01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Málverk afhent Læknafélagi Íslands

Á haustdögum hafði Ólafur Jónsson svæfinga- og gjörgæslulæknir samband við Læknafélag Íslands og tilkynnti að hann vildi gefa félaginu vatnslitamynd af Nesstofu á Seltjarnarnesi. Stjórn félagsins ákvað með þökkum að þiggja þessa góðu gjöf. Ólafur og eiginkona hans, Bára Þorgrímsdóttir, afhentu formanni LÍ, Steinunni Þórðardóttur, myndina 17. nóvember síðastliðinn.

Myndina af Nesstofu málaði Gunnlaugur Stefán Gíslason (1944-2021) listmálari. Myndina fékk Ólafur að gjöf á fimmtugsafmæli sínu 1985 frá systkinum sínum, Sigurgeiri og Margréti Jónsbörnum.

Á myndinni er skjöldur sem á stendur: Nesstofa. Til Læknafélags Íslands 2025 frá Ólafi Jónssyni lækni f. 1935.

Það er skemmtileg tilviljun að vatnslitamynd af Nesstofu berst Læknafélaginu á sama tíma og verið er að leggja lokahönd á stofnun Lækningaminjasjóðs Jóns Steffensens. Nesstofa á Seltjarnarnesi var byggð á árunum 1761-1763 sem aðsetur Bjarna Pálssonar (1719-1779), fyrsta landlæknis Íslendinga. Nesstofa komst í einkaeigu árið 1834 en ríkissjóður keypti húsið í tveimur áföngum árin 1976 og 1979. Nesstofa er nú í umsjón Þjóðminjasafnsins og er það von Læknafélagsins að þar verði í framtíðinni unnt að hafa sýningar á lækningaminjum Jóns Steffensen, sem hann ánafnaði íslenska ríkinu við andlát sitt.

Stjórn Læknafélags Íslands þakkar Ólafi Jónssyni af heilum hug fyrir þessa góðu gjöf. Myndinni verður fundinn viðeigandi staður í húsakynnum félagsins í Hlíðasmára 8, Kópavogi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica