02. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Mælir afkastagetu lungna, hjarta og vöðva - dr. Jonathan Fuld frá Cambridge á Læknadögum

Á málþingi á Læknadögum um nýjungar í meðferð lungnasjúkdóma flutti dr. Jonathan Fuld frá Cambridge á Englandi erindi um notkun áreynsluprófa við greiningu á mæði.  


„Hlutverk okkar er oft og tíðum að hvetja og sannfæra sjúklinginn um að hann sé betur á sig kominn
en hann heldur sjálfur,” segja dr. Jonathan Fuld lungnasérfræðingur frá Cambridge og Dóra Lúðvíksdóttir lungnasérfræðingur á Landspítala.

„Áreynslupróf er rannsókn sem mælir afkastagetu lungna, hjarta og vöðva undir álagi. Prófið mælir álag á hjarta og æðakerfi, öndunarfæri og vöðva og nýtist til dæmis þegar meta á hvort sjúklingur er hæfur til að gangast undir skurðaðgerð eða meiriháttar inngrip af öðru tagi. Skurðaðgerð margfaldar álag á líkamann og fyrir veikburða gamalt fólk eða alvarlega veika sjúklinga er mikilvægt að meta fyrirfram hvort það ráði við slíkt inngrip,“ segir dr. Fuld.

„Við notum einnig prófið í þeim tilfellum þegar sjúklingur er haldinn mæði af óútskýrðum orsökum. Ef lungnamynd og öndunarmælingar eru eðlilegar eru allar líkur á því að sjúklingurinn sé ekki með alvarlegan lungnasjúkdóm. Engu að síður er mæðin til staðar og þá kemur prófið að góðum notum við að finna tengslin á milli hjarta, öndunar og vöðva.

Þá nýtist prófið einnig vel þegar um er að ræða sjúklinga með þekktan sjúkdóm eins og míturlokuleka eða langvinna lungnateppu og læknirinn vill vita hvað er best að gera. Hugsanlega er aðgerð á míturlokum nauðsynleg en prófið leiðir kannski í ljós að mæðin stafar af öðrum orsökum og þá mun aðgerð á míturlokum ekki gagnast sjúklingnum.“

Mæði er einstaklingsbundin upplifun

„Oft er talsvert misræmi á milli þess sem sjúklingurinn lýsir og þess sem kemur í ljós við áreynslupróf. Ég nefndi dæmi í fyrirlestrinum um konu sem kvartaði yfir mikilli mæði og sagðist ekki lengur geta gengið upp stigann heima hjá sér. Áreynslupróf leiddi hins vegar í ljós að hún réði við talsvert meira álag en gangan upp stiga útheimtir. Við sjáum stundum sjúklinga sem kvarta um mikla mæði en lungnamynd og öndunarmælingar sýna mun betri niðurstöður en búast mætti við af lýsingu sjúklingsins.“

Fuld segir skýringuna geta legið í því að sjúklingur sem fær hvatningu frá lækni eða sjúkraþjálfara getur oft reynt talsvert meira á sig en hann telur sig geta við aðrar aðstæður. „Þetta getur verið spurning um sjálfstraust og trú á að geta gert ýmislegt sem sjúklingurinn er hættur að treysta sér til að gera. Hlutverk okkar er oft og tíðum að hvetja og sannfæra sjúklinginn um að hann sé betur á sig kominn en hann heldur sjálfur. Flestir sjúklingar með langvinna lungnateppu sem mælast með fráblástursgetu (FEV1) upp á að minnsta kosti einn lítra eiga að geta sinnt flestum daglegum verkefnum án mikilla vandkvæða.

Mæði er afskaplega einstaklingsbundin upplifun og tveir sjúklingar sem mælast nákvæmlega eins á áreynsluprófi geta lýst mæði sinni á mjög ólíkan hátt. Þetta er eins og þegar sjúklingar lýsa verkjum. Áreynsluprófið eyðir þessu misræmi á milli líkamlegra einkenna og upplifunar af þeim. Önnur vandamál geta einnig átt sinn þátt eins og oföndun eða öndunar-óregla. Þá er hægt að aðstoða sjúklinginn við að ná betri tökum á önduninni og draga þannig úr mæðinni.“

Hreyfing í stað lyfjagjafar

Dóra Lúðvíksdóttir lungnasérfræðingur á lungnarannsóknarstofu Landspítala segir að áreynslupróf séu einkum gagnleg til að fá nákvæmari greiningu á vanda sjúklingsins og hvort lausnin sé fólgin í breyttri eða aukinni lyfjagjöf.

Jonathan Fuld tekur undir þetta og bætir við að stundum leiði áreynsluprófið í ljós að sjúklingurinn sé ekki eins illa haldinn og hann taldi sjálfur og því sé aukin lyfjagjöf ekki nauðsynleg.

Áreynsluprófið nýtist einnig að sögn Jonathans Fuld við eftirlit og meðferð hjartasjúklinga og er meðal annars notað til að mæla árangur af innsetningu gangráðs. „Prófið er einnig gagnlegt þegar meta á hvort sjúklingurinn þurfi á hjartaðgerð að halda, jafnvel hjartaígræðslu, og svo er það notað í tilfellum þar sem um bæði hjarta- og lungnasjúkdóm er að ræða og meta þarf hvor sjúkdómurinn kalli á frekari inngrip.“

Jonathan Fuld segir að lokum að við langvinna hjarta- og lungnasjúkdóma sé nákvæm mæling á getu öndunarfæra og hjarta- og æðakerfis forsenda fyrir öllum ákvörðunum  um meðferð og inngrip. „Viðeigandi hreyfing undir umsjón læknis og sjúkraþjálfara gagnast nánast alltaf og ég nota áreynsluprófið til að sannfæra sjúklinga mína um að það sé allt í lagi að gera líkamlegar æfingar til að styrkja sig. Oft er það stærsti þröskuldurinn fyrir sjúklinginn að stíga yfir en jafnframt sá mikilvægasti.“

Áreynslupróf sem mæla afkastagetu lungna, hjarta og vöðva eru framkvæmd á lungnarannsóknarstofu A-3 Landspítala, Fossvogi. Netfang: lungnarannsókn@lsh.is og sími 543-6040.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica