05. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Stórslys norðan við Blönduós - æfing læknanema

Félag læknanema stóð fyrir stórslysaæfingu laugardaginn 9. apríl með þátttöku Björgunarsveitarinnar Ársæls á Seltjarnarnesi og Hjálparsveitar skáta í Garðabæ. Að sögn Mörtu Berndsen, 5. árs læknanema og formanns kennslu- og fræðslumálanefndar Félags læknanema, tókst æfingin mjög vel og var lærdómsrík fyrir þátttakendur.


u08-fig1
Þessi var flokkaður grænn og gat því leyft sér að brosa.

Slysið var sviðsett þannig að rúta full af farþegum hefði farið út af rétt norðan við Blönduós og læknarnir þurftu að vera í sambandi við þyrlu og björgunarfólk um flutning og umönnun hinna slösuðu af slysstað og á söfnunarsvæði slasaðra sem var Slökkvistöðin í Hafnarfirði. Notast var við gamlan strætisvagn sem slysavettvanginn.

Stór hópur læknanema tók þátt í æfingunni, 1. árs nemar léku hina slösuðu, 2. og 3. árs nemar sáu um flutning sjúklinganna inn á söfnunarsvæðið í Slökkvistöðinni, þar sem 4. árs nemar mátu áverka en þeir sinntu einnig áverkamati á slysstað. Fimmta árs nemarnir veittu þeim slösuðu fyrstu meðferð og ákváðu síðan hvert skyldi senda hina slösuðu til frekari meðferðar og voru í sambandi við sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri.
u08-fig2
Hér þarf að hafa hraðar hendur og bjarga hinum slasaða undan rútunni.

„Þetta voru um 25 manns sem höfðu slasast og við notuðumst við slysaæfingaráætlun sem Björgunarsveitin Ársæll átti, en þetta gengur þannig fyrir sig að hinum slösuðu er skipt í flokka, grænan, gulan og rauðan eftir alvarleika áverkanna. Alvarlegustu áverkarnir voru loftbrjóst, hryggbrot og kviðarholsáverkar og við fylgdumst grannt með hvernig meðferð sjúklinganna tókst,“ segir Marta. Við undirbúninginn nutu læknanemarnir leiðsagnar Brynjólfs Mogensen yfirlæknis á bráðasviði Landspítala.

u08-fig3
Ástand og áverkar hins slasaða skrásettir.

Æfingin var haldin tvisvar til að tryggja sem bestan árangur og nýta tækifærið til fulls. „Í fyrra rennslinu misstum við einn sjúkling á slysstaðnum en í því seinna tókst að bjarga honum svo það var sannarlega þess virði að endurtaka hana. Tilgangurinn með þessu er að fá æfingu í að bregðast við svona slysi og kynnast vinnubrögðum björgunarsveitanna. Fimmta árs læknanemar eru á leiðinni út á land í námi sínu og þeim þykir gott að fá innsýn í þetta, því margir kvíða því að standa einir vaktina úti í héraði. Þetta róar taugarnar,“ segir Marta Berndsen læknanemi.

u08-fig4
Þessi þarf að komast á sjúkrahús eftir fyrstu aðhlynningu.

u08-fig5
Alvarleiki málsins er ótvíræður.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica