01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Fjölbreytt og fræðandi dagskrá á boðstólum á Læknadögum

 

Að vanda verður mikið um að vera á Læknadögum í Hörpu dagana 19.-23. janúar næstkomandi. Á hverjum degi verða sex málþing og þrír til fimm hádegisfyrirlestrar. Ráðstefnan opnar á mánudeginum með tveimur málþingum um áfengi og lýðheilsu en áfram verður fjallað um þetta mikilvæga málefni á opnu málþingi fyrir almenning á miðvikudeginum. Á þriðjudeginum má nefna málþing um meðferðarmöguleika við slagi og málþing um algeng vandamál í meltingarlækningum. Á miðvikudeginum verður hægt að fræðast um nýjungar í meðferð lungnasjúkdóma fyrir hádegi og nýjungar á ýmsum sviðum læknisfræðinnar eftir hádegi. Einnig verður málþing tileinkað vísindastarfi á Íslandi á miðvikudeginum þar sem verða stuttar kynningar á doktorsritgerðum við læknadeild 2024-5 og heiðursvísindamaður málþingsins heiðraður. Á fimmtudeginum verða tvö málþing sem tengjast meðgöngu, annarsvegar innkirtlasjúkdómum á meðgöngu og hins vegar lyfjameðferð á meðgöngu. Málþing um óþarfalækningar og hvernig hægt er að vanda valið á rannsóknum verður á fimmtudeginum. Einstaklingssniðin heilbrigðisþjónusta hefur verið í kastljósinu undanfarið og verður málefni málþings á föstudeginum. Einnig verða á dagskrá föstudagsins málþing um húðkrabbamein og málþing um ristil-og endaþarmskrabbamein á Íslandi. Ríkulegt framboð verður af vinnubúðum og vinnustofum af ýmsu tagi, allt frá líkamsskoðun yfir í vinnustofu um gerð gagnagrunna. Dagskrárliðirnir sem hér hafa verið nefndir eru einungis brot af því spennandi framboði sem er á Læknadögum en dagskrána má finna á heimasíðu Læknafélagsins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica