01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Fjölbreytt og krefjandi sérgrein. Brynjar Viðarsson

Ég vissi ungur að ég vildi verða læknir. Fór í MR og náttúrufræðibrautin lá beinast við. Eftir útskrift úr læknisfræðinni 1990, hóf ég kandidatsár á sjúkrahúsinu á Akranesi þar sem góðir kollegar voru kennslusinnaðir og leyfðu okkur unglæknum að taka þátt eins við treystum okkur til og okkur var treystandi fyrir. Þar tók ég mitt fyrsta beinmergssýni með Ara Jóhannessyni eðallækni og með hans góðu leiðsögn fann ég listina í góðri beinmergssýnatöku, og fannst ég vera að gera gagn. Vissi ekki þá að blóðlækningafræinu var sáð.

Það var mikil gæfa að kynnast fjölbreyttri læknisfræðinni á Akranesi. Þar voru fáir sérfræðingar með fjölbreytt fagssvið. Við fengum á stuttum tíma víðtæka reynslu. Tókum þátt í öllum aðgerðum, frá botnlangatökum til keisaraskurða. Eftir kandidatsárið á Akranesi langaði mig til að verða skurðlæknir. Sótti spenntur um sérnámsstöðu á skurðdeild Landspítala en fékk engin svör. Lyflækningadeild Landspítala bauð mér hinsvegar stöðu sem ég þáði.

Þar vann ég í þrjú ár á ýmsum deildum, lengur en flestir læknar á mínu reki. Ég naut mín í þverfaglegri vinnu með frábæru fólki, fannst allt skemmtilegt og átti erfitt með að finna óskasérgrein. Fannst þær óþarflega þröngar. Læknisfræðin snerist í mínum huga um að skilja stóra samhengið.

Í lok þessa tímabilis kynntist ég svo blóðmeinafræðinni. Þar fann ég fyrirmyndir sem kveiktu áhuga á flókinni og krefjandi sérgrein þar sem margt var ógert og til margs að vinna. Sérstaklega vil ég nefna Guðmund M. Jóhannesson, einn fremsta frumugreinanda (morphologista) sem ég hef kynnst, og Jóhönnu Björnsdóttur, sem gerði fagið að ævintýri og var einn besti og manneskjulegasti læknir sem ég hafði séð í samskiptum við sjúklinga. Síðast en ekki síst var nýkominn á Landspítala frá Bandaríkjunum ungur, skemmtilegur og framsýnn blóðlæknir, Páll Torfi Önundarson, sem kveikti í mér áhugann á að leita í sérnám þangað.

Ég fluttist því með fjölskyldunni til Madison í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum 1994 til að læra blóðlækningar. Fyrst þurfti þrjú ár í almennum lyflækningum og síðan þrjú ár í blóðlækningum. Ég lagði að auki áherslu á storkumein sem UWHC (háskólasjúkrahúsið í Wisconsin) var þekkt fyrir og blóðmeinafræði, þar með talið að taka og lesa beinmergstrok. Síðan ég kom heim árið 2000 (þegar heimurinn átti að farast) hef ég starfað í hlutastarfi á Blóðlækningadeild og Rannsóknastofu í blóðmeinafræði á Landspítala.

Eins og margar sérgreinar læknis-fræðinnar hefur blóðmeinafræðin breyst. Hún er nú klofin í tvær undirgreinar, blóðlækningar og blóðmeinafræði. Sérnámslæknar velja nú á milli þessara sviða og sumir velja að auki að læra um blóðmeinafræði með eða án krabbameinsfræða. Því meira sem við lærum um öll flókin fræði, því meiri tilhneiging er til að aðgreina fleiri sérsvið. Um leið og ég fagna framförum finn ég einnig mikilvægi þess að undirgreinar læknisfræðinnar einangrist ekki um of í sérþekkingunni.

Að þessu sögðu mæli ég heilshugar með því að ungir framsæknir læknar læri blóðmeinafræði – okkur vantar nýja blóðlækna til Íslands. Við sinnum fólki með mjög sértæka og flókna sjúkdóma. Við þurfum víðtækan og góðan lyflæknisgrunn en þurfum líka að kunna að beita inngripum sem eru nauðsynleg hverju sinni. Við vinnum með erfiða sjúkdóma en sjáum einnig miklar framfarir og það er gefandi í starfi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica