Umræða fréttir

Ungir ökumenn og slys

Ungir ökumenn

og slys



Í tímariti bandarísku læknasamtakanna, JAMA, hefur að undanförnu verið deilt um þátt ungra ökumanna í alvarlegum umferðarslysum. Kveikjan að umræðunni eru tillögur lækna um að setja hömlur á akstur ungmenna undir 18 ára, þannig að þeim sé bannað að aka einir í bíl eða með jafnöldrum eingöngu. Sömuleiðis að þeim sé bannað að aka frá miðnætti til kl. fimm á morgnana. Ökumennirnir sem um ræðir eru á aldrinum 16-18 ára (auk 15 ára ökunema) og ekki er deilt um hlut þeirra í alvarlegum slysum, heldur mögulegar orsakir og heppileg úrræði. Annars vegar hefur verið bent á að ungir ökumenn séu að öðru jöfnu á eldri og lélegri bílum en hinir eldri, hins vegar að rannsóknir sýni að orsakir slysanna liggi í reynsluleysi og glannaskap sumra ungu ökumannanna. Í Kaliforníu hafa verið gerðar tilraunir til að takmarka akstur ungra ökumanna með fyrrgreindum hætti og sumir vilja draga þá ályktun af reynslu þeirra að þessi úrræði dugi skammt og slysatíðni hafi jafnvel aukist. Aðrir benda á að of stutt sé síðan takmarkanirnar voru settar á til að draga megi ályktanir af þeim og eins að fjöldi ungra ökumanna hafi flýtt sér að fá ökuleyfi áður en lögin tóku gildi. Fjölgun á slysum eftir setningu laganna sé því í beinu hlutfalli við fjölgun í hópi yngstu ökumannanna. Rannsóknir í Bandaríkjunum, Kanada og á Nýja Sjálandi benda raunar flestar til þess að tilraunir sem þar hafa verið gerðar til að veita ökuréttindi með takmörkunum og í áföngum hafi heppnast vel.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica