11. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Lýðræðislegra Læknafélag Íslands. Þorbjörn Jónsson

Á síðasta aðalfundi Læknafélags Íslands var samþykkt  breytingartillaga stjórnar á lögum félagsins varðandi stjórnarkosningar. Framvegis mun öllum fullgildum félagsmönnum í Læknafélagi Íslands, meira en 1100 læknum, gefast kostur á taka þátt í rafrænni atkvæðagreiðslu við val á formanni og öðrum stjórnarmönnum. Kosið verður í fyrsta skipti samkvæmt þessum nýju reglum haustið 2017. Þá verða kosnir formaður félagsins, gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur. Með þessari breytingu er horfið frá því sem verið hefur við lýði undanfarna áratugi, að einungis tilnefndir aðalfundarfulltrúar, 70-80 læknar samtals, kjósi stjórnarmenn félagsins.

Aðdragandi þessara breytinga er alllangur. Á aðalfundi Læknafélags Íslands haustið 2014 var eftirfarandi ályktunartillaga samþykkt:

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn 25. og 26. september 2014 að Hlíðasmára í Kópavogi, felur stjórn félagsins að skipa fimm manna nefnd til að gera tillögur um hvernig heildarskipulagi læknasamtakanna verði best fyrir komið til framtíðar. Sérstaklega verði hugað að aðildarfélögunum og stöðu þeirra, fyrirkomulagi aðalfundar og kosningum til æðstu embætta félagsins. Nefndin skal leggja tillögur sínar fyrir stjórn félagsins eigi síðar en 1. febrúar 2016.

Snemma árs 2015 skipaði stjórn Læknafélags Íslands 5 manna starfshóp, undir forystu Magnúsar Páls Albertssonar bæklunarlæknis, sem vinna átti að tillögugerð í anda ofangreindrar ályktunar. Nefndin skilaði áliti í ágúst 2016 og voru tillögurnar kynntar fyrir læknum á sérstöku málþingi sem haldið var í tengslum við aðalfundinn 2016. Ekki voru að þessu sinni lagðar fyrir aðalfundinn heildstæðar tillögur um breytingar á Læknafélagi Íslands. Var það bæði vegna tímaskorts og þess að talin var þörf á víðtækri umræðu um málið. Þess vegna var það mat stjórnar að eðlilegast væri að hún beitti sér fyrir breytingum á kosningareglum félagsins, það væri gott upphafsskref. Stjórn Læknafélags Íslands telur að nýju reglurnar um stjórnarkjör séu lýðræðislegri en eldri reglur og að þær séu í góðu samræmi við óskir lækna. Að auki eru þær í takti við það sem önnur stéttarfélög gera varðandi stjórnarkjör.

Rafræn kosning á að fara fram með góðum fyrirvara fyrir aðalfund og niðurstaðan skal tilkynnt á aðalfundi, í fyrsta sinn haustið 2017. Meðal nýmæla sem af þessum breytingum leiða má nefna að stjórn Læknafélags Íslands hættir að stilla upp „lista stjórnar“ eins og gert hefur verið hingað til. Á þeim lista hafa verið þeir læknar sem sitjandi stjórn leggur til að stýri félaginu á komandi kjörtímabili. Þess í stað mun stjórn félagsins skipa þriggja manna kjörnefnd sem hefur það hlutverk með höndum að auglýsa eftir framboðum og halda utan um framkvæmd kosninganna.

Eins og fram kemur í  aðalfundarályktuninni frá 2014 er nýtt kosningafyrirkomulag einungis ein af þeim breytingum sem stefna skal að á næstunni. Annað sem huga þarf að er breytt fyrirkomulag aðalfundar. Á að hverfa frá fulltrúafyrirkomulaginu og hafa í staðinn opinn aðalfund þar sem allir félagsmenn sem mæta hafa jafnan tillögu- og atkvæðisrétt?  Eða er ástæða til að ganga alla leið og gera öllum læknum kleift að taka þátt í aðalfundarstörfum með rafrænum hætti og jafnframt að greiða atkvæði um framkomnar tillögur? Slíkt fyrirkomulag væri nýstárlegt því hingað til hefur hin almenna regla verið talin sú að félagsmenn eða fulltrúar þeirra þurfi að vera á aðalfundi til að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Hver sem niðurstaðan verður þarf að meta af yfirvegun kosti og galla ólíkra aðferða áður en ákvörðun er tekin.

Að mínu mati er það nauðsynlegt næsta skref að skoða grunnuppbyggingu Læknafélags Íslands. Núverandi skipulag byggir á svæðafélögum. Þetta fyrirkomulag hefur í stórum dráttum verið óbreytt frá þeim tíma þegar læknar á Íslandi voru tiltölulega fáir og búsetudreifing þeirra önnur en hún hefur orðið á seinni árum. Nú eru flestir læknar búsettir á höfuðborgarsvæðinu og starfa þar og eru þess vegna í Læknafélagi Reykjavíkur. Læknar gerast ekki beint félagar í Læknafélags Íslands heldur verða þeir það í gegnum sitt svæðafélag (til dæmis í gegnum aðild að Læknafélagi Reykjavíkur, Læknafélagi Vesturlands og svo framvegis). Ég tel að skoða megi að læknar verði beint félagsmenn í Læknafélagi Íslands og þeir velji sér síðan sérgreinafélag og/eða hagsmunahóp, allt eftir því sem hverjum og einum hentar best. Dæmi um slíka hagsmunahópa lækna gætu verið sjúkrahúslæknar, stofulæknar, heimilislæknar, almennir læknar, læknar í dreifbýli og svo framvegis.

Á síðasta aðalfundi samþykktum við læknar tímamótabreytingar á fyrirkomulagi stjórnarkosninga í félaginu. Á næstu árum þurfum við að huga að frekari breytingum með það fyrir augum að styrkja Læknafélagið. Tryggja þarf að allar breytingar sem gerðar eru á skipulagi Læknafélags Íslands styrki og efli samtakamátt lækna sem stéttar. Kjarabarátta lækna veturinn 2014-2015 sýndi hversu mikilvæg samstaða lækna er og hversu miklu hún getur áorkað.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica