01. tbl. 112. árg. 2026
Umræða og fréttir
„Þessi saga er merki um íslenska brjálsemi í sinni tærustu mynd“
Klíníkin Ármúla er læknamiðstöð þar sem framkvæmdar eru fjölbreyttar aðgerðir, bæði þar sem sjúklingar útskrifast samdægurs og einnig þær sem krefjast innlagnar. Þeir Hjálmar Þorsteinsson, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, Kristján Skúli Ásgeirsson, sérfræðingur í brjóstaskurðlækningum, og Hrólfur Einarsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum, komu í Læknavarpið og sögðu frá ferlinu við stofnunina, starfseminni og baráttunni við kerfið. Aðeins er unnt að grípa stuttlega niður í viðtalið hér og hvetjum við því til hlustunar á hlaðvarpið.
„Segja má að ferilinn hafi verið hálf ævintýralegur. Við vorum þrjú í þessu til að byrja með og vorum orðin sex þegar við gerðum okkar fyrstu aðgerðir haustið 2015, en þær voru gerðar á laugardögum því allir voru í raun að vinna annarsstaðar,“ segir Kristján Skúli, en hann fékk hugmyndina að Klíníkinni og blés í hana lífi ásamt fleirum.
Stutta sagan er sú að eftir að Kristján Skúli kom heim frá Englandi, þar sem hann nam sína sérgrein og starfaði, fór hann að vinna á Landspítalanum sem almennur skurðlæknir með áherslu á brjóstaskurðlækningar. „Ég var stöðugt að reyna að finna leiðir til þess að geta einbeitt mér algerlega að minni sérgrein. Upprunalega hugmyndin var að stofna sérhæfða stöð utan um brjóstaskurðlækningar, en mér datt jafnframt í hug að stofna vest-norræna brjóstamiðstöð og tengja þannig íslenska heilbrigðisþjónustu við Færeyjar og Grænland. Á þessum tíma, 2014, var svo verið að undirbúa það að breyta Broadway í læknamiðstöð. Ég kynnti mér þær hugmyndir sem pössuðu vel við það sem ég var að hugsa,“ segir Kristján Skúli.
Boltinn fór að rúlla, Kristján Skúli fékk kraftmikið fólk til liðs við sig og sem fyrr segir voru fyrstu aðgerðirnar framkvæmdar haustið 2015. „Fljótlega náðum við samningi við færeysk heilbrigðisyfirvöld um meðhöndlun á færeyskum konum með brjóstakrabbamein, en upphaflega hugmyndin náði ekki lengra en það, en varð eftir sem áður ákveðin prófraun í því að meðhöndla krabbameinsaðgerðir. Klíníkin þróaðist svo í aðrar áttir, eða í þá átt sem hún er í dag,“ segir Kristján Skúli.
Framkvæma 4000 aðgerðir árlega
Segja má að starfsemin hafi vaxið vel og dafnað á þeim tíu árum sem Klíníkin hefur verið starfrækt, en nýlega var húsnæðið stækkað verulega og skurðstofunum fjölgað úr fjórum upp í sex og 4000 aðgerðir eru gerðar þar árlega. Hrólfur hefur starfað á Klíníkinni frá upphafi og Hjálmar kom til leiks haustið 2016.
„Þessi saga er náttúrulega merki um íslenska brjálsemi í sinni tærustu mynd. Ég kom þarna í fyrsta skipti í október 2015. Þá var nýbúið að framkvæma fyrstu aðgerðirnar og þetta var bara það umhverfi sem mig hafði dreymt um – fjórar vel útbúnar skurðstofur og hlýlegt umhverfi og góður andi í húsinu. Ég sá að þarna gæti ég gert það sem mig langaði, einbeitt mér að liðskiptum á mjöðmum og hnjám, en um leið lagt mitt af mörkum til að minnka biðlista sem voru og eru enn verulegt vandamál í þessum aðgerðaflokki,“ segir Hjálmar, sem flutti heim frá Svíþjóð 2016 og hóf störf hjá Klíníkinni.
„Svo langt frá því að þetta hafi verið sársaukalaust“
Þeir félagar eru sammála um að þrátt fyrir að vita að skrefin væru rétt, hafi þau reynst þyngri en þeir bjuggust við.
„Maður er stundum svo barnalegur, heldur að maður sé að koma til hjálpar með því að koma heim með sína reynslu. Ég gleymi aldrei fyrsta fundinum niður í ráðuneyti, sem ég fór á ásamt ásamt formanni bæklunarlæknafélagsins. Á móti okkur settust tólf starfsmenn ráðuneytisins og á miðjum fundinum rann upp fyrir mér að þeir vildu ekki hafa mig þarna, að ég væri að fara að rugga bátnum og ekki væri vilji fyrir því. Þar hófst minn slagur við kerfið, að fá bara yfir höfuð að gera þessar aðgerðir. Ég hef verið að slást við pólítíkina síðan, meðal annars var heljarinnar vinna að fá það í gegn að við fengjum viðurkennda legudeild, sem hefur verið okkar mesti vaxtabroddur og afar mikilvægur hlekkur í því að létta á kerfinu. Við gerðum okkar fyrstu liðskiptaaðgerð í febrúar 2017 en þær eru nú orðnar rúmlega 3000. Ég hef svo oft hugsað, hvað hefði ég sagt við Hjálmar í dag ef ég gæti horft í spegilinn og séð Hjálmar 2016. Hefði ég sagt; hættu að vinna úti í Svíþjóð og komdu heim og farðu í þessa baráttu. Ég er ennþá efins. En á sama tíma hefur þetta verið ótrúlega gefandi og skemmtilegt og vonandi höfum við breytt lífi margra – en það er svo langt frá því að þetta hafi verið sársaukalaust.“
Kristján Skúli tekur í sama streng; „Þetta hefur verið okkar stef, við höfum stöðugt verið að rugga bátnum, sérgrein fyrir sérgrein. Það þótti nú til dæmis alveg óhugsandi að gerðar væru krabbameinsaðgerðir utan háskólasjúkrahúss eða stórar uppbyggingaraðgerðir án nærveru gjörgæslu. En, við sýndum nú fljótlega fram á að það væri hægt, þannig að við erum svo sannarlega búin að eiga í heilmikilli baráttu við kerfið og pólitíkina. Svo er það líka dálítið merkilegt, að þrátt fyrir alla þessa fundi en það er oft ekki fyrr en sjúklingar eða þeirra stuðningshópar virkja sína krafta sem málin fara að þróast eitthvað áfram. En, við erum öll dálítið stolt af því að hafa tekið þessa slagi og fengið ákveðnum málum framgengt og ég held að við höfum breytt heilmiklu í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta hefur verið erfitt og mikil átök á köflum en ég hefði ekki viljað fara á mis við þetta ævintýri og er afar bjartsýnn fyrir næstu tíu ár. Það eina sem þetta snýst um, burt séð frá hávaða og pólitík, er að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu en þannig breiðist orðið út og úr því verður vöxtur,“ segir Kristján Skúli og Hjálmar tekur undir; „Ef þú ætlar að reka fyrirtæki inn í heilbrigðiskerfinu sem skilar árangri, þá er það eingöngu gert í gegnum sjúklinginn. Fyrst og síðast þarf að bera virðingu og auðmýkt fyrir honum og það held ég að við í Klíníkinni höfum alltaf að leiðarljósi, til þess mætum við í vinnuna. Sjúklingurinn er þinn sendiherra, en það er gott umtal frá honum sem verður til þess að hlutirnir fljóta áfram.“
Hrólfur segir einnig mikilvægt að allt heilbrigðisstarfsfólk hugsi sig í sama liði. „Alveg sama hvort fólk er að koma heim úr námi, íhuga að fara í rekstur eða ekki, þá er mikilvægt að passa sig á skotgröfunum. Þetta eru ekki við og þið heldur erum við öll í sömu baráttunni. Kerfin eru ólík en þau styðja við hvert annað og þurfa á hvert öðru að halda. Og það eru allir velkomnir til okkar til að skoða starfsemina eða kynna sér málin, við tökum fagnandi á móti öllum.“
