01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Háskóla Íslands: Vaka Kristín Sigurjónsdóttir

Vaka Kristín Sigurjónsdóttir varði doktors-ritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands þann 18. nóvember síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Árangur nýraígræðslna hjá börnum: lífmerki og áhættumat til ákvörðunar ónæmisbælandi meðferðar.

Andmælendur voru dr. Vasilis Kosmoliaptsis, prófessor við University of Cambridge og ígræðsluskurðlæknir við Addenbrooke's Hospital, Cambridge, og dr. Jean-Luc Taupin, prófessor við Paris Diderot University og Saint-Louis Hospital í París.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Runólfur Pálsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðrir leiðbeinendur voru Paul Grimm, prófessor, Abanti Chaudhuri, prófessor, og Bing Melody Zhang, dósent, öll við Stanford University.

Nýraígræðsla er kjörmeðferð barna með lokastigsnýrnabilun og hefur ítrek-að verið sýnt fram á að hún bætir bæði lífslíkur og lífsgæði samanborið við skil-unar-meðferð. Þrátt fyrir þetta er langtímaárangur enn undir væntingum. Markmið rannsóknarinnar var að finna lífmerki sem nýtast til að meta áhættu og sérsníða ónæmisbælandi meðferð hjá börnum með ígrætt nýra. Helstu þættir sem rannsakaðir voru tengdust ónæmissvörun eftir ígræðslu. Niðurstöður rannsóknarinnar skapa grundvöll fyrir nýtt líkan um einstaklingsmiðaða ónæmisstýringu eftir nýraígræðslu barna. Líkanið byggir á því að nýta lífmerki til að greina áhættu og bregðast við snemma, áður en skemmdir koma fram. Með þessari nálgun má færa eftirlit frá því að vera viðbragðsmiðað yfir í fyrirbyggjandi og sérsniðið fyrir þarfir hvers barns. Markmiðið er að lengja líftíma ígrædda nýrans og draga úr aukaverkunum

Vaka Kristín lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Árið 2013 hélt hún til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem hún lauk sérnámi í barnalækningum við Connecticut Children´s Medical Center og University of Connecticut árið 2016. Vaka lauk sérnámi í nýrnalækningum barna við Lucile Packard Children's Hospital og Stanford University árið 2019. Hún hefur gegnt stöðu lektors og barnanýrnalæknis við University of Miami í Bandaríkjunum frá árinu 2021, þar sem verkefni hennar hafa beinst að ígræðslulækningum barna. Hún hefur jafnframt starfað sem rannsakandi við Stanford University frá árinu 2019. Vaka hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2019, og hefur doktorsverkefnið verið unnið samhliða klínísku og fræðilegu starfi erlendis.

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Ástæðurnar hafa breyst með tímanum. Ég ákvað snemma að verða læknir og vildi hjálpa öðrum, án þess þó að hafa skýra mynd af því hvað læknisstarfið felur í sér.

Hversu erfitt er að verða doktor, á skalanum 1-10?

Það er erfitt að velja eina tölu til að lýsa því. Doktorsnámið tók mig sex ár og var að mestu unnið samhliða klínísku og fræðilegu starfi í Bandaríkjunum. Á þeim tíma var ég bæði nemandi og leiðbeinandi annarra nema og vann í rannsóknarsamstarfi við marga háskóla. Að flétta saman klíníska vinnu og rannsóknir er mín rétta hilla. Ég upplifði námið aldrei sem sérstaklega erfitt, heldur sem eitt mest gefandi og skemmtilegasta sem ég hef gert á ferlinum.

Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Ég myndi leggja áherslu á að setja sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í tryggingakerfið sem óaðskiljanlegan hluta heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa og tannheilsa hafa bein áhrif á lífsgæði, menntun, atvinnuþátttöku og langtímakostnað heilbrigðiskerfisins. Þetta er bæði réttlætis- og lýðheilsumál.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Ég hef alltaf haft gaman af því að ferðast og hef notið þess að búa í Miami, þar sem daglegt líf minnir oft á frí. Utan vinnu snýst tíminn þó fyrst og fremst um samveru með börnunum-strandferðir, sund, söfn og útiveru.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica