleiki og þá má þýða hypermobility sem ofhreyfanleika á íslensku. Heilkenni ofhreyfanleika eða ofhreyfanleikaheilkennið eru hins vegar stirðleg heiti. Spyrja má einnig, hvort taka eigi tillit til þeirrar áráttu erlendra fræðiorðasmiða að nota "syndrome" í tíma og ótíma þegar þeir eru að setja saman ný fræðiheiti. Þeim til varnar má vafalaust segja að heilkennisheitið gefi til kynna að um fræðilega skilgreindan kvilla sé að ræða, en að ofhreyfanleiki geti verið líkamlegur eiginleiki án sjúkdómstengsla. Ef til vill getur ofhreyfanleikakvilli komið til greina sem heiti á þessu fyrirbæri. Hugsanlega má stytta enn meir og tala um ofhreyfikvilla.Pigmented villonodular synovitis

Erfiðasta verkefnið að þessu sinni kom frá Halldóri Baldurssyni, lækni, en hann var að fást við þýðingu á pigmented villonodular synovitis, sem ekki finnst í Íðorðasafninu. Heitið lýsir brúnleitum ofvexti í liðslímu, totumyndandi, hnútóttum og af óþekktum uppruna. Brúni liturinn stafar fyrst og fremst af útfellingum hemósíderíns, sem er niðurbrotsafurð blóðrauða, hemóglóbíns. Hemósíderín hefur fengið hina afleitu þýðingu vefjajárn í Íðorðasafninu, en látum það liggja milli hluta að sinni.

Orðhlutauppflettingar og bein orðhlutaþýðing á fyrrgreindu heiti gefa niðurstöðuna: lituð, títuhnökrótt hálahimnubólga. Undirritaður hefur ýmislegt við þetta að athuga. Í fyrsta lagi það að synovia, liðvökvinn, nefnist liðháli (kk), og á sama hátt að synovium, membrana synovialis, liðhimnan, nefnist hálahimna. Slíkt veldur stöðugri hættu á misskilningi, því að heitið á serosa (tunica serosa) er hála (kvk) eða hálhjúpur. Nær væri að nefna liðvökvann liðslím (hk) og liðhimnuna liðslímu (kvk). Í öðru lagi lætur heitið títa, sem þýðing á villus, ókunnuglega í eyrum, en ef til vill má þó venjast því. Það bætir ekki úr skák að undirritaður hefur vanið sig á það, við lýsingar á fylgjurannsóknum eftir barnsburð og fósturlát, að nefna villi chorii fylgjutotur. Vafalaust er ekki útilokað að skipta um og nefna þær nú fylgjutítur. Þá er það hnökri, sem þýðing á nodulus. Í síðasta pistli tjáði undirritaður þá skoðun sína, þó án nokkurs rökstuðnings, að heitið hnúður væri betra. Í ljós kemur að þá stangast að vissu leyti á þýðingar á granuloma, bólguhnúður, og nodulus, hnúður.

Þetta er rakið til þess að benda á þann vanda, sem oft kemur upp við orðasmíð, að eitt rekst á annars horn. Líklega verður undirritaður því bæði að sætta sig við títuna og hnökrann. Lituð, títuhnökrótt liðslímubólga tjáir erlenda heitið af nákvæmni og er einu atkvæði styttra. Enn styttra heiti væri þó æskilegra á máli arftaka hinna gagnyrtu víkinga.

FL 1994; 12(5): 8

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica