01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Blóðlækningar: Tilviljun eða gripu örlögin í taumana? Ingigerður Sverrisdóttir

Hluti af starfi mínu á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg er að kenna læknanemum, sem mér finnst ákaflega gaman. Nemarnir dvelja á blóðlækningadeildinni í viku og fá að sitja hjá okkur á móttökunni milli fyrirlestra og kennslu, Ég fékk spurningu frá síðasta hópi, þar sem þau veltu fyrir sér hvernig ég endaði í blóðlækningum. Ég svaraði að sjálfsögðu um hæl að fagið væri það skemmilegasta og áhugaverðasta innan lyflækninga en gat samt ekki annað en hugsað: Hvernig endaði ég hér?

Haustið 2010, þá á þriðja ári í læknadeild Háskóla Íslands, blaut á bak við eyrun og enn í tannréttingum, fengum við að velja rannsóknarverkefni til bakkalárgráðu. Ég var fremur ráðvillt, fannst allt áhugavert og úr mörgu að velja. Ein góð vinkona mín benti mér á verkefni um mergæxli en hún hafði heyrt að leiðbeinandinn væri frábær. Minna vissum við um mergæxli enda hvorug heyrt á sjúkdóminn minnst. Leiðbeinandinn var Hlíf Steingrímsdóttir blóðlæknir og verkefnið fjallaði um mergæxli á Íslandi árin 2000 til 2010 og áhrif nýrra meðferða á lifun sjúklinga. Það er skemmst frá því að segja að verkefnið var ákaflega lærdómsríkt og kveikti neista sem erfitt reyndist að slökkva.

Mér varð fljótt ljóst á fjórða ári í læknanáminu að ég yrði aldrei skurðlæknir enda er ég með ákaflega lélega rýmisgreind. Lyflækningar heilluðu og ég var svo heppin að fá að vera á blóðlækningadeildinni í tvær vikur. Ég heillaðist algjörlega af faginu og varð nokkurn veginn viss um að ég vildi verða blóðlæknir. Mér fundust reyndar meltingarlækningar mjög skemmtilegar en eiginmaður minn bannaði mér góðfúslega að fara í sama fag og hann. Í blóðlækningum er skjólstæðingum sinnt allt frá því fyrir greiningu og eins lengi og þörf krefur, þannig að eftirfylgnin er mikil. Greiningarvinnan er mjög skemmtileg og oft krefjandi, nokkurs konar gáta sem þarf að leysa með hjálp margra sérfræðinga: erfðafræðinga, meinafræðinga og blóðlækna. Það hentaði gátufíklinum vel. Í Reykjavík vann ég með frábærum sérfræðingum og fékk að vera hluti af öllu ferlinu. Það er til dæmis sérlega minnisstætt að ganga inn á rannsóknarstofu með beinmergssýni og skoða sjálf í smásjá. Slíkt er ómetanleg reynsla sem kollegar mínir hér í Gautaborg öfunda mig af.

Við fluttum til Svíþjóðar 2019 og ég byrjaði á blóðlækningadeildinni hér í Gautaborg 2020. Framfarir í faginu eru miklar, ný lyf virðast spretta upp eins og gorkúlur og horfur sjúklinga eru mun betri en áður. Til að mynda eru tvíhliða mótefni (bispecific antibodies) samþykkt sem meðferð við langt gengnu mergæxli og hefur gjörbreytt horfum þessara sjúklinga. Við höfum einnig val um að gefa CAR-T frumumeðferð sem er enn sem komið er aðallega notað gegn eitlakrabbameini. Þessar meðferðir eru stundum eins og hreinn og beinn vísindaskáldskapur: frumum er safnað frá sjúklingi og þær svo forritaðar í öðru landi og síðan fær sjúklingurinn frumurnar til baka eftir lyfjagjöf. Vonin er sú að þá sjúkdóma sem taldir hafa verið ólæknandi, eða þar sem hætta á endurkomu er mikil, verði hægt að lækna í nánustu framtíð.

Öll vötn falla til Dýrafjarðar eða í mínu tillfelli til blóðlækninga. Fimmtán árum eftir að ég kláraði rannsóknarverkefnið mitt er ég enn að fást við mergæxli, bæði í rannsóknum og í klíniskri vinnu.Mér finnst ég lánsöm að hafa valið blóðlækningar og er þakklát fortíðarsjálfinu að hafa rambað á rétt vísindaverkefni sem leiddi mig inn á þessa braut.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica