Íðorðapistlar 1-130

077-Fæðingarblettur

Í 58. pistli var kvartað undan endurtekinni misritun á líffærisheitinu botnlangi á vefjarannsóknarbeiðni, sem undirrituðum barst í hendur á vinnustað sínum. "N"-ið hafði verið fellt niður þannig að ritað var "botlangi". Óskýrum framburði var um kennt en auðvitað hefur einnig verið um að ræða ófullnægjandi þekkingu á íslensku máli og á uppruna heitisins. Nýlega hefur einnig borið á því að heitið fæðingarblettur hefur verið misritað "fæðingablettur" ("r"-ið fellt burt). Óskýrum framburði má ef til vill um kenna, en er þetta vísbending um það sem koma skal?

Undirrituðum er ekki kunnugt um það hversu gamalt heitið fæðingarblettur er. Í gagnasafni Orðabókar Háskólans má finna dæmi frá síðustu öld. Fæðingarblettur er uppflettiorð í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og í Íslenskum læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar frá 1954 og er rithátturinn þar sá sami. Sigfús þýðir með danska heitinu modermærke og Guðmundur tilgreinir latneska heitið naevus. Íslensk orðabók Menningarsjóðs frá 1992 segir að fæðingarblettur sé móleitur hörundsblettur sem barn er fætt með. Lýsing Íslensku alfræðiorðabókarinnar frá 1990 á fæðingarbletti er víðtækari, góðkynja húðgalli, stundum meðfæddur en kemur oft fram síðar. Þar er einnig tilgreint að fæðingarblettir séu ýmist litarefnisblettir eða æðablettir. Í Íðorðasafni lækna kemur fram að fæðingarblettur sé þýðing á latneska heitinu naevus og á enska heitinu birthmark.



Nevus

Í læknisfræðiorðabók Stedmans frá 1995 má lesa að notkunarsvið heitisins nevus (ritað á ameríska vísu) geti verið talsvert vítt. Þar segir að nevus sé annað hvort afmörkuð húðbreyting, vansköpun (malformation), gerð úr húðþekjufrumum, húðfærafrumum, sortufrumum, æðafrumum eða bandvefskímfrumum, eða góðkynja húðmein sem stafar af afmörkuðum ofvexti í sortufrumum, meðfætt eða tilkomið síðar. Þá eru tilgreind nærri 60 mismunandi heiti þar sem nevus kemur fyrir í samsetningu.

Húðmeinafræði Levers frá 1983 leggur til að heitið nevus sé notað þannig að eitt sér vísi það í meinsemdir gerðar úr sortufrumum, nánar tiltekið eingöngu þær sem latnesku samheitin nevus pigmentosus, nevus nevocellulare og nevus melanocyticum eiga við um (sjá leiðréttingu í pistli 79). Sé ætlunin að vísa í aðrar meðfæddar húðbreytingar skuli fylgja lýsingarorð sem gefi nánar til kynna hvað við er átt, til dæmis nevus verrucosus, vörtubrá, eða nevus flammeus, valbrá.

Rétt er að vekja athygli á því að starfshópur Orðanefndar hefur nú breytt íslenska heitinu á nevus pigmentosus úr litbrá í sortublett og á sama hátt heitinu á nevus vasculosus úr roðabrá í æðablett (sjá Íðorðasafnið bls. 324 og Fósturfræðiheitin bls. 144). Mörg önnur heiti á meðfæddum húðmeinsemdum verða að bíða betri tíma.

Receptor

Latneska sögnin recipio er meðal annars notuð um það að taka við einhverju, en af henni er heitið receptor dregið. Læknisfræðiorðabók Stedmans gefur tvær útskýringar: 1. prótínsameind á yfirborði frumu eða í frymi sem bindur sértækt efni, svo sem hormón, mótefni eða taugaboðefni og 2. endi skyntaugar í húð, djúpum vefjum, líffærum eða skynfærum. Íðorðasafnið gefur tvö íslensk heiti á receptor: 1. nemi, 2. viðtaki.

Undirrituðum sýnist að heitið viðtaki hafi náð fótfestu sem heiti á yfirborðssameindinni í máli þeirra lækna sem á annað borð hafa með hugtakið að gera í daglegu starfi. Engu að síður tókst ekki að koma því inn í Vefjafræðiheitin (sjá bls. 131). Gaman væri að heyra frá þeim sem vilja láta sig málið varða. (Þau sem eru tengd við Alnetið geta notað netfangið: johannhj@rsp.is.)



Specificity

Í tengslum við yfirlestur á orðalista í öldrunarfræðum kom þetta orð til skoðunar. Orðabók Aldamóta tilgreinir þýðinguna: það að vera sérstakur. Íðorðasafn lækna gefur þýðinguna sértæki án frekari skilgreiningar, en ýmsir læknar virðast hafa notað heitið sértækni. Baldur Jónsson hjá Íslenskri málstöð taldi hvorugt orðið rétt myndað og vísaði í Orðasafn úr tölfræði sem kom út 1990. Þar kemur specificity að vísu ekki fyrir, en í staðinn má finna þar significance, marktekt. Tæki er notað um tól, áhöld og vélar og tækni um verkgreinar eða verkkunnáttu, en tekt um það að taka. Verðum við nú ekki að taka mark á sérfræðingum í málvísindum og tölfræði og nota heitin marktekt og sértekt?

Lbl 1996; 82: 406
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica