01. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Minningarorð: Hrafnkell Helgason 1928-2010

Ég sá Hrafnkel Helgason fyrst árið 1971. Hann var þá í kynnisferð um Bandaríkin í fylgd með vini sínum og kollega, Ólafi Jónssyni. Ólafur hafði stundað framhaldsnám í meltingarsjúkdómum við Duke University, þar sem ég starfaði þá, og vildi koma aftur á fornar slóðir. Þeir félagar ræddust við án allrar tæpitungu og ókunnugir hefðu getað haldið þá svarna óvini. En ég þekkti þennan talsmáta vel úr eigin vinahópi og vissi sem var að svona gátu bara vildarvinir talað saman. Ég gleymi ekki glottinu á Hrafnkatli þegar hann sagði frá fundi þeirra Ólafs og prófessor Ruffins, sem hafði verið lærifaðir hans og stjórnaði í áratugi meltingardeildinni við Duke. Ruffin hefði fyrst kveikt þegar minnst var á Drífu, konu Ólafs, en eftir Ólafi hefði hann ekkert munað! Þessa lotu vann Hrafnkell, en ekki leið á löngu þar til Ólafur hafði jafnað metin. Á þessum árum var North Carolina í „biblíubelti“ Bandaríkjanna og vínveitingar ekki leyfðar á veitingahúsum. Hins vegar þótti sjálfsagt að maður hefði með sér brjóstbirtu í brúnum poka og léti þjóninn vita, sem strax kom með viðeigandi glös. Töldu þeir félagar að þennan sið mætti gjarnan taka upp á Íslandi. Snemma næsta árs fékk ég svo bréf frá Hrafnkatli þar sem hann bauð mér sérfræðingsstöðu á Vífilsstöðum, sem ég þáði eftir nokkra umhugsun. Man ég að mörgum vinum mínum á Duke þótti það skrítin ákvörðun, en þeir sem hitt höfðu Hrafnkel skildu þetta betur.

Við tóku skemmtilegustu ár ævi minnar og ég held að Hrafnkell hefði getað sagt það sama. Þegar hann tók við sem yfirlæknir á Vífilsstöðum nokkrum árum fyrr, hafði enginn eiginlega vitað hvaða starfsemi ætti að fara þar fram. Hann fullyrti að ef hann hefði lagt til að þetta yrði hvíldarheimili fyrir prestsekkjur hefði því verið vel tekið. Hrafnkell hafði lært sín fræði undir handarjaðri Gösta Birath, yfirlæknis á lungnadeild háskólasjúkrahússins í Gautaborg. Deildin var til húsa í Renströmska sjukhuset, sem hafði áður verið berklahæli, og var rekin í nánum tengslum við Sahlgrenska sjukhuset. Þetta hafði gefist mjög vel og Hrafnkell vildi koma á sams konar kerfi hér. Vífilsstaðir skyldu hýsa  legudeildir þar sem lungnasjúklingar fengju meðferð og langveikir sjúklingar endurhæfingu og langtímavistun ef þyrfti. Á lyfjadeild Landspítalans færi öll flóknari sjúkdómsgreining fram og þar lægju bráðveikir sjúklingar sem jafnvel gætu þurft á gjörgæslu að halda. Þetta voru góðir tímar. Það var áhugi á framförum og gekk bara vel að ná í peninga. Tæki voru keypt og húsnæði lagfært. Hrafnkell var feikn duglegur að tala til ráðamenn, hvort sem var í stjórn spítalans eða heilbrigðisráðuneytinu, og árið 1976 höfðu flestar þessar áætlanir gengið eftir. Ég er sannfærður um að Hrafnkell hefði getað orðið snjall stjórnmálamaður hefði hann viljað. Hann trúði mér þó fyrir að hann væri ekki stefnufastur í pólitík, hefði kosið marga flokka, þó aldrei Kvennalistann! Faðir hans hafði lengi setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og náfrændi hans og vinur, Einar Ágústsson, var um þetta leyti varaformaður flokksins. Framsóknarmenn vildu því eigna sér Hrafnkel og vinur hans og bekkjarbróðir, Jón Skaftason, fékk hann til að skipa heiðurssætið á lista Framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi. Jón hafði þá setið á þingi í 19 ár og talinn öruggur um endurkjör, en nú brá svo við að hann féll! Ekki löngu síðar hitti Hrafnkell Matthías Bjarnason heilbrigðisráðherra, sem bað hann endilega um að fara fram á Vestfjörðum næst. Hann þyrfti svo að losna við hann Denna! Svona tilsvör kunni Hrafnkell vel að meta, og eftir það mátti ekki orðinu halla á Matthías svo að hann kæmi ekki honum til varnar. Þess má einnig geta að vinur hans, Ólafur G. Einarsson, bað hann einhverju sinni að vera á lista hjá sér. Hrafnkell sagði að það væri velkomið, hann kysi þá fyrsta sætið. Lauk svo því tali!

u10
Vatnslitamynd af Hrafnkatli eftir Guðmund Bjarnason barnaskurðlækni.


Hrafnkell hafði hlotið mjög góða menntun í Svíþjóð. Gösta Birath var heimsþekktur vísindamaður, en var einnig góður klínikker og lagði mikið uppúr að læknar kæmu vel fram við sjúklinga. Hann var trúhneigður maður, siðavandur en þó víðsýnn. Eitt sinn kom hjúkrunarkona  að máli við Hrafnkel og var nokkuð niðri fyrir. Hún hafði heyrt um íslenskan lækni, sem hún taldi vera hann, sem alltaf væri að heimsækja hjúkrunarkonu þarna í nágrenninu. Hún sagði að vitanlega kæmi sér þetta ekkert við, en vildi láta hann vita að ef Birath kæmist að þessu væri veru hans á sjúkrahúsinu lokið. Hrafnkell vissi sig alsaklausan og tók konan þá aftur gleði sína. Til marks um hvað Hrafnkell virti og dáði Birath hékk alltaf mynd af honum á vegg á skrifstofu hans á spítalanum.

Fljótlega eftir heimkomuna varð Hrafnkell lektor og síðan dósent við læknadeild og kenndi stúdentum lungnasjúkdóma allt til starfsloka. Hann var kennari af guðs náð og eins og allir slíkir hafði hann mjög gaman af kennslunni. Kom alltaf vel undirbúinn og það var kátt í tímum hjá honum. Eftir að stúlkum fór mjög að fjölga í hópi stúdenta fór hann gjarnan í upphafi kennslu með vísu Staðarhóls-Páls:

Lítið er lunga

í lóuþrælsunga,

þó er mun minna

mannvitið kvinna.

Risi einhver þeirra hressilega til varnar var tilganginum náð!

Utan læknisfræðinnar átti Hrafnkell mörg áhugamál. Hann var mjög vel að sér í fornsögum og kunni Njálu og Sturlungu nánast utanbókar. Þegar ég sá Sturlungueintak Hrafnkels skildi ég til fulls hvað er að lesa bók upp til agna. Hann lifði sig alveg inní Sturlungaöldina og tók einarða afstöðu með og á móti mönnum. Fegurstu og gagnorðustu ástarsögu Íslandssögunnar taldi hann viðbrögð Sturlu Sighvatssonar eftir Sauðafellsför: „Sturla spurði, hvárt þeir gerðu ekki Solveigu. Þeir sögðu hana heila. Síðan spurði hann einskis.“ Þórður Kakali var hans eftirlætispersóna. Þegar átti að fara að leyfa sterkan bjór á Íslandi mun einhver andstæðingur þess hafa rifjað upp örlög Þórðar Kakala og talið hann hafa drukkið sig í hel. Þá var Hrafnkatli nóg boðið og ritaði skelegga grein í Tímann þar sem hann hrakti þessa kenningu sterkum rökum og sagði margt fallegt um Þórð.1

Líklega er ekki algengt að svo rösklega sé tekinn upp hanski fyrir mann sem legið hefur meira en 700 ár í gröf sinni. Njála var honum einnig mjög kær og leiðsögn hans um Njáluslóðir verður öllum sem hennar nutu ógleymanleg. Um miðbik ævinnar fór hann hvert sumar langar ferðir um óbyggðir landsins á jeppum með nánum vinum sínum og naut þess mjög. Hann stundaði um tíma talsvert laxveiði og skotveiði, en missti áhuga á því þegar leið á sjötugsaldurinn. Hann taldi sig vita að gæsir lifðu í ævilöngu hjónabandi og hann minntist þess að eitt sinn er hann hafði skotið gæs settist makinn hjá henni og var eins og hann beiddist sömu örlaga. Það kann að hafa haft einhver áhrif. Hann einbeitti sér hins vegar að fuglaskoðun og átti sér til þess forláta kíki.

Kíkir þessi átti sér nokkra sögu, sem nú skal sögð. Árið 1990 missti Hrafnkell skyndilega fyrri konu sína, Helgu Lovísu Kemp, sem varð honum slíkur harmdauði að lá við að hann missti fótfestu í lífi sínu. Við hjón lögðum þá að honum að koma með okkur í stutta skemmtiferð til Þýskalands ef það mætti verða honum til hressingar. Fararstjóri í þessari ferð var Sigrún Aspelund. Þátttakendur í ferðinni komu í tvennu lagi til Lúxemburgar með dags millibili. Hrafnkell hafði bókað seint og kom degi á eftir okkur hjónum, og var gert ráð fyrir að fyrri hópurinn færi heim um Lúxemburg en hinn um Frankfurt. Við heimför krafðist Hrafnkell að verða samferða okkur, en fararstjórinn gat ekki orðið við þeirrri ósk. Hann brást hinn versti við en fararstjórinn spurði af hverju þetta skipti hann svona miklu máli. „Ég skal segja þér það frú mín góð, að það mun kosta mig 1000 dollara að fara heim um Frankfurt.“ „Hvaða vitleysa er þetta, það kostar þig nákvæmlega ekki neitt,“ svaraði Sigrún. „Eins og ég viti það nú ekki!  Ég var í Frankfurt nýlega og þar var kíkir sem kostaði 1000 dollara og ég gat stillt mig um að kaupa hann, en nú veit ég að ég get það ekki.“ Við heimkomuna skrifaði hann harðort kvörtunarbréf til Samvinnuferða út af fararstjóranum, sendi henni að vísu afrit og bauð henni út að borða! Hinn 18. október 1997 voru gefin saman í Hvalsneskirkju Sigrún Aspelund og Hrafnkell Helgason. Sr. Önundur Björnsson gaf brúðhjónin saman. Viðstödd athöfnina vorum við hjón, sem vorum svaramenn, og synir þeirra Helgi Hrafnkelsson og Ríkarður Már Ríkarðsson. Brúðkaupsveislan var haldin í betri stofunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og sátum við hana fjögur sem vorum á leið á læknaþing í Mexíkó. Einu erfiðleikarnir voru að fá Helga Hrafnkelsson, sem ekkert vissi hvað til stóð, til að keyra út á Hvalsnes í staðinn fyrir að fara beint í flugstöðina!

Eftir að Hrafnkell fór á eftirlaun hóf hann lestur helstu og fegurstu rita heimsbókmenntanna af miklu kappi og skrifaði mjög skemmtilega grein um þá tómstundaiðju í Læknablaðið.2

Það er ekki auðvelt að lýsa Hrafnkatli þannig að fullnægjandi sé. Hann var engum manni líkur sem ég hef þekkt. Í útliti var hann glæsimenni, hár og þrekinn, laglegur, þó ekki smáfríður, og svipmikill. Það sópaði að honum, og hann skar sig úr hópnum hvar sem hann kom. Hann var vel máli farinn, orðheppinn svo af bar, allra manna skemmtilegastur. Einstakur sagnamaður sem lesa má í bókinni: Fimm læknar segja frá.3 Hann var frábær íslenskumaður og pennafær með afbrigðum. Hann var gleðimaður, kunni vel að meta skoskt viský, en ekkert sérstaklega vandlátur á tegundir. Ég minnist þess eitt sinn er við vorum á ferð í útlöndum að ég vildi fara inn á kaffihús og fá mér kaffi og rjómatertu, sem voru trakteringar sem hann kunni lítt að meta. Ég gleymi seint undrunarsvipnum á þjónustustúlkunni þegar hann spurði hvort hún ætti ekki skoskt viský. Eftir drykklanga stund kom hún þó með glas og Hrafnkell taldi innihaldið áfengt og minna eitthvað á viský. Bað hann um að fá að sjá flöskuna og neðst á miðanum með örsmáu letri var ritað: Made in Japan. Hrafnkell hló við og tæmdi í botn! Þótt hann neytti áfengis var það allt í hófi. Hann fylgdi fast þeirri reglu að smakka ekki áfengi fyrr en eftir kl. 17. Samþykkti þó að sú regla gilti ekki á flugstöðvum, og fyrir kom þegar ég gat þess að nú væri kl. 17 í ákveðinni borg, að hann féllst á það! Lengst af ævinnar reykti hann vindla og var ekki sérlega skemmt þegar ég taldi það skrítinn lungnalækni sem svo gerði. Honum tókst þó að hætta tæplega áttræður, en skömmu fyrir andlátið taldi hann ástæðulaust að neita sér um þetta lengur. Sendi hann Sigrúnu eftir vindlum og kveikti sér í. Í því bar þar að Eirík Jónsson lækni, sem umsvifalaust bað um vindil honum til samlætis. Hef ég fyrir satt að það hafi verið í fyrsta sinn sem Eiríkur reykti vindil!

Eins og áður var getið kunni Hrafnkell Sturlungu nánast utanað. Þegar Kristján Eldjárn lést minntist Gunnar Thoroddsen hans í sjónvarpi og vitnaði í Sturlungu. Hrafnkell kannaðist ekki við þessa tilvitnun en taldi þó útilokað að Gunnar færi rangt með. Hann fann orðin í formálanum. Það var eini kafli Sturlungu sem hann kunni ekki til hlítar! Þau verða kveðjuorð mín til hans: „Láti Guð honum nú raun lofi betri.“

Tryggvi Ásmundsson

  1. Helgason H. Föðurlandsvinur á Sturlungaöld. Til varnar Þórði Kakala. Tíminn 11.5. 1988: 9.
  2. Helgason H. Blindur er bóklaus maður. Læknablaðið 2005; 91: 468-9.
  3. Björnsson Ö. Fimm læknar segja frá. Setberg, Reykjavík 1995: 9-57.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica