Fræðigreinar

Svar við athugasemd vegna vísindagreinar

Höfundar þakka þeim Lúther Sigurðssyni og Úlfi Agnarssyni fyrir áframhaldandi áhuga þeirra á grein okkar, Algengar orsakir svefnröskunar hjá íslenskum börnum sem gangast undir svefnrannsókn.

Við viljum árétta, eins og segir í svari okkar til þeirra LS og ÚA í Læknablaðinu, 11 tölublað, 87 árg., 2001: "Ef ekki komu fram tengsl vélindabakflæðis við óreglu á öndunarmunstri, lækkun á súrefnismettun eða röskun á svefnstigum var rannsóknin talin eðlileg og barnið ekki meðhöndlað." Niðurstöður rannsóknarinnar sýna hins vegar að þessi tengsl komu fram hjá nokkrum börnum sem höfðu sýrufall sem ekki náði niður í 4 á pH mæli, en allir mælar voru stilltir með skekkjumörkum sem eru innan við 0,05 á pH mæli (5%). Þessi börn svöruðu lyfjameðferð til jafnst við þau börn sem höfðu sýrufall sem náði niður fyrir 4 á pH mæli. Vel er þekkt að lyfjasvörun einstaklinga er afar breytileg, sumir svara ákveðnum lyfjum vel, aðrir ekki og sumir fá aukaverkanir en aðrir ekki. Ekki væri óhugsandi að næmi barna/sjúklinga við sýruáreiti gæti verið breytilegt líka; að minnsta kosti gefur rannsókn okkar til kynna að svo megi vera. Það væri því mikilvægt að rannsaka þessa hluti til hlítar áður en farið er að alhæfa að ekki sé til sjúklegt vélindabakflæði nema pH fari niður fyrir 4.

Eins og segir í niðurlagi greinar okkar: "Aðalmarkmið okkar með ritun vísindagreinarinnar er að vekja athygli á þeirri staðreynd að svefnraskanir eru algengar hjá börnum. Rétt er að leggja áherslu á að rannsóknir á svefnvandamálum barna eiga sér skamma sögu bæði hér á landi og erlendis. Þegar nægilegur fjöldi sjúklinga hefur verið rannsakaður og nægilegur tími hefur gefist til eftirfylgdar, er áformað að rannsaka nánar hverja orsök svefntruflunar sérstaklega, þar með talið kæfisvefn, vélindabakflæði, astma og blámaköst."

Fyrir utan að benda þeim LS og ÚA á að fyrirtækið Jansen er sama fyrirtækið og Johnson & Johnson, teljum við að faglegum athugasemdum við greinina sé svarað. Eins og þeir LS og ÚA benda réttilega á í niðurlagi bréfsins var það ætíð ætlun okkar af fjalla á ítarlegri hátt um efnið í framtíðargreinum. Ekki efumst við um að þær greinar hljóti réttmæta ritrýni af fagaðilum.



Hákon Hákonarson

sérfræðingur í lungna- og öndunarfærsjúkdómum barna

Árni Þórsson

sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum barna

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica