01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Háskóla Íslands: Hildur Margrét Ægisdóttir

Föstudaginn 12. desember 2025 varði Hildur Margrét Ægisdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Erfðir hjartsláttartruflana, raflífeðlisfræði hjartans og yfirliðs.

Andmælendur voru dr. Arthur AM Wilde, prófessor við Háskólasjúkrahúsið í Amsterdam, og dr. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild HÍ.

Umsjónarkennari var Davíð O. Arnar og leiðbeinandi Hilma Hólm. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, Rósa Björk Þórólfsdóttir og Daníel F. Guðbjartsson.

Verkefnið fjallar um áhrif erfða á ofansleglahraðtakt og leiðslutruflanir í hjarta, sem og yfirlið, sem hafa verið lítið rannsökuð. Notuð var víðtæk erfðamengisleit og viðbótaraðferðir eins og genaskor og Mendelsk slembiröðun. Í fyrsta hluta verkefnisins fundust tengsl tíu erfðabreytileika við ofansleglahraðtakt, sem benda meðal annars til að virkni natríumjónaganga, kalíumjónaganga og ósjálfráða taugakerfisins eigi þátt í hættu á ofansleglahraðtakti. Í öðrum hluta fundust tengsl 162 erfðabreytileika við leiðslutruflanir í hjarta og voru margir þeirra einnig með tengsl við gáttatif og hjartavöðvakvilla. Meðal erfðabreytileikanna var auðgun í bindisetum fyrir GATA-4 og ESRRG, sem eru tjáningarþættir sem eiga hlut í ofvexti á hjartavöðva. Í þriðja og seinasta hlutanum fundust tengsl 18 erfðabreytileika við yfirlið, sem ekki tengdust öðrum sjúkdómum. Auðgun meðal erfðabreytileikanna í stjórnsvæðum sem eru sértæk taugavef, og áhrif þeirra á stjórnun hjartsláttarhraða benda á hlutverk úrvinnslu ósjálfráða taugakerfisins í meingerð yfirliða.

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Ég var ekki með svo fastmótaðar hugmyndir um hvað ég vildi hafa að ævistarfi þegar ég þreytti inntökuprófið 19 ára. En ég hafði vissan áhuga á líffræði og mannslíkamanum. Svo að sjálfsögðu langaði mig að gera eitthvað sem gæti virkilega gagnast öðru fólki. Eftir því sem ég þroskaðist sem manneskja og læknir hefur það að upplifa að maður þjóni tilgangi dagsdaglega, öðrum en bara gagnvart sjálfum sér, reynst mér mjög dýrmætt.

Hversu erfitt er að verða doktor, á skalanum 1-10?

Þessu get ég hreinlega ekki svarað. Á erfiðustu tímunum virðist það stundum vera óyfirstíganlegt að klára doktorsnám en í samhengi hlutanna er þetta eins og hvert annað langtímaverkefni, kemur með einum bita í einu.

Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Fyrsta verk væri að finna lausnir á margumtöluðum vanda bráðamóttöku Landspítala hvað varðar vinnuaðstöðu, mannafla og fráflæði til legudeilda. En frá mínum bæjardyrum séð, hef ég verið að vinna á heilsugæslu, og þar finnst mér brýnt að þættir sem heyra undir heilbrigðiskerfið annars vegar og velferðarkerfið hins vegar séu meira í takt við hvort annað. Fólki er að fjölga, það er að eldast og fjölbreytni að aukast í samfélaginu, og ýmis konar vandamál sem þarfnast í raun inngrips velferðarkerfisins lenda á borði heilsugæslunnar með tilheyrandi flækjustigi og óþarfa kostnaði.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Bardúsa eitthvað með dætrum mínum, en ég er svo heppin að eiga alveg einstaklega skemmtileg börn. Og spila tennis.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica