Íðorðapistlar 1-130

055-Tíunda sjúkdómaskráin

Orðanefnd læknafélaganna hefur nú í samráði við landlækni tekið að sér það mikla verkefni að þýða á íslensku tíundu útgáfu hinnar alþjóðlegu sjúkdómaskrár, International Classification of Disease (ICD-10), sem taka á í notkun hér á landi í upphafi árs 1996. Gerður hefur verið formlegur samningur við Heilbrigðisráðuneytið og er áætlað að verkinu muni ljúka snemma hausts 1995. Talið er að skráin innihaldi að minnsta kosti 7 þúsund sjúkdómsheiti, en kerfisraðaði hluti hennar hefur þegar verið gefinn út á ensku í rúmlega 500 blaðsíðna bók. Stafrófsraðaði hlutinn er hins vegar ekki frágenginn enn af hálfu hins erlenda útgefenda. Verulegur hluti sjúkdómsheitanna hefur þegar verið þýddur á íslensku með öðrum fræðiheitum í Íðorðasafni lækna, en öll heitin þarf þó að endurskoða og samræma. Gert er ráð fyrir að vinnuhópur Orðanefndar muni annast sjálfa þýðinguna, en að fengnir verði samstarfsaðilar og ráðgjafar til að fara yfir sem flesta kafla skrárinnar.

Orðanefndin sá hér gullið tækifæri til þess að stuðla að aukinni notkun íslenskra fræðiheita í heilbrigðiskerfinu og því tók hún verkefnið upp á sína arma. Sjúkdómaskráin mun verða gefin út þannig að bæði komi fram íslensku heitin og þau ensku. Hún verður í tveimur bókum, eins og tíðkast hefur, og verður önnur stafrófsröðuð en hin kerfisröðuð. Flokkunarkerfinu hefur verið breytt talsvert, þannig að í fyrsta sæti er nú bókstafur sem táknar flokka sjúkdóma, en í næstu tveimur sætum koma tölustafir eins og verið hefur. Þessi breyting kallar á rækilega kynningu nýju alþjóðlegu skrárinnar hér á landi áður en hún verður tekin í almenna notkun, auk vinsamlegra tilmæla um að sjúkrahúsin taki upp íslensku heitin í sjúkdómaskrám sínum.



Skor

Í síðasta pistli var enska heitið score tekið til stuttrar umfjöllunar. Ástæða er þó til þess að gera því heldur betri skil og að taka um leið til athugunar önnur fræðiheiti, sem notuð eru um skyld eða tengd fyrirbæri. Íðorðasafn lækna notar íslenska heitið stig um score, en í pistlinum var stungið upp á því að nota fremur hvorugkynsnafnorðið skor, með ákveðnum greini skorið. Tilgreint var fordæmi úr golfi.

Score mun vera komið úr miðensku og merkti upphaflega skora, vik eða rispa. Oft var fylgst með talningu á þann hátt að skorur voru skornar í tré eða rispur gerðar í harða hluti. Á þann hátt er talið að enska nafnorðið score hafi einnig fengið merkingarnar: niðurstöður talningar eða reikninga, og stigatala í spilum eða leik. Íslensk orðabók Máls og menningar telur upp ýmsar merkingar kvenkynsnafnorðsins skor, meðal annars tuttugu af einhverju, einingar í íþróttakeppni og undirdeild í skóla. Ríkisspítalar eru meðal þeirra stofnana sem nota heitið skor um undirdeild. Rétt er einnig að nefna að kvenkynsnafnorðið skor er notað í líffærafræði til þýðingar á latneska heitinu sulcus. Hér er hins vegar ítrekuð fyrrgreind uppástunga þess efnis að hvorugkynsnafnorðið skor verði tekið upp sem heiti á þeim tölulegu niðurstöðum sem á ensku eru táknaðar með score.



Kóði

Í vefjameinafræði eru einnig notuð sérstök táknkerfi fyrir samræmda skráningu sjúkdóms- og vefjagreininga. Kerfið, sem notað er hér á landi, er hannað með hliðsjón af tölvuvinnslu og ber stuttheitið SNOMED (Systematized Nomenclature of Pathology and Medicine). Þar eru bókstafir notaðir til að aðgreina meginflokka tákna, svo sem tákn fyrir skurð- eða sýnistökuaðgerðir, staðsetningu meins, meingerð, starfrænar breytingar, orsakir og sjúkdómsheiti. Í hverjum meginflokki eru síðan notaðar fjögurra eða fimm stafa talnaraðir til að tákna einstök fyrirbæri. Allar vefjagreiningar meinafræðinga eru þannig táknsettar til tölvuskráningar.

Á amerísku hefur það athæfi að táknsetja vefjagreiningar samkvæmt þessu kerfi verið nefnt coding og táknaröð hverrar vefjagreiningar code. Íðorðasafn lækna birtir þrjár tillögur að þýðingu á code: lykill, táknmál eða táknróf. Nú má hins vegar lesa í Ensk- íslenskri orðabók Arnar og Örlygs að sögnin to code merki í tölvutækni að táknsetja eða að kóða. Á sama hátt er nafnorðið code í tölvutækni þar þýtt sem táknróf eða kóði. Nefna má að slettan "kódi" er algeng þar sem fjallað er um táknróf og kóða. Athyglisvert er hins vegar að Tölvuorðasafn Íslenskrar málnefndar frá 1986 notar heitið kóti og tilgreinir sögnina að kóta. Undirritaður hefur notað heitið kóði um nokkurt árabil, finnst það fara vel og leggur til að það verði tekið inn í Íðorðasafn lækna í merkingunni: tákn eða táknaraðir sem notaðar eru við skráningu sjúkdómsgagna.

FL 1994; 12(7): 7
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica