12. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Læknablaðið í sókn – nýjar leiðbeiningar til höfunda fræðigreina

Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlæknir á Landspítala prófessor við HÍ og situr í ritstjórn Læknablaðsins

doi: 10.17992/lbl.2011.12.399

Í þessu tölublaði Læknablaðsins eru birtar nýjar og endurbættar leiðbeiningar fyrir höfunda fræðigreina.1 Þær hafa nú verið endurskoðaðar frá grunni og flokkar fræðigreina endurmetnir, sem og viðmið um lengd, fjölda tilvísana og frágang myndefnis og taflna. Vinna við endurbæturnar hefur staðið í tæpt ár. Undirritaður hefur leitt þá vinnu en margir hafa lagt hönd á plóginn, bæði innan og utan ritstjórnar. Markmiðið er að styrkja blaðið í sessi sem alþjóðlegt vísindarit, enda er Læknablaðið nú skráð í helstu gagnagrunna vísindatímarita á sviði lífvísinda. Tekið hefur verið mið af höfundaleiðbeiningum vísindarita eins og New England Journal of Medicine, Lancet, JAMA og British Medical Journal.

Helstu áherslubreytingar

  • Flokkar fræðigreina hafa verið einfaldaðir og lengdartakmarkanir hvers flokks eru nú gefnar upp í fjölda orða í stað slaga áður. Á það bæði við um ágrip (hámark 250 orð fyrir vísindagreinar) og meginmál greina (hámark 3000 orð fyrir vísindagreinar og 5000 orð fyrir yfirlitsgreinar). Hverjum flokki fylgja ítarlegri leiðbeiningar en áður um efnistök og frágang texta.
  • Fjöldi heimilda í hverjum flokki hefur verið endurskoðaður, til dæmis er hann að hámarki 30 í vísindagreinum í stað 25 áður. Hámarksfjöldi tilvísana er sem fyrr 60 í yfirlitsgreinum á pappír, en í netútgáfu gefst höfundum kostur á birtingu fleiri heimilda.
  • Frágangur heimilda er nokkuð breyttur. Greint er frá nöfnum allra höfunda nema þeir séu fleiri en sex, þá er bætt aftan við sjötta nafnið et al. Þegar vitnað er í íslenskar vísindagreinar eru nöfn höfunda skrifuð samkvæmt enskri ritvenju. Heiti greinar og Læknablaðsinser þó sem fyrr á íslensku. Vinnustaðar og háskólatengsla skal nú getið bæði á ensku og íslensku. Með þessum breytingum er leitast við að gera leit í alþjóðlegum gagnagrunnum eins og PubMed og Web of Science auðveldari og tryggja að greinin sé tengd réttum háskóladeildum.
  • Kröfur til yfirlitsgreina eru auknar. Höfundar verða nú að gera grein fyrir því hvernig heimildir voru fundnar í rafrænum gagnagrunnum. Einnig er lögð áhersla á að stuðst sé við ritrýndar heimildir.
  • Flokkar sjúkratilfella, sem áður voru sjúkratilfelli annars vegar og hins vegar sjúkratilfelli með yfirliti, hafa verið sameinaðir í einn flokk.
  • Nýtt og ítarlegra eyðublað er komið í stað tveggja eldri eyðublaða um hags-munatengsl og höfundayfirlýsingu. Lögð er áhersla á að eyðublaðið berist um leið og greinin er send til blaðsins. Eins og áður verða allir höfundar að afsala sér birtingarrétti til Læknablaðsins og gefa upp hugsanleg hagsmunatengsl. Jafnframt verða allir höfundar að greina frá framlagi sínu til rannsóknarinnar og/eða ritun greinarinnar. Þessar áherslur taka mið af breyttum kröfum erlendra vísindarita.
  • Skerpt hefur verið á reglum varðandi tvíbirtingu fræðigreina. Almennt er gerð sú krafa að efnið hafi ekki birst í öðrum vísindaritum. Einstaka undantekningar eru frá þessari meginreglu og er  tvíbirting aðeins möguleg í samráði við ritstjórn Læknablaðsins ef sérstakar ástæður þykja fyrir birtingunni. Þá verður að liggja fyrir skriflegt leyfi frá ritstjóra þess blaðs þar sem greinin birtist fyrst.
  • Öllum fræðigreinum skal fylgja bréf til blaðsins þar sem höfundar rökstyðja í stuttu máli af hverju greinin á erindi í Læknablaðið. Nú verður einnig að geta númera á leyfum og/eða tilkynningum vegna rannsókna, til dæmis frá Vísinda-siðanefnd og Persónuvernd. 
  • Ekki þarf lengur að tilgreina lykilorð á íslensku, heldur aðeins á ensku.
  • Lögð er mikil áhersla á að samræma útlit myndefnis. Því eru sýnd dæmi um uppsetningu á töflum og myndum sem æskilegt er að fylgja. Texti við töflur og myndir þarf að vera bæði á íslensku og ensku. Senda verður myndir í sérstakri jpg-skrá, ekki í Word-skjali. Heildarfjölda taflna og mynda hefur verið breytt og er hann nú 8 í vísindagreinum og 10 í yfirlitsgreinum.
  • Nú er stefnt að því að höfundar fái ritrýni í hendur innan þriggja mánaða frá því að handrit er sent til blaðsins. Hafi höfundum verið gefinn kostur á því að lagfæra handritið, með hugsanlega birtingu í huga, er nú miðað við að þeir hafi tvo mánuði til þess. Berist leiðrétt handrit ekki innan þess tíma, er litið svo á að höfundar hafi ekki lengur áhuga á birtingu greinarinnar í Læknablaðinu.

Læknablaðiðhefur verið gefið út samfellt í tæpa öld og er á meðal elstu vísindarita á Íslandi. Ritstjórn hefur lagt mikla áherslu á að fylgja í hvívetna reglum alþjóðlegra læknatímarita um birtingu fræðigreina,2 ekki síst til að tryggja að innsendar fræðigreinar hljóti faglega og óhlutlæga umfjöllun sérfræðinga. Blaðið er í stöðugri þróun og er það von mín og annarra í ritstjórn að þessar nýju leiðbeiningar muni styrkja blaðið enn frekar í sessi og verði sem flestum hvatning til að senda fræðigreinar í blaðið.

 

  1. Gudbjartsson T, Gunnarsdottir A, Sigurdsson E. Leiðbeiningar fyrir höfunda fræðilegs efnis í Læknablaðinu. Læknablaðið 2011; 97: 699-704.
  2. www.icmje.org  - nóvember 2011.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica