02. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Háskóla Íslands afhent málverk af Kristínu Ólafsdóttur

Við setningu Læknadaga 2011 færði Lilja Sigrún Jónsdóttir, formaður Félags kvenna í læknastétt, Háskóla Íslands að gjöf málverk af Kristínu Ólafsdóttur í tilefni af 100 ára afmæli skólans og læknadeildar á þessu ári. Kristín Ólafsdóttir var fyrsta konan sem lauk námi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og var jafnframt fyrsta konan sem hóf nám við skólann og lauk þaðan prófi.

Kristín Ingólfsdóttir rektor háskólans veitti málverkinu viðtöku og þakkaði Félagi kvenna í læknastétt, Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur og Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar fyrir rausnarlega gjöf og kvað það myndu prýða fyrstu hæð aðalbyggingar skólans.

Kristín Ólafsdóttir fæddist 1889 og lést 1971. Hún innritaðist í læknadeild haustið 1911 og lauk námi 1917. Hún starfaði sem læknir á Ísafirði frá 1917-1931 og eftir það sem heimilislæknir í Reykjavík og tók virkan þátt í samfélagsmálum á sviði barnaverndar og húsmæðrafræðslu. Hún var mikilvirkur þýðandi ýmissa ævisagna og rita um heilbrigði og heilsufar og ritaði ennfremur kennslubækur á því sviði.

Myndina málaði Guðmundur Karl Ásbjörnsson árið 2008 eftir ljósmynd af Kristínu Ólafsdóttur tvítugri.

sida3mynd





Þetta vefsvæði byggir á Eplica