01. tbl. 112. árg. 2026
Umræða og fréttir
Er öryggi sjúklinga ógnað af erlendum starfskröftum?
Ný tungumálastefna Landspítala, þar sem kveðið er á um að íslenska sé aðaltungumál spítalans og að starfsfólk í beinni þjónustu við sjúklinga skuli skilja og tala íslensku, hefur vakið verulegar umræður innan heilbrigðiskerfisins. Í tilkynningu spítalans í byrjun desember er lögð áhersla á að stefnan sé liður í að tryggja öryggi sjúklinga. Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, yfirlæknir heilsugæslu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, segir að stefnan sé ekki nægilega útfærð því erlendir læknar gegni víða lykilhlutverkum.
Súsanna bendir á að framsetning Land-spítala geti leitt til misskilnings um að skylda sé lögð á allt heilbrigðisstarfsfólk, þar með talið lækna, um að búa yfir full-nægjandi íslenskukunnáttu. Hún segir að í kynningu spítalans komi ekki skýrt fram hvort læknar falli undir þessa skyldu. „Ef Landspítalinn fullyrðir að það ógni öryggi sjúklinga að starfsmaður í beinni þjónustu tali ekki íslensku, hvernig geta þeir þá réttlætt að erlendir læknar, þar á meðal á bráðamóttöku, starfi þar? Þetta er þversögn sem stofnunin þarf sjálf að skýra,“ segir hún.
Vestfirðir byggja þjónustuna á erlendum læknum
Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eru fimm danskir læknar starfandi á Ísafirði, sem er helmingur lækna á staðnum. Súsanna segir það einfaldlega ekki raunhæft að krefjast þess að þeir tali íslensku að því marki sem tungumálastefnan virðist gera ráð fyrir. „Ef ég myndi senda alla dönsku læknana heim gæti ég ekki mannað vaktirnar. Valið er í raun milli þess að hafa lækni sem talar ekki íslensku eða að hafa engan,“ segir hún.
Hún segir að gert sé ráð fyrir öflugri stoðþjónustu og teymisvinnu til að tryggja samskipti og öryggi. Dönsku læknarnir séu aldrei einir á vakt á Ísafirði og byggi á samvinnu við hjúkrunarfræðinga og sérfræðinga. Þar með sé tryggt að þeir standi ekki einir frammi fyrir sjúklingum sem þeir skilji ekki. Á Patreksfirði sé hins vegar til dæmis önnur staða þar sem læknar eru oftar einir á vakt, sem geri það að verkum að erlendir læknar séu síður raunhæfur kostur þar.
Samfella og öryggi fyrir íbúa
Súsanna segir að rekstrarlíkan sem byggir á erlendum læknum hafi skapað meiri samfellu í þjónustu en áður tíðkaðist. Í stað þess að treysta á íslenska verktakalækna sem kæmu í einnar viku lotum, oftast einu sinni til þrisvar á ári, séu danskir læknar oft í ársstöðum. Það þýði að sjúklingar geti oftar hitt sama lækni og átt betri möguleika á eftirfylgd og lausn sinna mála. „Þetta eykur öryggi og gæði þjónustunnar. Það er mun betra fyrir sjúkling að hitta sama lækninn nokkrum sinnum á ári heldur en að taka við vaktalæknum sem koma og fara,“ segir hún.
Að mati Súsönnu gæti skilyrði um íslenskukunnáttu fyrir alla lækna haft víðtækar og neikvæðar afleiðingar, bæði á Landspítala og á landsbyggðinni. Hún nefnir sem dæmi að erlendur læknir starfi á bráðamóttöku Landspítala og því sé brýnt að spítalinn útskýri hvernig það falli að þeirra eigin röksemd að tungumál sé öryggismál. „Ef þessi krafa verður lögð á læknastéttina, er hætt við að margar heilbrigisstofnanir lendi í erfiðleikum með að sinna grunnþjónustu. Erlendir læknar eru víða burðarásar í kerfinu,“ segir hún.
Eini fastráðni sérfræðingurinn
Hún segir að það sé sérstaklega erfitt að heyra slíkar kröfur settar fram þeg-ar hún sé eini íslenski fastráðni sér-fræðingurinn á Heilbrigðisstofnun Vest-fjarða og reki þjónustu sem sé þeg-ar brothætt. Svo sé skurðlæknir sem hafi ráðið sig til eins árs, en öll hin séu unglæknar, almennir læknar og sérnámslæknar í heimilislækningum „Það myndi allt hrynja ef erlendu læknarnir þyrftu að fara,“ segir hún.
Að lokum bendir hún á að fleiri stofnanir séu þegar farnar að leita erlendra lækna, meðal annars Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hún segir að það endurspegli að heilbrigðiskerfið sé háð erlendu starfsfólki og að stefnumótun þurfi að taka mið af raunverulegum aðstæðum, ekki aðeins hugsjónum. Hún óttast að umræðan um tungumálastefnu hafi verið „matreidd á rangan hátt“ og að áherslur sem eigi að auka öryggi sjúklinga gætu í reynd grafið undan grunnþjónustu á landsbyggðinni.
